24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (3131)

86. mál, skemmtanaskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. taldi nauðsynlegt að benda hæstv. forseta á það, að það hefði verið mjög óþinglegt af mér að benda hv. menntmn. á að fylgja dæmi hæstv. ráðh. um að taka enga afstöðu til málsins. En hann gaf nú sjálfur alveg tilefni til þess. Hann lýsti því yfir hér í sinni ræðu, að hann hefði sjálfur ekki tekið neina afstöðu til þessa máls og þá ekki heldur meðráðh. hans í ríkisstj. Ég gat nú vel skilið það, að meðráðh. hans tækju ekki afstöðu til málsins. Þeir hafa kannske ekki haft tækifæri til þess að rannsaka afleiðingarnar af því frv., sem hér er á ferðinni, enda heyrir það fyrst og fremst undir hæstv. menntmrh. En að hann sjálfur skuli ekki hafa tekið afstöðu til málsins, skil ég nú miklu miður, og var að sjálfsögðu undirstrikun á því, að málið væri þá hvorki mjög aðkallandi né heldur mjög mikilsvert, því að svo vel þekki ég hæstv. ráðh. og hans samvizkusemi í stjórnarathöfnum, að hann mundi ekki hafa látið þessi orð falla, ef hann hefði verið búinn að fullvissa sig um það, að málið væri mjög mikils virði og nauðsynlegt, að það næði fram að ganga.

Það var nú ekki upplýst fyrr, en nú hjá hæstv. dómsmrh., að þetta mál hefði verið samið af nefnd. Ég sé, að það stendur hér í aths., að rn. ákvað að láta fara fram endurskoðun á skemmtanaskattslöggjöfinni í heild. Það segir ekkert um það, að til þess hafi verið valin einhver sérstök nefnd, heldur að þetta hafi verið gert á skrifstofu ráðuneytisins. En úr því að nú er farið að tala um það hér, þá þætti mér það ekkert óeðlilegt, að hv. menntmn. fengi upplýsingar um það, áður en málið kemur hér til 2. umr., hvað hefur kostað að semja þetta frv. Hvað hefur það kostað, og hvað hefur verið greitt fyrir það úr ríkissjóði? Það er ekkert ófróðlegt fyrir okkur, sem stöndum í því daglega hér að reyna að klístra saman fjárlögum, að fá að vita um, hvað slíkur frumburður kostar ríkissjóðinn eins og þetta mál, sem hér er. Vildi ég gjarnan óska eftir því, að annaðhvort hæstv. ráðh. upplýsti það eða hv. nefnd upplýsti það áður en málið kemur til 2. umr.

En svo að ég snúi mér aftur að kjarna málsins, sem hæstv. ráðh. vildi ekki ræða um, og það er rekstur þjóðleikhússins, þá á ég bara ómögulegt með að skilja það, að rekstur þjóðleikhússins komi ekki þessu máli við eða hann sé þessu máli óviðkomandi, eins og hæstv. ráðh. sagði. Málið er þó borið fram til þess að reyna að tryggja áframhaldandi rekstur þjóðleikhússins annars vegar og til þess að greiða þær áhvílandi skuldir, sem hvíla á byggingunni, hins vegar. Þetta eru hyrningarsteinarnir undir þessu máli. Og svo leyfir hæstv. ráðh. sér að segja, að þetta mál sé rekstri þjóðleikhússins alveg óviðkomandi.

Nú vil ég í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að í fyrra var ákveðið, að það skyldi taka ágóða af viðtækjaverzluninni og láta hann ekki renna beint í ríkissjóðinn og ekki heldur til útvarpsins, heldur til þess að nota í rekstur þjóðleikhússins eða til að greiða með áhvílandi skuldir í sambandi við bygginguna. Nú á að kippa þessum tekjustofni burt frá þjóðleikhúsinu með þessari löggjöf. Og þó kemur þessi löggjöf ekkert þjóðleikhúsinu við, þó að það séu teknar af því 500 eða 600 þús. kr. með þessu frv., ef að lögum verður. Ég held nú ekki einasta, að hæstv. ráðh. sé áhugalítill um þetta mál, heldur held ég, að hann sé svo áhugalítill. að hann hafi bara alls ekki lesið frv. Nú, þetta, að þessi hundruð þúsunda hafa verið tekin frá útvarpinu, hefur orsakað sífelld klögumál á fjárveitingavaldið og fjvn. og verið fullyrt af útvarpsstjóra, að það hafi orðið til þess, að það verði raunverulega að loka útvarpinu, ef ekki komi eitthvað annað í staðinn. Þó er nú ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., að það eigi að renna í sinn fyrri farveg.

Í sambandi við þessi mál hefur einnig verið upplýst, að á næsta ári þarf ríkisútvarpið 1.660 þús. kr. aðeins í dagskrána, hvar af áætlað er, að 800 þús. fari til þess að hella yfir þjóðina þeim hljómleikum, sem fluttir eru af plötum í útvarpinu. Og af þeim 800 þús. kr. fari svo 500 þús. kr. a. m. k. í sinfóníuhljómsveit, sem enn þá hangir í lausu lofti, enginn ber ábyrgð á, enginn veit, hvað kostar, og enginn veit, hver stjórnar. Það má segja, að þetta komi ekki mikið þessu máli við, en það kemur þó sannarlega þessu máli við, þegar litið er á ákvæðið til bráðabirgða. Nú hefur fjvn. mjög óskað eftir því að fá upplýsingar um það, hvað þessi fljúgandi stofnun kostar ríkissjóðinn eða ríkisstofnanir. Við höfum m. a. óskað eftir því, því að nokkru heyrir þetta undir hæstv. menntmrh., að fá að sjá tekjur og gjöld þessarar ágætu stofnunar. Hæstv. ráðh. hefur vísað okkur á annan ágætan hv. þm. hér, sem hafði verið falið að rannsaka þetta mál. Ég hef fengið það svar frá honum, að hann geti ekki fengið neinar upplýsingar frá stofnuninni um það. hvorki um bókhald, útgjöld né tekjur. Og þó er þetta stofnun eða fyrirtæki, sem tekur a. m. k. 500 þús. kr. út úr einni stofnun ríkisins, þ. e. útvarpinu. Og mér skilst, að það sé ætlazt til þess, að hún taki alimikla upphæð, kannske aðra eins upphæð, út úr þeim tekjum, sem koma inn samkv. þessu frv. Ég vil því til viðbótar því, sem ég hef sagt áður, mjög mælast til þess, að áður en þetta frv. er afgr. til 2. umr., þá verði einnig leitað upplýsinga um það, hvernig hagur þessarar stofnunar er eða þessa fyrirtækis og hvað það á raunverulega að fá mikið af þeim tekjum, sem hér er um að ræða, og hvað mikið ætti þá að renna af því til sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég hafði hugsað mér að spara þessa umr. hér, af því að ég hélt, satt að segja, að hæstv. ráðh. mundi senda þetta mál til þeirrar nefndar, sem raunverulega ber að athuga þetta, þ. e. fjhn. En úr því að þetta er ekki gert, þá er eðlilegt, að þessar fyrirspurnir komi hér fram.

Ég skal einnig benda á í sambandi við þær ádeilur, sem hafa komið til fjvn. og alveg sérstaklega á mig sem formann nefndarinnar, og það nú alveg nýlega, að fyrir áhrif frá mér sé verið að leggja útvarpið fjárhagslega í rúst með því að taka frá því þær tekjur, sem hafa komið frá viðtækjaverzluninni, að það sé því verkefni fyrir nefndina að rannsaka, hvort þessar ádeilur séu réttar, því að ef svo er, þá er sjálfsagt að vera ekki að láta þennan tekjustofn renna til ríkisins, eins og ætlazt er til með þessum lögum, heldur fara aftur í sinn gamla farveg. En ástæðurnar fyrir því, að ég hef beitt mér fyrir því, að þetta væri tekið af útvarpinu, eru í meginatriðum tvær. Önnur er sú, að þegar þetta var ákveðið í upphafi, þá hafði útvarpið ákaflega fáa notendur og mjög litlar tekjur. Það var ákaflega eðlilegt, að það væri hjálpað til þess að láta tekjur frá viðtækjaverzluninni ganga til útvarpsins á bernskudögum þess. Nú eru útvarpshlustendur orðnir hvorki meira né minna en rúmlega 35 þúsund manns. Og það er allt annað viðhorf fyrir þá stofnun að geta staðið undir sér fjárhagslega sjálf með 35 þúsund hlustendum, en aðeins með nokkrum þúsundum hlustenda, eins og var í upphafi. Hin ástæðan er sú, að útvarpið hefur síðan fengið mjög verulegan, góðan og öruggan tekjustofn, sem eru auglýsingar, þó að hæstv. ráðh., sem stjórnar þessari stofnun, hafi gert sitt ýtrasta til þess að klípa úr þeim ágóða með afskiptum sínum af dansauglýsingum. Og þetta hefði þó náttúrlega orðið enn meira, ef þeir hefðu ekki verið snjallari, sem þar voru á móti, og getað beitt þeim brögðum, sem hann ræður ekki við. Annars mundi það hafa haft meiri áhrif á auglýsingatekjur útvarpsins. En þetta voru þau sjónarmið, sem vöktu fyrir mér, þegar ég lagði til og beitti mér fyrir því, að þessi tekjustofn væri tekinn í burtu. Ofan á þetta kemur svo þriðja atriðið, að í útvarpinu er enn slík stjórnsemi á fjármálunum, að það verður ekki þolandi til lengdar. Það eru m. a. greiddar nú um 300 þús. kr. fyrir yfirvinnu í þessari stofnun, auk þess sem það er hvorki meira né minna en áætlað, að 535 þús. kr. fari til þess að innheimta gjöldin, þ. e. yfir 12%. Og á meðan slík fjárhagsstjórn er á útvarpinu, — sem ég er síður en svo að kenna hæstv. menntmrh., því að þess er sannarlega ekki að vænta, að hann geti stjórnað slíkri stofnun þannig í starfi sínu, — en á meðan slík fjármálastjórn er hjá útvarpinu og ef til vill kannske hjá Þjóðleikhúsinu, sem ekki verður þó sagt um fyrr en þau gögn liggja fyrir, því að það einkennilega er nú, að það hefur aldrei þótt rétt að setja rekstur þessarar stofnunar, gjöld og tekjur þjóðieikhússins, inn í fjárlögin, en það á þar að sjálfsögðu nákvæmlega eins heima og útvarpið, — en á meðan slík fjármálastjórn er í þessum stofnunum, þá er engan veginn eðlilegt, að þeir umboðsmenn, sem eru fyrir dreifbýlið, vilji fallast á, að það sé veríð að skerða þennan rétt, sem fólk hefur í dreifbýlinu nú.

Það er enginn vafi á því, að það er ekkert sambærilegt, hvað það getur verið meiri erfiðleikum bundið að reka t. d. menningarstarfsemi, leiklist eða leiksýningar eða góðar kvikmyndir, á stað, þar sem aðeins geta mætt á sýningu kannske 40–50 manns einu sinni í viku, en að reka sams konar starfsemi þar, sem geta mætt 6–8 hundruð manns á hverju kvöldi. Þetta er ekkert sambærilegt. Og ég er alveg viss um það, að það er að stíga rangt spor að láta þennan skemmtanaskatt ná til þeirra héraða, sem eru svo fólksfá, að þau geta ekki haldið uppi skemmtunum nema með tapi, ef á að leggja á þau nokkrar nýjar byrðar, og geta raunverulega ekki í dag staðið undir eðlilegum skemmtunum vegna þess, hversu dýrt það er. Það er alveg rangt að íþyngja þeim mönnum í sambandi við þetta mál, eins og það er líka rangt að ætlast til þess, að þeir greiði sams konar gjald fyrir skemmtanir og þeir, sem hafa miklu öflugri viðskiptagrundvöll að reka þessa starfsemi á. Það er líka alveg rangt að leggja þetta á þau héruðin, þó að þau séu nokkru fjölmennari, en með 500 íbúa, sem hafa tekið skemmtanaskatt innan vissra takmarka af þeim skemmtunum, sem hafa getað borið sig fjárhagslega, og notað það fé til þess að byggja upp menningarstarfsemi heima fyrir. Ég álít, að það sé alveg rangt að taka þetta af þeim til þess að flytja þetta beint inn í ríkissjóðinn eða inn til þjóðarbúsins.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál hér meira á þessu stigi, en vænti þess fullkomlega af hv. menntmn., sem ég ber fullt traust til í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að hún afli sér þeirra upplýsinga, sem ég hef minnzt á. Það kann vel að vera, að ég komi fram með brtt. í sambandi við þetta frv., og þætti mér ekkert óeðlilegt, að þær kæmu þá fram áður en n. skilar málinu aftur frá sér, því að það er enginn vafi á því, að það eru miklu betri vinnubrögð, ef menn hafa áhuga fyrir brtt., að láta þær koma fram á fyrsta stigi málsins, eftir 1. umr., til þess að n. geti einnig tekið afstöðu til þeirra till., heldur en að láta þær koma fram eftir að n. er búin að skila sínu áliti og vinna sitt meginstarf í sambandi við afgreiðslu málsins. En þetta mál hlýtur alveg sérstaklega að verða það hitamál, þó að það sé ekki mjög stórt fjárhagsmál, að mönnum er ekki alveg sama, hvernig farið er með það. Það snertir svo mjög allan almenning, einnig hér fyrir utan kaupstaðina, að það er ekki alveg sama, hvernig það er afgr. hér frá hv. Alþ.