28.10.1952
Neðri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (3116)

102. mál, Háskóli Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er ekki verið að skerða jafnrétti stúdenta með þessu frv. Prófin eru núna miðuð við þá, sem kennararnir þekkja. Allar reglur, sem um prófin gilda, eru við það miðaðar, að verið sé að prófa stúdenta, sem stundað hafa nám innan veggja háskólans. Það, sem um er að ræða er, hvort það á að halda áfram að láta próf, sem ætluð eru stúdentum, sem stundað hafa nám innan háskólans, einnig gilda fyrir þá, sem ekki hafa stundað nám innan hans. Ég tel þetta viðfangsefni algerlega óskylt spurningunni eða deilum um jafnrétti stúdenta.

Það, sem ég sagði um íþróttaskylduna út af ummælum hv. 2. þm. Eyf., var það eitt, að í frv. fælist, að lagaákvæði um íþróttanám væru felld niður. Eftir sem áður er gert ráð fyrir, að einhver ákvæði séu í reglugerð um þetta, en í því felst auðvitað, að það er hægt að draga úr þeim ákvæðum, sem nú gilda um íþróttaskyldu í 4 kennslumissiri. Að því leyti tel ég frv. vera mikla framför frá því, sem verið hefur.