13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

29. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú verið flutt á þremur undanförnum þingum, svo að þetta er nú gamall kunningi og er nú flutt enn, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upphafið á grg.:

„Frv. samhljóða þessu hefur verið flutt á tveimur síðustu þingum, en þörfin fyrir samþykkt þess er orðin brýnni nú en nokkru sinni fyrr. Frv. fylgdi þá svo hljóðandi grg.: Frv. samhljóða þessu var flutt 1949 að tilhlutun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Í grg. fyrir því frv. er sagt, að það væri flutt vegna breyttra viðhorfa í atvinnumálum þjóðarinnar og vaxandi atvinnuleysis verkafólks. Því verður ekki neitað, að síðan frv. þetta var síðast flutt, hefur mikið sigið á ógæfuhliðina fyrir verkafólki í atvinnumálum og nauðsynin fyrir lagasetningu sem þeirri, er frv. þetta gerir ráð fyrir, því brýnni nú. Fáir munu treystast til að neita því, að það sé mesta verðmætissóun þjóðfélagsins, er vinnufærir menn fá ekki atvinnu um lengri eða skemmri tíma, og að það sé frumskylda þjóðfélagsins að sjá hverjum vinnufærum þegn fyrir hæfilegri atvinnu, en taka ella á sig þá ábyrgð, er leiðir af atvinnuleysi.“

Þetta í þessari grg. er jafnnýtt í dag og það var fyrst, þegar frv. var flutt. En það hafa sem betur fer orðið dálitlar breytingar á hug hv. Alþingis frá því að frv. var flutt og þangað til í dag, því að fyrst kom þetta frv. aldrei frá n. og var ekkert átt við það, og svo í fyrra, eftir að flutt var af Alþýðuflokksmönnunum till. um nefnd til þess að athuga þessi atvinnuleysismál, þá var því vísað eiginlega til aðgerða þeirrar n., sem var samt eiginlega aldrei kosin. Þegar þetta var flutt fyrst, var það flutt af Verkamannafélaginu Dagsbrún beinlínis af þeirri þörf, sem var þá orðin hjá verkamönnum um öryggi vegna atvinnuástandsins. Og enn eitt: Á þeim árum, þegar atvinnuleysi var ekki neitt og allir höfðu nóg að vinna, stóð í fjárl. hv. Alþingis alltaf eitthvað frá 3–5 millj. til atvinnubóta. Þegar virkilega var orðin þörf fyrir það var það dregið út. En afleiðingin af flutningi þessa frv. er nú eins og sakir standa, að enn er flutt till. um nefnd af Alþýðuflokksmönnunum til þess að athuga tryggingamálin og atvinnuleysistryggingarnar, og af Sjálfstfl. er flutt nú fyrst frv. um atvinnubótasjóð. Og öll þau rök, sem hafa verið fyrir þessu máli, eru þau sömu og var í þessu frv., að atvinnuleysið væri þjóðfélagsböl og það væri verðmætissóun fyrir þjóðfélagið að láta fólkið ganga atvinnulaust. Með mismunandi sterkum orðum taka allir menn undir þessa hlið málsins, og ég vona, eftir því sem fram hefur komið, ef athöfn fylgir orðum, að þá sé séð algerlega fyrir fjárhagshlið þessa máls, þingið sé sammála um fjárhagshliðina fyrir þessu máli, og að það geti ekki dregist lengur, að eitthvað verði gert til þess að mæta þeim voða, sem enginn getur haft nógu sterk orð til að lýsa.

En þá er það hin hliðin á málinu, sem eftir er, og það er fyrirkomulagið. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að verkalýðsfélögin á staðnum hafi umsjón með atvinnuleysissjóðnum og úthlutun hans. Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir, að bæði ríki og bæir og atvinnurekendur leggi fram fé til sjóðsins. En það er hvergi gert ráð fyrir því í frv., og við flm. höfum talið, að bezt væri fyrir því séð, að kostnaðurinn við úthlutun fjárins væri það, sem verkalýðsfélögin sjálf legðu til. Og ég er sannfærður um það, hvort sem það eru atvinnuleysistryggingar eða annað, að þá á að koma því svo fyrir, að fólkið, sem á að njóta þess og það á að veita öryggi, á að passa það sjálft. Og það er enginn vafi á því, að því máli eru verkamennirnir og mennirnir, sem eru í daglegu stríði við þetta, kunnugri, og það verður síður notað til neins annars en ætlazt er til með því að mennirnir, sem eiga að sjá um það og njóta þess, hafi ábyrgð á því. Og ég er viss um, að í framtíðinni hlýtur það að verða hið raunverulega tryggingakerfi, sem svoleiðis verður framkvæmt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri en að lokinni þessari umr. óska ég eftir, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.; það hefur alltaf verið þar, af því að þetta eru tryggingamál. Þó að um fjárframlög sé þarna að ræða, hefur þótt eðlilegra að hafa það í þeirri nefnd.