21.10.1952
Efri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

9. mál, tollskrá o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Ég hafði fyrst hugsað mér að bera fram tvær brtt. við þetta frv. og hreyfði því í hv. fjhn., en þær voru í því fólgnar að fella niður allverulega innflutningstolla af hálfunnum dósum utan um niðursuðuvörur og fullunnum sérstökum tegundum dósa, sem kallaðar eru dingle-dósir, og enn fremur að endurgreiða hliðstæðan hluta af þeim tollum, sem greiddir hafa verið af þessum innflutningi á yfirstandandi ári. Eftir að ég hafði hreyft þessu í n., ræddi hv. frsm. meiri hl. við hæstv. ráðh. um þessi mál og flutti mér þá þær fréttir, sem hann að vísu gat ekki um hér í sinni framsöguræðu, að það væri von á frv. til breyt. á tollalöggjöfinni frá hæstv. ríkisstjórn. Og í trausti þess, að það frv. komi svo snemma á þessu þingi, að það gefist tækifæri til þess að afgreiða það mál, þá mun ég ekki bera fram þær brtt., sem ég hafði hugsað að bera fram við þetta frv. Bregðist það mót von minni, þá mun ég að sjálfsögðu bera fram sérstakt frv. í sambandi við þetta mál síðar á þinginu. Mér þótti rétt að gera þessa grein fyrir þeim fyrirvara, sem ég hef skrifað hér undir nál.

Út af ræðu hv. frsm. minni hl. vildi ég aðeins, úr því að ég stóð upp, leyfa mér að benda á, að honum er fullkomlega ljóst, að það muni þurfa 127.5 millj. kr. í ríkissjóðinn til þess að mæta útgjöldum í staðinn fyrir þá tekjustofna, sem hann hér mælir á móti, að sé haldið áfram næsta ár. Mér eru það vonbrigði, að ekki skyldi hafa verið sett fram í fjhn. þetta sjónarmið af hans hálfu, því að það kom þar alls ekki fram. Þar kom ekkert fram frá honum um það, að hann teldi, að það ætti að skipta hér um og fara inn á beina skatta í staðinn fyrir óbeina, eins og hann ræddi hér nú. En það er þá sýnilegt, að ef hann ætlast til þess, að farið yrði inn á þá braut, þá yrði að hækka úr 54 millj. kr. beina skatta samkv. fjárlögunum um 127.5 millj. Það yrði með öðrum orðum nærri því að fjórfalda skattaálagninguna í sambandi við tekju- og eignarskatt í landinu. Ég veit nú ekki, hvernig þessi hv. þm. hefur hugsað sér framkvæmdina á því. Hitt er mér kunnugt um, að það eru mjög sterkar kröfur hér í Alþ. fyrir því að lækka allverulega tekju- og eignarskattsbyrðina hjá þjóðinni, og ég held, að það sé enginn ágreiningur um það út af fyrir sig, að það þurfi að hækka persónufrádráttinn allverulega, það þurfi að lækka skattstigann á þeim, sem hafa minnstar tekjur hins vegar, og það sé lítil hagsýni í því að innheimta mjög lágar upphæðir eftir þessum leiðum; það þurfi þess utan að gefa ýmis fríðindi til atvinnufyrirtækjanna í sambandi við skattalögin til þess að örva atvinnulifið í landinu. Og ef þarf að uppfylla allar þessar kröfur, sem mér skilst nú raunverulega, að meiri hl. hv. alþm. standi nú að, þá hljóta þær að rýra ákaflega mikið þennan tekjustofn, og þá er ekkert eftir annað, en að hækka þeim mun meira það, sem eftir er. Og það sér nú hver lifandi maður, að hverju það mundi stefna. Það mundi stefna að því, að allt atvinnulíf í þessu landi færi í rústir. Ef það er því hugsun þessa hv. þm. með sinni framsöguræðu hér að stefna að því, að allt atvinnulíf á Íslandi fari í rústir, þá er náttúrlega miklu betra að viðurkenna það opinberlega, heldur en að vera að ræða um það á þennan hátt, sem hann hefur gert hér. Það er eitthvert það allra mesta ábyrgðarleysi, sem ég hef heyrt hér, að halda því fram í alvöru, að það sé hægt að fella niður þennan tekjustofn ríkisins, rúmar 127 millj. kr., og láta ekkert annað koma í staðinn heldur en beina skatta á einstaklingana í þjóðfélaginu, því að sú hugsun er ekki hugsuð til enda undir neinum kringumstæðum, hvorki af þessum hv. þm. né neinum hans flokksbræðra. Það er eingöngu ábyrgðarlaust hjal, og ég trúi því nú satt að segja ekki frekar en hv. forseti þessarar d., að það finnist margir menn í landinu, sem taka það alvarlega. — Ég skal svo ekki fara nánar út í þetta atriði. Hv. frsm. meiri hl. hefur gert því skil, en mér þótti rétt að láta þetta koma fram, úr því að ég þurfti að ræða um málið á öðrum sviðum.