28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (3032)

192. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessar umr., en vildi þó segja nokkur orð út af þeirri dagskrá, sem flutt er af hv. 7. þm. Reykv., og ræðu þeirri, sem hann hefur nú flutt.

Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir, er þetta frv. flutt af meiri hl. sjútvn. eftir ósk Fiskveiðasjóðs Íslands og er um það raunverulega, að eftirleiðis verði greitt til fiskveiðasjóðs sama gjald af útfluttum saltfiski eins og nú er greitt af öðrum sjávarafurðum. Það er nú svo, að á þessu máli eins og fleirum, eru tvær hliðar, og hv. 7. þm. Reykv. dvaldi í ræðu sinni áðan eingöngu við þá hliðina, sem veit að þeim, sem flytja út saltfisk. Ég get viðurkennt, að frá þeirra sjónarmiði kynni að vera óæskilegt, að þetta frv. gangi fram, og hafa þeir sitt af hverju til síns máls. En það er önnur hlið á þessu máli, og það er sú hlið, sem snýr að þeim mönnum, sem þurfa á lánsfé að halda úr fiskveiðasjóði, og það er engu síður ástæða til þess að taka tillit til þeirra. Þeir eru margir útgerðarmennirnir, sem núna sækja um lán til þess að kaupa sér báta, til þess að koma upp ýmiss konar aðstöðu í landi til hagnýtingar á afla, hraðfrystihúsum, fiskimjölsverksmiðjum og fleiri sams konar mannvirkjum. Þörf þessara manna fyrir hagstæð lán er ákaflega brýn.

Ég held, að ég hafi gert grein fyrir því hér við 1. umr. málsins, að fyrir hefðu legið núna fyrir stuttu í fiskveiðasjóði umsóknir um lán frá þessum aðilum fyrir eitthvað um 7 millj. kr., sem fiskveiðasjóðurinn telur nauðsynlegt að sinna nú á næstunni, en á mjög erfitt með að sinna í þeim mæli, sem nauðsynlegt væri. Þó er það fullvíst, að hér er engan veginn fram komið allt það, sem menn um þessar mundir hafa hug á að koma í framkvæmd. Það er þessi mikla þörf til þess að auka lánsféð úr fiskveiðasjóði, sem hefur orðið til þess, að við höfum orðið við ósk sjóðsstjórnarinnar um að flytja þetta frv., og ég vil leyfa mér að halda því fram, að full ástæða sé til þess, að Alþ. hafi þetta sjónarmið ríkt í huga.

Það má vel vera, að einhverjir möguleikar séu til þess að sjá fiskveiðasjóði á annan hátt fyrir auknu starfsfé nú, en það er nú svo, að nú er búið að afgreiða fjárl. fyrir árið 1953, og í sambandi við þau hafa ekki verið uppi till. um slík framlög til sjóðsins. Ég geri líka ráð fyrir því, að nokkrir örðugleikar verði á því að afla slíks fjár. Hins vegar er það, að menn hafa orðið ásáttir um það nú um langa hríð að afla sjóðnum starfsfjár á þann hátt að láta renna til hans útflutningsgjald af sjávarafurðum. Þetta gjald rann áður í ríkissjóð, en fyrir nokkrum árum afsalaði ríkissjóður sér þessum tekjustofni til fiskveiðasjóðsins í því skyni að efla möguleika hans til lánveitinga.

Ég vil svo aðeins benda á það að lokum, að það er dálítið hæpið að tala um það, að hér sé verið að leggja skatt á útgerðina með álagningu þessa gjalds, vegna þess að í raun og veru fer þetta fé allt til útgerðarinnar. Af þessu fé eru veitt lán til útgerðarinnar og í hennar þágu með góðum kjörum, og engu af því er varið á annan hátt. Þess vegna er það dálítið vafamál, að rétt sé að tala um skatt á útgerðina í þessu sambandi.

Annars geri ég ekki ráð fyrir, að ástæða sé til að hafa miklar umræður um þetta mál, og skal ekki gera það fyrir mitt leyti. Málið liggur mjög ljóst fyrir og engin vandkvæði á því að taka afstöðu til þess við atkvgr. við þessa umr. Það hefur þegar verið samþ. við tvær umr. hér í deildinni, og ég held, að bezt fari á því að samþ. það einnig við þessa umræðu.