24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

86. mál, skemmtanaskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. er nú farinn burt héðan úr d., en ég vildi þó segja það, að mér þótti vænt um að heyra þá yfirlýsingu frá honum, að hann hefði enn ekki tekið afstöðu til þeirra atriða í þessu frv., sem ég tel athugaverð, og ég vænti þess, að þegar hann tekur afstöðu sína, þá taki hann hana á þá leið, að hann vilji láta leiðrétta frv. um þessi atriði. Skattsviðið hefur verið fært niður, og hæstv. menntmrh. gat þess til réttlætingar því, að vegna þess að sumt af skattinum gengi til félagsheimila víðs vegar úti um land, þá mætti þetta teljast sanngjarnt. En mér þykir leiðinlegt að sjá það í frv., að um leið og skattsviðið er fært niður yfir fámennið, þá er líka lækkaður hlutur dreifbýlisins til félagsheimila og lestrarfélaga og kennslukvikmynda. Til félagsheimila voru áður 35%, en nú 32%, til lestrarfélaga og kaupa á kennslukvikmyndum áður 8%, nú aðeins 7%.

En aðallega var það nú hv. 4. þm. Reykv., sem ég vildi segja nokkur orð til, en hann er kannske ekki lengur svo nærri, að hann heyri mál mitt. Hann hélt því fram, að réttast væri, að skatturinn næði til allra í landinu, og tók fram því sem næst orðrétt: Ég sé engan eðlismun á skemmtunum fjölbýlis eða fámennis. — Og þetta lagði hann til grundvallar skoðun sinni og endurtók það: Ég sé engan eðlismun á skemmtunum fjölbýlis eða fámennis. — Þetta kalla ég falsrök, af hverju sem þau eru sprottin. Þessi hv. þm. stendur að till. um að skattfría lágtekjur meira, en verið hefur, og er ekkert nema gott um það að segja, að hækkaður sé persónufrádráttur. Það tel ég réttlætismál. En ef því væri svarað við slíkum till., að þær ættu ekki að koma til greina, vegna þess að það væri enginn eðlismunur á ríkum mönnum og fátækum, þá væri það alveg sambærilegt við það svar, sem hv. 4. þm. Reykv. gefur, þegar menn halda því fram, að skemmtanir fámennisins eigi ekki að skattleggjast. Það er enginn vafi á því, að ríkur maður og fátækur eru sama eðlis, það er enginn eðlismunur á ríkum manni og fátækum, en það er mikill munur á því, hvað rétt er að skattleggja þá. Það er í raun og veru ekki annað, sem ég geri kröfu til í þessu sambandi, heldur en það, að lágtekjurnar af skemmtunum séu ekki skattlagðar. Hv. þm. Barð. hefur drengilega bent á, hversu fráleitt það væri. Ég er viss um það, að ef þeir þéttbýlismenn og fjölbýlismenn, sem eru líkrar skoðunar og hv. 4. þm. Reykv., t. d. spyrðu leikflokk þann, sem fór út um land í sumar og sýndi gott leikrit, „Vér morðingjar“, að því, hvort það mundi bera sig eins vel og á fjölmennum stöðum eftir reynslu þeirra að setja leik á svið og sýna á Skagaströnd eða Dalvík eða Eskifirði eða Seyðisfirði, þá mundu þeir geta gefið þær upplýsingar, að það væri talsvert annað en t. d. að koma upp leiksýningum í Reykjavík. Og ég er ekki í vafa um það, að þeir teldu sig ekki líklega til þess, þótt góðir leikendur séu, að geta haldið uppi leikstarfsemi á þessum fámennu stöðum fjárhagslega, hvað þá goldið skatta til annarra vegna leiksýninganna. Nei, þeir, sem eru á móti því, að fámennið sé skemmtanaskattfrjálst eins og verið hefur, í sama mæli og verið hefur, þeir eru ekki vel sjáandi, og ég hefði viljað ráðleggja þeim að nudda úr augum sér. Ég hefði líka viljað ráðleggja hv. 4. þm. Reykv. að taka sér um stund bólfestu aftur á Seyðisfirði, og ég er viss um það, að ef hann hefði nú verið þm. Seyðf., þá hefði hann ekki mælt á sömu leið og hann mælti hér áðan. — Ég treysti því, að hv. menntmn. leiðrétti frv.