28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (3113)

102. mál, Háskóli Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð. — Þeim mun meir sem þessar umr. lengjast, þeim mun meir hissa verð ég eiginlega á þeim. Ég er næstum viss um, að ef við hefðum ekki núna svo óvenjulega og ágæta áheyrendur á pöllunum sem við höfum, þá mundu þessar umr. ekki hafa átt sér stað, vegna þess að rökin, sem flutt hafa verið fram af hv. 2. þm. Eyf. og 2. þm. Reykv., jafnsnjöllum og þingvönum mönnum, hafa satt að segja verið svo efnissnauð, að þau eru þeim ekki fyllilega samboðin. Þeir hafa talað hér í fljótræði, talað áður en þeir hugsuðu, og það er þeim aldrei til heilla né sóma. Það var ekki út í bláinn, þegar ég sagði um hv. 2. þm. Eyf., að hann mundi ekki hafa kynnt sér, hvað raunverulega stendur í frv. um íþróttaskylduna, því að hann andmælti frv. vegna íþróttaskyldunnar m. a., vegna þess að þar væri verið að herða á eða festa þær reglur, sem nú þegar giltu um íþróttaskylduna. Ef þm. hefur gert sér grein fyrir því, sem er, að í þessu frv. er verið að fella niður úr l. skyldu stúdenta til að stunda íþróttir, áður en þeir eiga að ganga undir próf, þá hefði þm. hlotið að nefna þetta. Það var óverjandi málflutningur af þm. að láta þess ekki getið, ef hann gerði sér grein fyrir, að þetta var efni frv. Nú kom það í ljós í seinni umr., að þm. hefur skilið, að þetta er efni frv. Hann sagði, að námsferilsbækur mundu hafa verið teknar upp eftir minni tillögu á sínum tíma. Ég vil aðeins leiðrétta það. Þetta er alger misskilningur, ég hafði af því máli engin afskipti, átti ekki sæti í háskólaráði, þegar það mál var ákveðið.

Að síðustu vildi ég segja þetta aftur við hv. 2. þm. Reykv.: Það er alger misskilningur, að nú með þessu frv., þótt samþ. yrði, sé verið að skylda nokkurn til þess að sækja ákveðna tíma í háskólanum. Það er misskilningur, og þar er megin misskilningurinn. Það er ekki verið að skylda neinn til þess að sækja nokkurn tíma umfram það, sem verið hefur. Eftir sem áður mega stúdentar láta vera að sækja alla tíma, með fáum undantekningum, ef þeim sýnist svo. En það eina, sem er nýtt, er það, að það verður heimilt að prófa þá stúdenta, sem það gera ekki, með nokkuð öðrum hætti en hina, sem það gera. Og ég satt að segja sé ekki, að ástæða sé til þess að eyða mörgum klukkutímum hér á hv. Alþ. til að deila um það, hvort það geti komið til greina að prófa þá aðila með nokkuð ólíkum hætti, sem stundað hafa reglulegt nám innan veggja háskólans, og hina, sem hafa kannske aldrei komið þangað. Eftir sem áður mun háskólinn taka við stúdentum til prófs, t. d. í lögfræði, þótt þeir hafi svo að segja aldrei í háskólann komið. Eftir sem áður munu þeir geta tekið þar próf og fengið sömu réttindi og þeir, sem hafa stundað reglulegt nám. En hitt er annað mál, — og það endurtek ég, — að ég sé ekki ósanngirnina í því, að slíkan mann, sem hefur kannske aldrei sézt í háskólanum og kennararnir þekkja ekki, hafi þeir heimild til að spyrja ýmsum öðrum spurningum en menn. sem þeir þrautþekkja af daglegum samvistum eftir 5 ár. Ég vil einnig segja það aftur, að ég tel, að háskólakennarar og háskólaráð hafi þegar þessa heimild, ef þeir vildu nota hana. Háskólinn gæti nú þegar breytt prófum frá því, sem nú gildir. En hvað mundu þessir hv. þm. segja, ef háskólinn breytti þessum kröfum þannig, að hann segði: Sams konar próf og nú gilda skulu gilda fyrir þá, sem ekki hafa stundað nám í háskólanum; aftur á móti skulu prófin vera léttari fyrir þá, sem sótt hafa tíma samkvæmt fyrir fram ákveðnum reglum, við skulum segja t. d. annan hvern tíma á öllum námstímanum? — Það er það, sem hér er verið að leggja til. Það er að ræða málið algerlega á röngum forsendum að tala í þessu sambandi um annaðhvort skyldur til að sækja ákveðna tíma, sem ekki er um að ræða, og það er líka rangt að ræða um málið á þeim grundvelli, að það eigi að þyngja próf utanskólamannanna eða þeirra manna, sem ekki hafa verið í háskólanum. Við getum alveg eins talað þannig um það, að það kæmi til greina að létta próf hinna. Aðalatriðið er að gera nokkurn mun á prófum. Það er það, sem er mergurinn málsins, og þannig á að ræða málið, ef á að ræða það af skynsemi einvörðungu.