02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

29. mál, atvinnuleysistryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu yfir hinum tómu stólum, því að þetta mál er miklu merkilegra en svo, að ræðuhöld um það eigi að fara fram yfir dauðum hlutum.

Þó að ég sé alls ekki sammála hverju einasta atriði í þessu frv., þá vil ég ekki láta umræðum um það ljúka svo, að ég láti það ekki í ljós ótvírætt, að ég tel framkvæmd atvinnuleysistrygginga á Íslandi, með því atvinnuástandi sem hér ríkir, vera eitt af hinum stóru skyldum þjóðfélagsins, skyldum, sem þetta þjóðfélag og stjórnendur þess hafa vikið sér undan að fullnægja um langa hríð, horfandi upp á vaxandi atvinnuleysi. Það er því eitt af þeim stóru málum, sem núverandi stjórnendur landsins verða dregnir til ábyrgðar fyrir að hafa vanrækt að framkvæma, fyrr eða síðar. Það er vitanlegt, að þjóðfélag, sem neitar vinnufúsum mönnum um að fá að vinna, og það ætti þó að vera helgasti réttur mannsins að fá að vinna í þjóðfélaginu, — það þjóðfélag verður vitanlega að viðhafa þá skyldu sína að tryggja fólkið fyrir böli atvinnuleysisins. En það er ekki hægt að verða var við það, að núverandi ríkisstj. hafi mikinn skilning á því máli.

Ég tel, að atvinnuleysistryggingar á Íslandi séu eitthvert sjálfsagðasta atriði tryggingalöggjafar, sem hefði kannske átt að sitja fyrir öllum öðrum tryggingamálum. En það hefur verið látið sitja á hakanum, og því erum við þannig stödd á vegi enn, að atvinnuleysið er til, en engar tryggingar af hendi þjóðfélagsins gerðar til þess að verjast hörmulegum afleiðingum þess.

Ég vil vona það, að aðstaða skapist á Alþ. til þess, að atvinnuleysistryggingum verði komið á. Það er eitt af stórmálum næstu framtíðar.