24.10.1952
Neðri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (3091)

37. mál, gengisskráning o. fl.

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 37, sem er hér til umr., er borið fram af hæstv. ríkisstj. og er staðfesting á brbl. frá í sumar. Í 1. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki skal innheimta framleiðslugjald samkv. 3. gr. laga nr. 105/1951 af síld, sem lögð verður á land til bræðslu á sumarsíldveiðum 1952.“ — Eins og hv. þm. mun vera kunnugt, varð í vor og sumar mjög mikið verðfall erlendis á síldarlýsi og öðru feitmeti.

Verðfallið á síldarlýsinu varð svo stórkostlegt, að á tímabili mun það hafa komizt niður fyrir 60 sterlingspund smálestin, komin í höfn á meginlandinu. En á árinu 1951 seldu síldarverksmiðjurnar lýsið fyrir 140 sterlingspund cif. Hæstv. atvmrh. taldi því nauðsynlegt, að ákveðið yrði með brbl. að fella niður framleiðslugjaldið af bræðslusíld til þess að halda bræðslusíldarverðinu nokkuð uppi. Þrátt fyrir þessar aðgerðir hæstv. ráðh. varð verðfallið á bræðslusíldinni mjög tilfinnanlegt fyrir útvegsmenn og sjómenn. Munu þó síldarverksmiðjurnar hafa gefið hærra verð fyrir bræðslusíldina en efni stóðu til. Brbl. voru sett 11. júlí s. l., og er hér óskað, að Alþ. staðfesti þau samkvæmt ákvæðum 28. gr. stjskr. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur lagt fram nál. á þskj. 112, þar sem hún mælir einróma með því, að frv. verði samþ.