02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (3071)

29. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég þakka minni hl. heilbr.- og félmn. fyrir það, hvernig hann hefur afgr. þetta mál að hann vill láta samþ. það. En það var aðeins atriði, sem ég vildi taka fram, að þetta mál er búið að vera hérna síðan 1942. Það hefur á síðasta þingi komizt svo langt, að því hefur verið vísað til ríkisstj., svo að það er auðvitað framför. En það, sem varðar þetta og maður sér á nál. meiri hl., er það, að meiri hl. Alþ. álítur, að þetta mál sé þannig lagað, að þeir þurfi ekki að hugsa um það.

Það er dálítið einkennilegt í nál. Þar er sagt, að Alþýðusamband Íslands hafi mælt með því, en Vinnuveitendasambandið á móti. Og það er tekið upp eftir Vinnuveitendasambandinu, að þeir geti ekki greitt þetta há gjöld í atvinnuleysissjóð eða í atvinnuleysistryggingar, en það er ekki tekið neitt til um rök Alþýðusambandsins. Og þetta er ekkert undarlegt, því að við höfum orðið fyrir þeirri reynslu hér í Alþ., við, fólkið, sem samþykkir og semur við atvinnurekendur um kjör sín. Hv. alþm. hefur ekki dottið í hug einu sinni að festa það í lög, og þá er erfitt að ætlast til þess, að þeir hugsi um jafnmikið hagsmunamál fyrir alþýðuna og þetta, áður en það er bara komið til þeirra, og það væri ákaflega mikið í varið, að þeir samþ. það, bara þegar búið væri að samþ. það utan Alþingis.

Svo er annað í þessu, sem kemur fram og hefur alltaf fylgt þessu frv. Það eru 3 millj., sem liggja í Tryggingastofnuninni. Þær voru látnar í Tryggingastofnunina meðan atvinnuleysi var ekki. Síðan hafa þær legið þar alltaf, sömu 3 millj., aldrei neitt vaxið. Það hefur orðið gengisfall á þeim, á sama tíma sem fólkið í atvinnuleysinu er svelt og vöntun er til alls, en milljónirnar liggja kyrrar, þær eru alltaf í tryggingunum, þó að alþýðuna og börnin hér í Reykjavík vanti, þegar heimilisfeðurnir ganga atvinnulausir, og þau hafi ekkert til að borða. Það er ekki hreyft við því.

Ég er viss um, að þetta frv. fer nú til ríkisstj., og ég er viss um, að hún gerir ekkert. En ég er jafnviss um, að það verður ekki langt þangað til þetta frv. verður samþykkt.