10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

37. mál, gengisskráning o. fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 105 1951 er lagt framleiðslugjald á alla síld, sem lögð er á land til bræðslu eða söltunar, sem nemur 8% af fersksíldarverði. Ef sumaraflinn er minni en 6.000 mál að meðaltali á skip, þá skal gjaldið allt endurgoldið útgerðarmönnum og sjómönnum. Sé aflinn hins vegar meiri, þá skal gjaldið innheimt og renna til síldveiðideildar hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins.

Nú er það fyllilega játað, sbr. það, sem ég sagði hér áðan, þegar ég flutti stutta framsögu fyrir breytingu á lögum um hlutatryggingasjóð, að þessari deild er mikil þörf nýrra tekna. Samt sem áður var talið nauðsynlegt að hníga að þessu ráði, sem lögin mæla fyrir um, þ. e. a. s. að láta alls ekki innheimta þetta gjald að þessu sinni, og rökin fyrir því eru í stuttu máli þau, að þegar kom að því að ákveða bræðslusíldarverð í júnímánuði s. l., þá hafði verð á síldarlýsi fallið um meir en helming frá því, sem það var vorið 1951, en þá náði það hámarki. Vorið 1951 hafði fyrir milligöngu ríkisstj. tekizt að tryggja sölu frá Ministry of Food, þ. e. a. s. matvælaráðuneyti Bretlands, á allri síldarlýsisframleiðslunni, allt að 50 þús. smál., fyrir fram, eins og árið 1949 og 1950, fyrir markaðsverð eins og það var í marzmánuði 1951, en verðið var hagkvæmast fyrir seljandann einmitt um það leyti, a. m. k. ef um stórar sölur var að ræða, en það var þá 140 pund fyrir hvert tonn frítt um borð hér á Íslandi.

Síðastliðið vor tókst ekki að ná fyrir fram samningum við Breta né neina aðra um síldarlýsi, og þá kom það í ljós, að þegar ekki var hægt að selja Bretum, sem stundum hefur nú verið deilt á ríkisstj. áður fyrir að gera, þá var engum öðrum heldur hægt að selja. Þá var ekki annað að gera en að stjórn síldarverksmiðja ríkisins varð að áætla verð á síldarlýsi, til þess með því móti að geta kveðið upp úr um gangverð eða kaupverð á síldinni. Þetta áætlaða verð ákvað stjórn síldarverksmiðja ríkisins 68½ pund hvert tonn, og lækkunin frá því árið 1951 nam því um 72 pundum fyrir tonnið. Hins vegar hafði orðið lítils háttar hækkun á síldarmjölinu, sem mun hafa jafngilt að mig minnir, um tveggja króna verðhækkun á hvert síldarmál.

Niðurstaðan af þessu eða afleiðingin af þessu var sú, að verðmæti afurðanna úr hverju máli hafði lækkað um 70 kr. Það lætur nokkuð nærri, að pundsverðlækkun á hverri smálest af síldarlýsi jafngildi einnar krónu lækkun á hverju máli síldar, og þegar nú lýsisverðið hafði lækkað um 72 pund, þá nam lækkunin á síldarverðinu á málið 72 kr., en til jafnvægis koma svo þær 2 kr., sem ég gat um að mjölið hefði hækkað, eða með öðrum orðum, eins og ég sagði, var lækkunin um 70 kr. Ef nú lækkunin öll hefði komið fram á bræðslusíldarverðinu, þá hefði það þýtt lækkun til flotans úr rúmum 110 kr. í fyrra og niður í 40 kr.

Nú liggur það að vísu í augum uppi, að þegar verðið lækkar, þá lækka útflutningsgjöldin, umsetningargjaldið og varasjóðsgjald og fleiri gjaldaliðir hlutfallslega. Hins vegar hefur orðið stórfelld hækkun á vinnulaunum síðan í fyrra. Útgerðarkostnaðurinn hafði því hækkað frá því árið 1951, — um aflahorfur má nú segja að ekki hafi verið hægt að dæma fyrir fram, en það var ekki ástæða til of mikillar bjartsýni í þeim efnum, — og lá því í hlutarins eðli, að það varð að gera sérhverja tiltæka ráðstöfun til þess að hindra svo sem auðið var verðfallið á bræðslusíldinni, þ. e. verðfall síldarinnar, sem stafaði af þessu verðfalli afurðanna. sem ég var að geta um.

Nú varð samkomulag um það við fjmrh. að lækka vexti af skuldum ríkisverksmiðjanna við ríkissjóð vegna byggingar á nýju verksmiðjunum á Siglufirði og Skagaströnd, og enn fremur varð einnig samkomulag um það við fjmrn., að við ákvörðun hins fasta kaupverðs bræðslusíldarinnar skyldi ekki að þessu sinni gert ráð fyrir að greiða afborganir af nýju síldarverksmiðjunum, og miðað við áætlun fyrra árs stuðlaði þessi breyting að hækkun verðsins sem nam 9,17 kr. á mál, þ. e. a. s. dró á tíundu krónu úr þörfinni fyrir lækkun vegna lækkandi afurðaverðs.

Loks var svo ákveðið að fella niður framleiðslugjaldið samkv. 3. gr. l. nr. 105 1951 af síld, sem lögð yrði á land til bræðslu á sumarsíldveiðum 1952. Gjaldið mundi samkv. verðlagi bræðslusíldar í sumar hafa numið sem allra næst 4,80 kr. á mál.

Með öllum þessum ráðstöfunum og með því að beita sérhverjum þeim sparnaði, sem tiltækt þótti í rekstri síldarverksmiðjanna, tókst að hindra, að bræðslusíldarverðið lækkaði um meira en 50 kr. rúmar af þeim 70, sem verðfall afurðanna hafði numið á hvert mál síldar.

Ég vildi, að menn í aðalefnum sæju af þessu, að það var úr mjög vöndu að ráða, annars vegar viðurkennd og mikil þörf hlutatryggingasjóðs fyrir tekjur, hins vegar aðsteðjandi stórfelldir örðugleikar útgerðarinnar, jafnvel þótt aflabrögðin hefðu orðið sæmileg, þegar verðlag á einu ári átti að lækka um meira en helming í raun og sannleika. Það varð þess vegna að grípa til allra ráða, sem tiltæk þóttu í því skyni að hindra, að þetta gífurlega verðfall legðist með fullum þunga á útveginn, og eitt af þessum ráðum var sú tilslökun eða ívilnun, sem felst í þessum lagabreytingum, en í raun og sannleika, eins og allir vita, er nú í dag tilgangslaus, vegna þess að svo hörmulega tókst til um veiðina. Ég hef þó álitið rétt að gefa þessar skýringar á málinu. og stafar það af því, að vel getur þurft að grípa til svipaðra ráðstafana aftur, og ég vil, að þingið geri sér ljóst. hvort það vill sætta sig við það, að slíkt verði gert af þeirri ríkisstj., sem þá situr að völdum, enda þótt það svipti hlutatryggingasjóðinn, ef mikil aflabrögð verða, tekjum, sem hann mjög þarf á að halda.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni umræðu vísað til hv. sjútvn.