24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (3130)

86. mál, skemmtanaskattur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna þess að hv. 4. þm. Reykv., er síðast talaði, skaut ör að mér eða út af ummælum, sem ég lét hér falla, þegar áfengislagafrv. var lagt fram, þar sem ég lýsti því yfir, að ég og ríkisstj. hefðum ekki tekið afstöðu til einstakra atriða frv., og taldi slíkt í senn vera nýmæli, að slík yfirlýsing kæmi fram, og sízt til bóta, þá vil ég segja örfá orð.

Ég held, að það sé auðvelt að sanna, að hér er ekki um neitt nýmæli að ræða, að frv. séu flutt án þess, að flm., hvort sem það er ríkisstjórn eða aðrir, bindi sig við öll einstök atriði þeirra. Þetta er daglegt atriði, t. d. ef nefnd flytur frv. eftir beiðni annarra, að slík yfirlýsing fylgi. Um stjórnarfrumvörp stendur mjög mismunandi á, eins og enginn ætti að vita betur en þessi hv. þm. Sum stjórnarfrv. eru beinlínis útbúin í stjórnardeildum, samin undir yfirstjórn og umsjá ráðherra, sem hlut á að máli, og er þar um að ræða annaðhvort hans eigin tillögur eða till., sem hann tekur ábyrgð á. Ef frumvörp aftur á móti eru samin af nefndum, hvort sem um er að ræða milliþn. eða stjórnskipaðar nefndir, þar sem ýmsir aðilar eiga hlut að með mismunandi skoðanir, þá er engin von, að ríkisstj. geti skuldbundið sig til þess að fylgja frv. eins og þau liggja fyrir í öllum einstökum atriðum. Hitt er ljóst, að stjórnin eða einstakur ráðherra tekur frv. ekki til flutnings, nema því aðeins að hann að meginstefnu til telji frv. til bóta. Ég lýsti því yfir varðandi áfengislagafrv., að ég teldi frv. að meginstefnu til bóta, þó að ég vildi ekki binda mig við öll einstök atriði frv., alveg eins og hæstv. menntmrh. lýsti um það frv., sem hér liggur fyrir, að hann teldi það að meginstefnu til bóta, þótt hann vildi ekki binda sig við öll atriði frv., sem er samið af nefnd. Það er aftur á móti ljóst, að ef ráðherra — og það er auðvitað hugsanlegt — færi að krukka í slík frv., sem samin eru af nefnd, þá mundi nefndin telja verk sitt vera falsað og gallað og koma fram með allt öðrum hætti, en hún ætlaðist til. En úr því að sérstakir aðilar ýmiss staðar frá hafa verið fengnir til þess að semja frv., þá er það sjálfsagt og eðlilegt, að frumvörpin í þeirra mynd séu lögð fram, auðvitað að því áskildu, að menn geti fellt sig við meginstefnuna, sem þar kemur fram. Þetta er ekkert nýmæli. Þannig hygg ég að það hafi ætið verið um öll stjfrv., sem lögð hafa verið fram og samin af nefndum. Ég efast um, að það sé eitt einasta dæmi þess um slíkt frv., að stjórn hafi viljað binda sig að öllu leyti við það, sem nefndir leggja til, þó að stjórnirnar hafi tekið frv. til flutnings. Hvort þetta hefur ætíð verið tekið fram eða ekki, skal ég ekki segja, það fer mjög eftir atvikum. Ástæðan til þess, að ég tók þetta fram um áfengislagafrv., var eitt tiltekið atriði, sem ég hafði beinlínis orð á að ég væri ósamþykkur. Það geta verið fleiri minni háttar atriði, sem eins stendur á um. Slíkur háttur er langtíðkaður og sízt af öllu ástæða til þess að fara að finna að því hér með mikilli vandlætingu, þótt þessi háttur sé hafður á eða þessi orð viðhöfð af ríkisstjórninni.

Mér finnst það sannast sagt líka koma úr hörðustu átt, að hv. þm. skuli fara að ávíta núverandi ríkisstj. fyrir það, að það sé nú verið að gera upp á milli manna, hvort þeir byggi fjölbyggða staði eða fámenna, eins og það sé einhver sérstök nýtízkuleg stefna í stjórnmálum. Hér er einmitt í þessu frv. verið að draga úr þeim mun, og það eru tveir þingmenn, sem risa upp og gagnrýna það, en að meginstefnu til hefur þessi munur — að því er mér skilst, ég hef ekki athugað það til hlítar, og leiðrétti þá þeir, sem betur vita — verið alla tíð, sem þessi lög hafa verið í gildi, frá 1927, þannig að þessi atriði laganna voru m. a. í gildi samkv. því allan þann tíma, sem hv. þm. lofsamlegrar minningar var menntmrh. Aldrei heyrðu menn þá, þegar hann átti að bera ábyrgðina, að hann hefði áhuga eða sýndi minnstu viðleitni til þess að fá þessu breytt. Svo rís hann upp hér núna og fer að ávíta núverandi stjórn fyrir það, að hún taki upp einhvern nýjan sið í þessu.

Hitt er annað mál, að það er nýmæli í þessu frv., sem ég kann mjög vel og þakka þeim, sem þar eiga upphaf að, að leggja til, að atvinnufyrirtæki bæjarfélaga séu sköttuð á sama veg eins og atvinnufyrirtæki einstaklinga. Það er ekkert vit í öðru sannast sagt. og hefur allt of lengi viðgengizt, að bæjarfélög gætu tekið undir sig ýmiss konar atvinnurekstur, sem einstaklingar hafa rekið, og síðan hælast forgöngumenn bæjarrekstrar um yfir því, hversu hann gangi vel, þegar eini munurinn liggur í því, að annar er skattfrjáls, en hinn verður að standa undir þungum sköttum. Því aðeins fæst eðlilegur samanburður og eðlileg samkeppni í slíka starfrækslu, að báðir aðilar séu látnir lúta sömu reglum um skattgreiðslu. Þótt hér sé aðeins um smávægilega leiðréttingu í því efni að ræða, þá kann ég henni mjög vel og þakka þeim, sem þar eiga upphafið að.