02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (3069)

29. mál, atvinnuleysistryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla engu að bæta við það, sem hv. 10. landsk. þm. hefur sagt um nauðsyn þess að taka upp atvinnuleysistryggingar á Íslandi. Það má ekki lengur við svo búið standa, að löggjöf um atvinnuleysistryggingar verði ekki sett. Atvinnuleysi hefur verið og er enn allmikið og hefur farið vaxandi hin síðari ár. Það er óviðunandi ástand. Setja verður löggjöf til þess að tryggja sómasamlegt lífsviðurværi þeim, sem ekki fá tækifæri til þess að neyta þess sjálfsagða réttar að fá að vinna fyrir sér og sínum.

Ég og við Alþfl.-menn hér í þessari hv. d. hefðum að vísu talið aðra leið að ýmsu leyti heppilegri í atvinnuleysistryggingamálinu en þá, sem hér er stungið upp á í þessu frv. Við óttumst, ef þessi skipun yrði upp tekin, að kerfið yrði tæplega nægilega öruggt fyrir ýmsa staði, þar sem atvinnuleysis mundi geta gætt og gætir nú mjög verulega, svo sem t. d. á Siglufirði, og fleiri staði utan Reykjavíkur mætti nefna, þar eð ég tel ýmislegt benda til þess, að þær tekjur, sem koma mundu í atvinnuleysissjóð á slíkum stöðum, þar sem tímabundins atvinnuleysis gætir mjög verulega, mundu ekki nægja til þess að greiða fullar atvinnuleysisbætur á slíkum stöðum. Við höfum hallazt að því frekar, Alþýðuflokksmenn, að fela einum sjóði eða einni stofnun og þá helzt atvinnustofnun ríkisins, sem þm. flokksins í Ed. hafa flutt frv. um, framkvæmd atvinnuleysistryggingamálanna. Hins vegar vil ég ekki láta ágreining um framkvæmdaatriði í málinu verða til þess að tefja fyrir því, að einhver ákvörðun verði tekin í jafnbrýnu nauðsynjamáli og hér er um að ræða. Og þess vegna vildi ég ásamt hv. 10. landsk. þm. freista þess að fá úr því skorið, hvort hv. d. vildi stuðla að því, að eitthvað yrði gert í þessu bráðnauðsynlega máli. Þess vegna er það, sem ég hef mælt með því, að frv. þetta yrði samþ. Ég tel, að ágreiningur um framkvæmdaratriði, aukaatriði, eigi ekki að verða til þess að torvelda framgang sjálfs aðalatriðis málsins, og mæli því með því, að frv. verði samþykkt.