03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

194. mál, sparisjóðir

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það ætlar að sannast á mér, að það eru margir, sem vilja taka til máls í kvöld. Ég skal samt ekki orðlengja nú, þar sem áliðið er dagsins, mikið um þetta mál.

Ég verð að segja það, að ég get ekki séð annað, en það sé fullforsvaranlegt, að Landsbankinn hafi á hendi endurskoðun sparisjóða. Ég hef ekki heyrt, þar sem hann hefur komið fram gagnvart sparisjóðum yfirleitt, fyrr en núna fyrst, að það væri nokkuð varasamt að láta hann fylgjast með sparisjóðunum. Ég veit það, að það eru ýmsir sjóðir, sem hafa komizt í vandræði og fjárþrot, og það hefur venjulega verið leiðin að leita einmitt til Landsbankans. Ég held, að það sé ekki langt að fara, að þangað hefur verið leitað. En hvað um það; það eru deildar meiningar um þetta, en ég held, að þeir hafi það góða menn, fulltrúa sína eða endurskoðendur, að þeir muni frekar fara sem leiðbeinendur til sparisjóðanna heldur en spíónar til þess að bregða fæti fyrir þá eða gera þeim óleik, til þess að Landsbankinn auðgist við þá viðureign. — En það, sem ég vildi segja nú, er það, að það væri mjög hægt fyrir n. nú undir 3. umr. að fá þessu breytt, ef menn eru mjög óánægðir með það yfirleitt hér í d. að hafa Landsbankann, og sjá þá einhvern annan útveg. En það, sem fyrir mér vakti núna, var það, að sparnaðartill. er komin fram, sem er eiginlega sjálfsögð og hægt að láta ganga fram, án þess eiginlega að amast við nokkrum manni, því að sá maður, sem hefur þetta starf á hendi, lætur af því eftir rösklega ár fyrir aldurs sakir, og þá kemur af sjálfu sér, að annar fær embættið. En ég tel enga nauðsyn á því að halda áfram þessu fordýra embætti, þegar það er boðið annars staðar frá að gera það án þess, að það kosti ríkið einn einasta eyri. Og jafnvel ef menn eru óánægðir með að fá þetta svona auðveldlega og þurfa ekkert að borga fyrir það, þá mætti finna útvegi, sem aðrir og yfirleitt þingið væri nokkurn veginn ánægt með, þótt ekki væri borgað nema fjórðungur af þeirri greiðslu, sem nú er greidd. Þetta væri mjög auðvelt að athuga í n. til 3. umr., þó að nú væri frv. samþ. við þessa umr., því að þá er enn tími til afturhvarfs. Mér sýnist menn ekki svo sparir til athafna að vega að málum hér, að þeir mundu guggna við það við 3. umr. að drepa þetta frv., ef þeim líkaði það ekki.