12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (3054)

26. mál, fjárhagsráð

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fjhn. hafði klofnað um þetta mál, og ég legg til, að þetta frv. sé samþ. óbreytt. Ég hef gert allýtarlega grein fyrir því í nál. á þskj. 329, svo að ég þarf ekki að flytja langt mál hér um þetta mál. Það er, eins og hv. þm. vita, um það, að bygging íbúða, sem ekki eru stærri en nú eru verkamannabústaðir, lögákveðnir verkamannabústaðir, sé gefin frjáls, sé heimil án fjárfestingarleyfis. Slíkar lagabreytingar eins og þessar hafa oft áður verið hér fyrir þessari hv. deild og hafa þá ætíð hlotið samþykki hér í deildinni, en þegar svona mál hafa verið stöðvuð, þá hefur það verið annars staðar, eins og t. d. í Ed.

Ég held, að það sé öllum orðið ljóst, ekki sízt með tilliti til lánsfjárerfiðleikanna, sem nú eru, að það er það erfitt að ráðast í að byggja nú, að það er engin þörf á að hafa neitunarvald í því, a. m. k. á íbúðum, sem eru af sömu stærð og verkamannabústaðirnir mega vera eða minni. Það er engin þörf á að hafa hemil eða neitunarvald hjá fjárhagsráði á þeim byggingum, og atvinnuþörfin fyrir byggingaverkamenn er gífurleg eins og vitað er. Það getur enn fremur ekki álitizt eðlilegt, að í okkar landi, þar sem húsnæðisskorturinn er tilfinnanlegur, þá séu lagðar svona miklar hömlur af ríkisins hálfu á að byggja, en jafnframt séu á sama tíma gerðar stórfelldar ráðstafanir til þess að setja íslenzkt vinnuafl suður á Keflavíkurflugvöll til þess að byggja þar milli 500 og 900 íbúðir handa útlendingum, á meðan íslenzkt fólk sárvantar íbúð og gengur atvinnulaust, en fær ekki leyfi af ríkisstj. til þess að mega vinna að íbúðarhúsabyggingu. Niðri í Danmörku hafði fyrir nokkrum árum verið afnumið það bann, sem áður var eða þau höft, sem áður voru á byggingu íbúða, sem voru undir 130 m2, og nú nýlega er búið að afnema þar allar slíkar hömlur, þannig að þar er það svo að segja alveg frjálst orðið að mega byggja. Og þær röksemdir, sem voru 1947 fyrir því að takmarka þá og veita fjárhagsráði það vald, sem það þá fékk, eru raunverulega ekki lengur fyrir hendi. Þá var svo mikil atvinna hér heima, að það þótti stofna til erfiðleika, ef ekki væru hafðar hömlur á þessum hlutum, þ. e. of mikillar samkeppni um vinnuafl, og leiða til skorts og uppsprengds verðs á byggingarefni, ef ekki væru hafðar hömlur á. Nú er hins vegar atvinnuleysi, og sannleikurinn er, að það mundi ekki standa á innflutningi byggingarefnis, svo framarlega sem frjálst væri að flytja inn byggingarefni og mönnum væri leyft að byggja. Hitt er svo aftur vitanlegt mál og yrði að ræðast á öðrum vettvangi, að til þess að menn geti notað sér til fulls það frelsi, sem menn fengju, ef þetta frv. væri samþ., þ. e. frelsi til þess að byggja, þá þarf að breyta um stefnu í lánsfjármálunum. Það er annað, eins og ég hef minnzt á. — Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. deild samþ. þetta mál eins og hún hefur gert áður, þegar þetta mál hefur verið hér til umræðu, og að það fái að halda áfram a. m. k. í gegnum þessa deild.