02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

29. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það er staðreynd, að menn ganga nú atvinnulausir, og hafa lengi gengið, hundruðum og jafnvel þúsundum saman hér á Íslandi. Vænti ég þess, að af þeirri staðreynd geri sér allir grein fyrir því, að víða ríkir nú algert neyðarástand á heimilum verkamanna. og læt ég hjá líða að nefna að sinni einstök dæmi.

En hér liggur fyrir frv. um atvinnuleysistryggingar, enn einu sinni flutt af sósíalistum.

Hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. vill ekki láta samþ. frv. og leggur það m. a. fram sem rök til stuðnings afstöðu sinni, að framkvæmdanefnd Vinnuveitendasambands Íslands líti svo á, að „með tilliti til erfiðleika þeirra, sem íslenzkt atvinnulíf á nú við að etja“, eins og það er orðað, „sé alls kostar óverjandi að leggja þann gífurlega skatt á atvinnurekendur, er frv. gerir ráð fyrir, að þeir greiði í sjóð verkalýðsfélaganna.“

Í hverju lýsa sér þá þessir erfiðleikar, að atvinnuveitendur hafi ekki ráð á að greiða sem svarar 4% af heildarupphæð vinnulauna þess fólks, sem þeir hafa í þjónustu sinni, en það ættu þeir að gera samkv. frv.? Lýsa þessir erfiðleikar sér í því, að vinnuveitendur verði að ganga um í sömu slitnu verkafötunum dag hvern, eins og margur atvinnuleysinginn nú, og eiga ekki til skiptanna á sunnudögum? Lýsa þeir sér í því, að börn vinnuveitenda verði að alast upp kirtlaveik og með ljótan hósta í heilsuspillandi braggaræksnum og kjallaraholum og pabbi þeirra hafi ekki ráð á að styrkja heilsu þeirra með lágmarksskammti af mjólk? Lýsa þeir sér í því, að vinnuveitendur hafi ekki ráð á að kaupa kol né olíu til að hita upp híbýli sín og konur þeirra þurfi af þeim sökum að byrja daginn með því að brjóta klaka af vatnsílátum í eldhúskytrum sínum?

Nei, svona slæmt skal ástandið alls ekki verða áður en ég viðurkenni, að vinnuveitendur eigi erfitt. En sannið fyrir mér, að lífskjör þeirra, t. d. einhvers úr framkvæmdanefndinni, séu þótt ekki væri nema ofur lítið í líkingu við lífskjör verkamanna, og ég skal anza þessum rökum. Hins vegar finnst mér ekki hægt að taka undir svona tal, meðan það er á hvers manns vitorði, að allir meiri háttar vinnuveitendur að minnsta kosti, eins og aðrir hlutar yfirstéttarinnar, hafa hin síðari ár lifað við meiri auð og meiri lúxus en áður voru dæmi til í sögu landsins.

Einn vinnuveitandi keypti nýlega 350 þús. kr. íbúð handa syni sínum, sem trúlofaðist og hugði á hjúskap. Mundi þessi maður hafa komist á kaldan klaka, ef honum hefði verið gert að greiða sem svarar 4% af kaupi starfsfólks síns, til þess að hinn atvinnulausi verkamaður gæti hitað upp braggann, þar sem hann verður að ala upp börn sín? Þeir, sem hafa augun hjá sér, sjá, að á götum Rvíkur ber ekki litið á lúxusbílum af hinum fullkomnustu gerðum. Flest eru þetta bílar vinnuveitenda og annarra slíkra auðmanna. Þessir menn sumir hafa það jafnvel fyrir sið að kaupa nýjan bíl á hverju ári, eru alltaf með nýjasta módelið, sem á markað kemur, stundum er módel þeirra jafnvel kennt við næsta ár á eftir því, sem yfir stendur. Þar fyrir utan sjá margir þeirra börnum sínum fyrir sérstökum lúxusbílum til að leika sér á. Mundu nú þessir menn komast á vonarvöl, ef þeim yrði gert að greiða 4% af kaupi verkafólks síns, til þess að börn hins atvinnulausa verkamanns gætu fengið nóga mjólk að drekka?

Nýlega var það upplýst, að Sameinaðir verktakar, sem sjá um byggingarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, hefðu greitt formanni stjórnar sinnar, sem auðvitað hafði formennskuna sem algert aukastarf, 80 þús. kr. í laun fyrstu 10 mánuði starfstíma síns, eða frá stofnun félagsins til 30. júní s. l. Þetta eru 8 þús. kr. aukaþóknun á mánuði til viðbótar við aðaltekjur mannsins, hverjar sem þær eru. Mundu nú þessir vinnuveitendur, Sameinaðir verktakar, verða að ganga um tötrum klæddir, ef þeir yrðu skyldaðir til að borga 4% af kaupi starfsfólks síns, til þess að hinn atvinnulausi verkamaður gæti keypt ný og hlý föt handa konu sinni og börnum?

Jú, vissulega eru nú ýmsir örðugleikar á atvinnurekstri hérlendis, en þeir koma hvergi fram á kjörum vinnuveitenda almennt og alls ekki hinna stærri; þeirra verður ekki hið minnsta vart í minnkandi lúxus yfirstéttarinnar. Og við skulum að minnsta kosti bíða þangað til milljónerinn lætur nægja 250 þús. kr. íbúð handa syni sínum og sleppur úr eins og einu módeli í árlegri nýsmíði lúxusbíla, áður en við förum í alvöru að tala um, að hann hafi ekki ráð á að greiða 4% af kaupi verkafólks síns, til þess að atvinnuleysinginn og fjölskylda hans geti lifað lifi, sem heita mætti mannsæmandi.

Önnur röksemd Vinnuveitendasambandsins, sem hv. meiri hl. tekur upp í álit sitt, er sú, að frv., ef að lögum yrði, mundi hafa í för með sér hættulegan kostnað fyrir ríki og bæjarfélög. En í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að spyrja: Hvað er ríkið, og þar með bæjarfélögin? Er ríkið ef til vill einhver afmörkuð samtök í líkingu við Vinnuveitendasambandið eða Sameinaða verktaka suður á Keflavíkurflugvelli, eða er það kannske einhver frímúrararegla, einhver æðri helgidómur, sem bægja verður verkamönnum frá, musteri, sem verkamenn mundu saurga með sínum moldugu og slitnu skóm? Jú, ríkið er að vísu Vinnuveitendasamband Íslands og Sameinaðir verktakar, en það er líka verkamenn og raunar fyrst og fremst verkamenn og annað vinnandi fólk. Það er ekki hægt að tala um ríkið sem eitthvað sérstakt og verkamenn sem eitthvað annað. Án verkamanna og annars vinnandi fólks væri ekkert ríki og þá ekki heldur neitt Vinnuveitendasamband né Sameinaðir verktakar. Hins vegar getur vel verið ríki án Vinnuveitendasambandsins og Sameinaðra verktaka, því að ríki er fólk — og fyrst og fremst vinnandi fólk. Þess vegna þarf öðru fremur að uppfylla tvö skilyrði, til þess að ríki fái staðizt: Í fyrsta lagi, að fólk lifi; í öðru lagi, að fólk vinni. Og stjórnendum ríkis ber að sjálfsögðu skylda til að uppfylla þessi skilyrði. Núverandi stjórnendur íslenzka ríkisins hafa brugðizt skyldu sinni að því er snertir seinna skilyrðið, að sjá um, að fólkið fái að vinna. Ætla þeir nú líka að bregðast þeirri skyldu sinni, þeirri frumskyldu, að fólkið fái að lifa?

Hv. meiri hl. heilbr.- og félmn., fyrir munn atvinnurekenda, virðist álíta, að þeim 150 kr., að viðbættri verðlagsuppbót, sem ríkið ætti samkv. frv. að greiða á hvern félaga atvinnuleysissjóða, yrði kastað á glæ. En ég spyr: Ef þessir peningar björguðu þótt ekki væri nema einu barni frá hungri og heilsuleysi, svo að það kæmist upp til dugandi manns og yrði hraustur og starfsamur þjóðfélagsþegn, hefði þeim þá verið kastað á glæ? Eru krónur í kassa meira virði en hraust og starfandi fólk? Mundi ekki hitt sönnu nær, að vísasta leiðin, ef vaxta skyldi 150 kr. þjóðinni til gagns, sé sú að nota þær til að tryggja hreysti og manndóm þeirra, sem eiga að erfa landið? Hér verður sem sé fyrir okkur sú stóra spurning: Eru peningarnir vegna fólksins eða fólkið vegna peninganna? Á krónan að stjórna þessu landi vegna krónunnar eða manneskjan að stjórna því vegna manneskjunnar?

Hv. þm. stjórnarflokkanna munu sjálfsagt í orðum svara játandi seinni spurningunni, en í gerðum segja þeir já við hinni fyrri. Þjóðfélag virðist að þeirra dómi ekki vera líf, heldur fyrst og fremst bókfærslukerfi. Þegar þeir vilja vita hag þjóðarinnar, þá pikka þeir á reikningsvél og láta hana svara sér. Eitt mesta stolt þeirra er hallalaus fjárlög. En þeir spyrja aldrei um hallalausa hamingju fólksins í landinu, hallalaust líf þjóðarinnar. Ef reikningsvélin segir þeim, að plús og mínus gangi upp, þá er allt í lagi, sama þótt þetta jafnvægi dauðra reikninga sé öllu öðru fremur fengið með því að slá hina lifandi manneskju í svaðið. Jú, víst er gott að hafa hallalaus fjárlög; auðvitað eigum við að hafa hallalaus fjárlög; en það hallaleysi verður að byggjast á réttlæti, en ekki ranglæti. Við sósíalistar segjum: Hættið að láta hinn fátæka rétta hallann, svo að hann geti sjálfur rétt sig við, en látið hinn ríka borga. Afstaða okkar er nefnilega alls ekki sú, sem virðist ráðandi hér á hv. Alþingi, að nokkrir atvinnurekendur, heildsalar og aðrir milljónerar skuli sitja að öllum auði þjóðarinnar og þeirri hamingju og velsæld, sem hann getur veitt. Við mundum ekki harma það, þótt svolítið drægi úr lúxus yfirstéttarinnar. Að vísu teljum við margt gott um þá menn, sem gera t. d. út skip og láta verka saltfisk, en þetta veitir þeim þó að okkar dómi engan rétt til óhófs, meðan aðrir búa við fátækt. Og hvað snertir atvinnurekstur á borð við þann t. d. að flytja inn frá Ameríku duft, sem blandað er í Gvendarbrunnavatn, sett á flöskur og nefnist síðan Coca-cola, þá teljum við hann ekki slíkt afrek, að hann sé sérstaklega verðlaunaverður með auði fjár. Við teljum sem sé, að auður yfirstéttarinnar sé ranglega tekinn af raunverulegum framleiðanda hans og eiganda, hinu vinnandi fólki, og viljum skila honum aftur í hendurnar á réttum eiganda. Sá, sem á fyrsta réttinn til að njóta þessa auðs, er maðurinn, sem ekki tekur nærri sér,þótt hendur hans óhreinkist af mold landsins eða springi um hnúana af seltu sjávarins. Á þessu, hallalausri hamingju fólksins í landinu, hallalausu lífi þjóðarinnar, viljum við byggja hallalaus fjárlög.

En nú er bezt að hætta þessu tali, því að það kemur frá hinum vonda, eins og við vitum allir. Á máli hv. þm. stjórnarflokkanna er þetta það sama og að vera á móti frelsinu, vilja afnema vestrænt frelsi og grafa undan þjóðskipulaginu. Fyrir svona skoðanir yrði maður meira að segja settur í tugthús í Bandaríkjunum, en það land býr sem kunnugt er við þeim mun meira frelsi en önnur lönd sem það liggur vestar á kortinu. Raunar væri freistandi að ræða hið vestræna frelsi í Bandaríkjunum sérstaklega, af því að ég hef sennilega haft betri aðstöðu til að skoða það með eigin augum heldur en nokkur hinna eldheitu aðdáenda þess hér í þingsölunum, þar sem ég dvaldist um eitt skeið lengi í Bandaríkjunum; væri eflaust fróðlegt fyrir þessa hv. þm. að heyra sjónarvott segja t. d. frá frelsi blökkumanna í Suðurríkjunum, en sleppum því að þessu sinni. Höldum okkur heldur við vestrænt frelsi á Íslandi.

Hvað þýðir nú þetta frelsi fyrir verkamenn t. d.? Það þýðir frelsi til að láta vinnuveitandann segja sér upp atvinnu fyrirvaralaust. Það þýðir frelsi til að ráfa atvinnulaus um hafnarbakkann dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman. Það þýðir frelsi til að eiga ekki peninga fyrir brauði handa börnum sínum og segja þeim að drekka vatn, þegar þau biðja um mjólk. Það þýðir frelsi til að liggja andvaka á nóttinni í köldum bragga og hlusta á hóstann í börnum sínum. Það þýðir frelsi til að horfa upp á konu sína slitna fyrir aldur fram af striti í slæmri íbúð. Það þýðir margt fleira, þar á meðal þýðir það frelsi til að láta meiri hl. Alþingis neita sér um þá hjálp, sem hægt væri að fá úr atvinnuleysissjóðnum, því að auðvitað er ekkert, sem meiri hl. Alþingis ber meira fyrir brjósti, en vestrænt frelsi. Og auðvitað væri það skerðing á vestrænu frelsi að samþ. frv. um atvinnuleysistryggingar, ef til vill hæpið að tilgreina þessa skerðingu nákvæmlega í prósentum, en hún nemur 4% af kaupi verkafólks, sem maðurinn í lúxusbílnum yrði að greiða í atvinnuleysissjóði, því að við skulum ekki blekkja okkur neitt, vestrænt frelsi er fyrst og fremst frelsi þess manns. Það birtist okkur gljáfægt í nýju amerísku módeli á hverju ári. En hv. stjórnarþm. skyldu jafnframt vera við því búnir, að þeim alþýðumönnum fari nú fjölgandi, sem velta því fyrir sér, af hvaða ástæðum þau blöð, sem svo mjög lofsyngja vestrænt frelsi, ráðast alltaf með slíku offorsi á þá, sem þau nefna útsendara austrænnar kúgunar.

Nei, vestrænt frelsi verður að verja með öllum tiltækum ráðum. Það er ekki nóg að berjast hetjulega fyrir því á Alþ., t. d. með því að drepa frv. um atvinnuleysistryggingar, meira skal til.

Nýlega varð verkalýðnum það á að skerða nokkuð vestrænt frelsi með því að gera verkfall og knýja fram kjarabætur. Verkamenn gerðu jafnvel allt, sem þeir gátu, til að gæta réttar síns, þegar nokkrir elskendur vestræns frelsis reyndu að tryggja því framgang með ýmsu móti, þar á meðal slagsmálum. Og við þetta opnuðust augun á foringjum stjórnarflokkanna. Svona afvegaleiddu fólki varð að bjarga með einhverjum áhrifamiklum hætti. Það yrði að stofna her til þess að berja inn í það vestrænt frelsi, fyrst það vildi ekki veita því móttöku með góðu. Og kannske felst í þessu nokkurt fyrirheit handa atvinnulausum verkamönnum. Stjórnarvöldin hafa meinað þeim að nota starfsorku sína til hagsbóta fyrir þjóðfélagið og hamingju fyrir fjölskyldur sínar. Hver veit, nema þeir bæti þetta nú upp með því að leyfa þeim að vera sú sérstaka tegund þræla, sem skipa kúgunarheri auðvaldsins.

Mál mitt er nú orðið æði langt. Ég hef ekki talið ástæðu til að rekja náið efni frv. Sósíalistar hafa verið að flytja það hér á Alþ. síðan 1942, og hljóta því hv. alþm. að vera farnir að þekkja það. En mér hefur láðst að geta eins, sem skylt er að geta varðandi afstöðu meiri hlutans. Hann er sem sé ekkert á móti þessu frv. Hann vill bara láta vísa því til ríkisstj. Hann var ekki heldur neitt á móti því í fyrra. Hann vildi þá bara láta vísa því til ríkisstj., og þá var því vísað til ríkisstj. Síðan hefur ríkisstj. verið að athuga það, auk þess sem flestir meðlimir hennar hafa haft það fyrir augunum reglulega síðan 1942. Og nú á aftur að vísa því til ríkisstj., auðvitað af tómri umhyggju fyrir málinu, af því að það „þarfnast nánari athugunar“. Umhyggjuna vantar svo sem ekki. Aðeins munu sumir telja, að sú ríkisstj., sem neitar því jafnvel, að nokkurt atvinnuleysi sé í landinu, fyrr en atvinnuleysingjar heimsækja hana á skrifstofuna hundruðum saman, og jafnvel einnig þrátt fyrir það, — sumir hljóta að telja, að slík ríkisstj. muni ekki brennandi í áhuganum fyrir því að setja lög, sem tryggi, að börn þessara manna megi lifa og vaxa upp til hreysti og manndóms.

Að lokum leyfi ég mér svo að minna hv. alþm. á, að þegar þeir greiða atkvæði með handauppréttingu hér í salnum, þá er það ekki alltaf saklaus hreyfing, í líkingu við það t. d. þegar menn teygja sig, af því að þeir þurfa að geispa, heldur getur hamingja fjölda fólks, jafnvel sjálft líf þess, verið í veði.