28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (3107)

102. mál, Háskóli Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur gert hér grein fyrir því í stórum dráttum, hvaða hugsun muni liggja að baki því hjá háskólaráði að óska eftir, að þau ákvæði, sem greinir í frv. því, sem ríkisstj. hefur hér lagt fyrir Alþ. um breyt. á háskólalögunum, séu lögleidd. Ég get ekki látið hjá líða að gera við þessa umr. málsins nokkrar athugasemdir við þetta frv., sem ég vildi leyfa mér að vænta að sú hv. n. sem fær það til meðferðar, taki til athugunar við meðferð málsins.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er auðvitað eðlilegt, að það séu gerðar nokkrar kröfur til stúdenta eins og annarra þeirra, sem hlunninda njóta í sambandi við skólavist, bæði í háskóla og öðrum skólum, og það er ekkert við því að segja, að það sé gert og að einhver takmörk séu sett fyrir því, hvað menn mega vera lengi við sitt nám. Hitt er annað mál, að hér ber að minni hyggju líka að líta á önnur atriði, og mæli ég þar út frá nokkurri reynslu. Við vitum það, að það er þannig málum háttað hér á okkar landi, og ég álít, að það sé verulegur kostur, að menntamenn hér vinna yfirleitt fyrir sér sjálfir, og það er hygg ég meira um það hér á landi, heldur en víða annars staðar úti um heim, að t. d. stúdentar í háskólum vinni fyrir sér sjálfir. Ég verð nú að álíta, að einmitt þetta atriði hafi mikla uppeldislega þýðingu og sé til bóta og stuðli að því verulega að skapa háskólaborgaranum eða stúdentinum möguleika til aukins þroska, meiri heldur en hann hefði jafnvel getað fengið með því að sitja fleiri klukkustundir á skólabekk, því að það er að sjálfsögðu ekki einhlítt um uppeldi, hvorki í háskóla né í öðrum skólum. að menn lesi sínar bækur, heldur þurfa þeir einnig að þroska sig á öðrum sviðum. Bezti þroskinn álít ég að sé nú það að kynnast hinni daglegu lífsbaráttu og að verða á sem mestan hátt að treysta á sína eigin getu og sinn eigin dug til að komast áfram, og eins og ég sagði, þá er það áreiðanlega meiri hluti stúdenta, sem eru við nám hér í háskólanum, sem að verulegu leyti kostar nám sitt sjálfur. Ég hef vikið að þessu hér vegna þess, að einmitt þetta atriði gerir að verkum, að það má ekki setja eins strangar reglur um tímasókn stúdenta eins og ella mætti gera, ef þeir hefðu nóg að bíta og brenna til þess að kosta sitt nám og þyrftu þar af leiðandi ekki að hafa áhyggjur út af því, hvernig þeir ættu að framfleyta sér við námið. Mér er kunnugt um það, að fjöldamargir stúdentar, og það menn, sem hafa tekið ágæt próf í háskóla og staðið sig eftir háskólapróf mjög vel í sínu fagi, hafa oft og tíðum ekki haft aðstöðu til að sækja tíma í háskólanum nema mjög takmarkað. Og ég er nú þeirrar skoðunar, að stúdentar almennt leiki sér ekki að því að sækja ekki tíma, svo framarlega sem þeir stundi nám sitt af alvöru og ætli sér að ljúka prófi. Hitt er allt annað mál, að ef sýnt er, að stúdent er aðeins til málamynda í háskóla og hugsar sér alls ekki í neinni alvöru að stunda sitt nám, þá er það atriði, sem enginn getur mælt bót, og er sjálfsagt, að eitthvert aðhald sé í því efni. En ég álít, að það verði að hafa hliðsjón af þessari sérstöðu — ég hygg, að ég megi segja sérstöðu íslenzkra stúdenta — hversu mikill fjöldi þeirra verður að vinna fyrir sér sjálfur. Og einmitt á þessum tíma, þegar mjög hefur nú þrengt að með atvinnu, kostnaður við nám hefur stórhækkað, þá er þeim mun meiri ástæða til að taka tillit til þessarar aðstöðu námsmannanna.

Það er einnig annað atriði, sem mér finnst vera næsta einkennilegt í þessu frv., og það er í sambandi við íþróttaskylduna. Ég þekki ekki persónulega þessa íþróttaskyldu. Hún var ekki komin nema að nokkru leyti til framkvæmda, þegar ég var í háskóla. Ég skal hins vegar játa. að það var byrjað á þessu íþróttanámi, en ég reyndi eins og margir aðrir að komast undan því. Það má segja, að það hafi ekki verið mikil víðsýni í því, og vitanlega er það alveg rétt, að það er bæði fyrir stúdenta sem aðra sjálfsagt að reyna að þjálfa sig ekki síður líkamlega, en andlega og ekkert við því að segja. En hitt finnst mér ganga nokkuð langt, þegar gert er ráð fyrir því og því slegið föstu hér í 2. gr. þessa frv., að ef stúdent hafi ekki lokið tilskildu prófi í íþróttum, þá megi gera strangari kröfur til hans um frammistöðu á prófi í þeirri námsgrein, sem hann hefur aðallega farið í háskólann til að stunda. Þetta er atriði, sem ég álít að sé í hæsta máta óeðlilegt og ósanngjarnt. Það er ekkert við því að segja, að íþróttir séu þarna stundaðar og eitthvert aðhald sé um það, en ég vildi mjög alvarlega beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að íhuga það, hvort hér er ekki óhæfilega langt gengið í þessu efni. Það er sem sagt gert algert ráð fyrir því að skipa íþróttunum þarna sérstakan sess, og þetta fag á að vera skyldunámsgrein í hvaða deild háskólans sem er, og það á blátt áfram að geta orðið stúdent að fótakefli við hans aðalnám, ef hann hefur ekki lokið einhverju tilskildu prófi í leikfimi. Ég efast nú satt að segja um það, að það muni neitt sérstaklega auka hæfni stúdents eða kandídats í læknisfræði eða lögfræði, eða hvaða fræðigrein sem hann annars stundar, hvort hann kemst yfir hestinn eða ekki. Og af þeim sökum vil ég mjög eindregið beina því til hv. n., að hún taki einnig þetta atriði til athugunar.

Það má kannske segja, að það sé ekki nema eðlilegt að fara í þessu eftir till. háskólaráðs og að það hafi ekki verið undarlegt, þó að hæstv. menntmrh. féllist á að flytja þetta frv. eftir tilmælum þess ráðs, en það hefur hins vegar, að því er ég hygg, oft eða jafnvel oftast verið talið eðlilegt að hafa eitthvert samráð einnig við samtök stúdenta, þegar verulegar breytingar hafa verið gerðar á reglugerð. Ég vildi nú einnig beina því til hv. menntmn., að hún leitaði álits stúdentaráðs háskólans um þessar breytingar og heyrði þær röksemdir, sem sá aðili kynni einnig að hafa fram að færa í sambandi við þetta mál.

Ég ætla svo ekki frekar að ræða málið á þessu stigi, en vil sem sagt ítreka það, að ég tel mikla nauðsyn bera til, að ekki sé flanað að setningu lagaákvæða sem þessara án þess að taka til greina allar þær aðstæður, sem íhuga þarf.