28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3108)

102. mál, Háskóli Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði í sambandi við íþróttakennsluna, að í frv. sé gert ráð fyrir sérstöku prófi í leikfimi eða íþróttum, þá stendur hér, að nemandinn skuli hafa notið tilskilinnar kennslu í íþróttum. Ég vil enn fremur benda á, að hér er ekki um neitt nýmæli að ræða. Í gildandi lögum háskólans stendur, að stúdent, sem ganga vill til prófs, skuli áður hafa lokið undirbúningsprófum o. s. frv., þar á meðal, að hann hafi notið kennslu í íþróttum ekki skemur, en fjögur kennslumissiri. Nú er þetta numið burt úr lögunum með fyrrnefndu ákvæði frv. og að mér sýnist gert vægara en verið hefur. Þegar í frv. er talað um, að nemandi skuli hafa notið tilskilinnar kennslu í íþróttum, þá er það að sjálfsögðu kennsla, sem háskólaráð setur reglur um og telur eðlilega. En nú er ákveðið í l., að stúdentar skuli hafa tekið þátt í íþróttum í fjögur ár.

Út af hinu „akademíska frelsi“ vil ég benda á, að þetta frelsi í hinum almenna skilningi þess orðs er óðum að hverfa úr sögunni víða um lönd. Það er mjög víða, sem nú er farið að taka upp mjög strangt eftirlit með því, hvernig stúdentar sækja skólana. Og það er einmitt af því, sem ég gat um í fyrri ræðu minni, að ekki er talið viðeigandi, að jafnvel þessar æðstu menntastofnanir landanna séu reknar á þann hátt, að þar sé ekkert tekið tillit til þess, hvað lagt er á þjóðfélagið til þess að halda þeim uppi. Og svo er talið eðlilegt, að þær nái þeim tilgangi, sem að er stefnt. En tilgangurinn er auðvitað sá, að þeir menn, sem þessar stofnanir sækja, geti náð tilskilinni menntun á ákveðnum tíma, nema einhver sérstök forföll valdi, og þá er að sjálfsögðu alltaf tekið tillit til þeirra. Ég efast ekki um, að Háskóli Íslands muni ekki óska þess, að settar séu reglur, sem á nokkurn hátt geti talizt ósanngjarnar.

Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. ræddi um í sambandi við þá stúdenta, sem vinna fyrir sér jafnframt því, sem þeir stunda námið, þá er ég alveg á sama máli og hann um það, að sjálfsagt er að taka tillit til þeirrar sérstöðu og sjálfsagt að gera þessum mönnum á allan hátt kleift að stunda vinnu jafnframt náminu, ef það er gert í fullri einlægni og fullri alvöru. Ég efast ekki um það, að háskólinn telur sér skylt að taka tillit til aðstöðu slíkra manna í sambandi við námið.