11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

135. mál, lánsfé til íbúðabygginga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa fylgi mínu og míns flokks við þá hugmynd, sem fram kemur í þessu frv. Ég tel það stefna í rétta átt og vera mjög mikils virði fyrir kaupstaði og kauptún landsins, ef það næði fram að ganga. Ég skal ekki eyða tíma hv. d. í að rekja þá nauðsyn, sem er á því, að aukið sé lánsfé til íbúðarhúsabygginga. Það hafa þeir, sem áður hafa talað fyrir frv., þegar gert, hv. 1. flm. og hv. 2. þm. Reykv.

Ég dreg þá ályktun af ræðu hv. 2. þm. Reykv., að flokkur hans mundi greiða atkv. með þessu frv., ef það kæmi til endanlegrar afgreiðslu í þessari hv. d. Ég sé, að frv. er flutt af liðlega fjórðungi annars hv. stjórnarflokksins, hins stærri þeirra. Það mun eiga fylgi að fagna af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessari hv. deild að minnsta kosti. Mér skilst því, að örlög þessa frv. séu fyrst og fremst undir því komin, hvort þeim liðlega fjórðungi hv. Sjálfstfl. tekst að sannfæra hina ¾ síns eigin flokks um nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga. Spurningin um örlög þessa frv. er því spurning um, hvað verður ofan á í hv. Sjálfstfl. Ég vona, að þeim hluta flokksins, sem hér hefur gerzt flm. að þessu frv., liðlega fjórðungi hans, megi takast að vinna skjótan sigur á ¾ flokks síns. Þá nær málið áreiðanlega fram að ganga.