24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (3125)

86. mál, skemmtanaskattur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Síðan sett voru fyrst l. um skemmtanaskatt, hafa þau tekið miklum og margvíslegum breyt. Síðustu heildarl. um skemmtanaskatt eru frá 1927. Í l. frá 1947 er svo mælt, að þegar þau hafi öðlazt staðfestingu, skuli fella þau inn í meginmál l. frá 1927 og gefa þau út svo breytt með fyrirsögninni: Lög um skemmtanaskatt, rekstrarsjóð þjóðleikhúss, félagsheimilasjóð o. fl. — Þetta hefur ekki enn verið gert, enda var l. nr. 85 frá 1947 frestað stuttu síðar. En skemmtanaskattsl. frá 1927 voru að ýmsu leyti orðin úrelt og þurftu endurskoðunar við, og þess vegna var ákveðið, að endurskoðun skyldi fara fram. Skipaði menntmrn. nefnd til þess að endurskoða l., og það frv., sem hér liggur fyrir, er þær till., sem n. hefur lagt fram.

Helztu breyt., sem frv. gerir ráð fyrir frá gildandi l., eru þessar: Í fyrsta lagi, að gildissvið l. er stækkað með því að láta þau ná til kauptúna með 500 íbúum í stað 1.500 íbúa. Þetta hefur n. talið sanngjarnt, vegna þess að mikill hluti skemmtanaskattsins rennur til félagsheimilabygginga úti um land. Í öðru lagi eru á flokkun hinna skattskyldu skemmtana gerðar smávægilegar breytingar. Skattur á dansskemmtunum hefur verið lækkaður nokkuð. Í þriðja lagi verða öll kvikmyndahús skattskyld, en nú eru nokkur kvikmyndahús í eigu bæjarfélaga undanþegin skattinum. Í fjórða lagi eru skemmtanir, sem haldnar eru til ágóða fyrir málefni, sem miða að almenningsheill, nú undanþegnar skattl. Í frv. er gert ráð fyrir, að ráðh. geti undanþegið slíkar skemmtanir þannig, að skatturinn reiknist einungis af kostnaði við skemmtunina, en ágóðinn verði skattfrjáls, sé honum varið til málefna í þágu almennings. Er þetta í samræmi við reglur, sem nú er búið að lögfesta í Danmörku og hafa þótt gefast vel, enda er með þeim girt fyrir, að almenningsheill sé notuð að yfirvarpi til þess að ná skattfríðindum í þessu sambandi. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir einfaldari innheimtu, en verið hefur, t. d. að skatturinn verði reiknaður af heildaraðgangseyri í stað þess að hann er nú reiknaður af aðgangseyri að skatti frádregnum. Hefur þessi regla verið nýlega tekin upp bæði í Noregi og Danmörku.

Ég geri ráð fyrir, að sérstaklega tvær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, muni valda nokkurri deilu. Það er skattskylda þeirra kvikmyndahúsa, sem verið hafa skattfrjáls til þessa og eru í eigu bæjarfélaga, og hitt, að skattgreiðslan skuli ná til kauptúna, sem hafa 500 íbúa og fleiri, í stað þess að markið er nú 1.500 íbúar. Hvorki menntmrn.ríkisstj. í heild hafa tekið afstöðu til þessara eða annarra atriða frv., og þótti rétt að leggja það fyrir Alþ. eins og það kom frá n. Hafa því einstakir ráðherrar frjálsar hendur um þessi og önnur atriði frv.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og — ja, ég veit ekki, hvort það þykir rétt að setja það í menntmn. eða fjhn. — Ég legg til, að því verði vísað til menntmn.