10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

21. mál, verðlag

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felst það, að fjárhagsráð skuli skyldað til þess að ákveða hámarksverð á hvers konar vörum og verðmætum, þ. á m. hámark álagningar, umboðslauna og annarrar þóknunar, sem máli skiptir um verðlag í landinu. Í því felst með öðrum orðum, að aftur skuli tekið upp verðlagseftirlit hér á landi.

Það er nú liðið um það bil hálft annað ár síðan nær allt verðlagseftirlit var afnumið. Afnám verðlagseftirlitsins var einn liður í þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. að gera verzlunina á Íslandi frjálsa. Það skal fúslega játað, að það er ekki öldungis út í bláinn að hafa afnám verðlagseftirlits sem einn þátt í stefnu, sem hefur raunverulega það markmið að gera verzlun frjálsa. Ef verzlun er raunverulega frjáls og vöruframboð er nægilegt, er takmörkuð þörf fyrir verðlagseftirlit. Hins vegar var það dæmalaus yfirsjón hjá hæstv. ríkisstj. að afnema verðlagseftirlitið hér á landi svo að segja um leið og hömlur voru afnumdar á innflutningnum og áður en nokkur reynsla var á það fengin, hvort hægt væri að halda innflutningsfrelsinu. Sökum hinnar gífurlegu vöruþurrðar, sem hér hafði verið árum saman, hlaut skyndilegt afnám verðlagseftirlits að þýða okur á fjölmörgum vörutegundum, enda varð sú raunin á. Og það var í rauninni að ýmsu leyti engu líkara, en að það væri beinlínis til þess ætlazt, — að beinlínis væri að því stefnt að gefa milliliðum tækifæri til þess að ná á auðveldan hátt milljónum í sinn vasa.

Í þessu sambandi hefur verið mikið rætt um gömlu verðlagsákvæðin. Það hefur verið mikið um það rætt, hvort þau hafi verið orðin of lág eða ekki. Í gengislækkunarlögunum var svo ákveðið, að álagning mætti ekki hækka að krónutölu frá því, sem verið hafði fyrir gengislækkunina, og jafngilti það auðvitað lækkun á raunverulegri álagningu. Þessi ákvæði, eins og þau urðu eftir gengislækkunina, voru vafalaust of lág, miðað við þann innflutning, sem leyfður hafði verið undanfarin ár, og er nauðsynlegt að leggja sérstaka áherzlu á þetta síðastnefnda. En á það ber og að benda, að þessi ákvæði voru sett af sjálfri hæstv. ríkisstj. eftir tillögu sérfræðinga hennar í efnahagsmálum, dr. Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs próf. Björnssonar. En þó að ég segi, að verðlagsákvæðin hafi vafalaust verið orðin helzt til lág eftir samþykkt gengislækkunarlaganna samkv. tillögum sjálfra sérfræðinga ríkisstj., þá vek ég athygli á, að það er miðað við þann innflutning, sem leyfður hafði verið undanfarið. Í því felst auðvitað ekki, að þau hafi þurft að vera of lág, miðað við þann innflutning, sem væntanlegur var, þ. e. a. s., að þau mundu verða of lág, ef innflutningurinn yrði stóraukinn. Sannleikurinn er sá, að mikið af tali manna, sem ættu að vita betur, um þessi efni, er svo fávíslegt, að undrum sætir. Menn tala mikið um það t. d., hvort ákveðin álagningarprósenta, 6 eða 7 eða 10 eða 12 eða 15% á vefnaðarvörur t. d., sé of há eða lág í sjálfri sér, án þess að nefna í því sambandi viðskiptamagnið, sem á er lagt. Nú vita allir, sem lágmarksþekkingu hafa á þessum málum, að dreifingarkostnaðurinn er fastur að mjög verulegu leyti, þ. e. a. s. eykst ekki eða minnkar í hlutfalli við vörusöluna. Hvort ákveðin hundraðstöluálagning er of há eða lág, þ. e. a. s., hvort hún skilar miklum eða litlum hagnaði eða jafnvel tapi, er algerlega háð því, hver innflutningurinn er, þ. e. a. s., hver vörusalan er. Það, sem olli því fyrst og fremst, að gömlu verðlagsákvæðin voru orðin of lág eftir samþykkt gengislækkunarinnar, var, hversu innflutningurinn hafði verið lítill, hversu lítið magn hafði verið flutt inn til þess að leggja á. Ef innflutningurinn væri aukinn mikið, eins og gert var, gat það gert ákvæðin hæfileg. En við þetta bættist svo, að öll verðlagsákvæði voru hækkuð tvívegis. Þau voru tvívegis hækkuð, eftir að gengislækkunin hafði verið samþykkt. Ég fyrir mitt leyti taldi þá hækkun ekki ósanngjarna. Og eftir þessar hækkanir voru verðlagsákvæðin tvímælalaust orðin hæfileg, miðað við þann innflutning, sem fyrirhugaður var, enda litu jafnvel stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. í sjálfu fjárhagsráði þannig á, þar eð fjárhagsráð hafði samþykkt þessar hækkanir báðar og talið þau verðlagsákvæði hæfileg. Hv. fjárhagsráð og stuðningsmenn stjórnarinnar þar voru andvíg því, að verðlagsákvæðin væru algerlega afnumin. En hæstv. ríkisstj. sjálfri fannst hins vegar hagur milliliðanna ekki nógu góður og tók því þá ákvörðun, að nær því allt verðlagseftirlit skyldi vera afnumið, og gerði það, að því er ég bezt veit, í andstöðu við sjálfa fulltrúa sína í hv. fjárhagsráði.

Það er oft verið að bera saman álagningarprósentur hér og í öðrum löndum, t. d. Danmörku og öðrum Norðurlöndum. Slíkur samanburður er algerlega út í bláinn. Hann er fullkomin markleysa, nema álagningargrundvöllurinn, þ. e. a. s. kostnaðarverðið, sé sambærilegur og verzlunarkostnaðurinn, sem álagningunni er ætlað að greiða, sé hliðstæður. Við hér á Íslandi erum t. d. með miklu hærri tolla en löndin umhverfis okkur, en lagt er á tollana, eins og allir vita. Danmörk er t. d. eitt tolllægsta land í Evrópu og gerir þetta auðvitað allan samanburð að því er Danmörku snertir algerlega út í hött. Auk þess höfum við hér bátagjaldeyrisskipulagið, sem ekkert nágrannalandanna hefur, og á bátagjaldeyrisálagið er líka lagt, eins og allir vita, bæði í heildsölu og þá auðvitað einnig í smásölu, og gerir það auðvitað að verkum, að ekki er hægt að bera saman álagningarhundraðshlutana. Verzlunarkostnaðurinn hér er hins vegar að ýmsu leyti hærri, vegna hærra kaupgjalds t. d., en það er fjarri því að vega upp á móti þeirri hækkun, sem verður á kostnaðarverðinu, sem á er lagt hér, miðað við löndin í kringum okkur. Þess vegna er allur slíkur samanburður grunnfærnislegur og út í loftið. Vilji maður gera samanburð á raunverulegri álagningu hér og í nágrannalöndunum, þá verður að gera þann samanburð á grundvelli miklu víðtækari rannsókna og samanburðar.

Þá er oft um það talað, að gömlu verðlagsákvæðin hafi verið orðin pappírsákvæði. Sérfræðingar ríkisstj. í efnahagsmálum hafa stundum talað og skrifað á þennan veg, stjórnarblöðin hafa oft gert það, og nú síðast viðhafði hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðu sinni orð svipuð þessu. Ég vil benda hv. alþm. á að íhuga, hvað þetta raunverulega þýðir, hvað það raunverulega þýðir að segja, að gömlu verðlagsákvæðin hafi verið orðin pappírsákvæði. Það getur ekki þýtt annað en það, að þau hafi verið brotin, að þau hafi ekki verið haldin. Og er það ætlun forsvarsmanna ríkisstj. að halda því fram, að verzlunarstéttin yfirleitt hafi á síðustu árum verðlagsákvæðanna brotið svo að segja öll verðlagsákvæði og þar með ekki haldið hin opinberu fyrirmæli? Þetta eru þokkaleg brigzlyrði í garð verzlunarstéttarinnar. Þetta er þokkalegur rógur í garð hennar. Og furðulegast af öllu er, að þetta skuli segja menn, sem sjálfir sátu í ríkisstj., meðan þessi verðlagsbrot eiga að hafa átt sér stað að sögn þeirra nú. Ef eitthvað er til í þessu, að öll verðlagsákvæði hafi verið orðin hrein pappírsákvæði, þá fæ ég ekki betur séð, en að þetta séu upplýsingar um einhver mestu verðlagsbrot, sem hér hafi verið um að ræða. Og vegna þess að hæstv. fjmrh. tekur sér slík orð í munn, er ekki úr vegi að minnast á, hvort hann í alvöru telji, að verðlagsákvæðin hafi líka verið orðin pappírsákvæði að því er snertir kaupfélögin. Telur hæstv. fjmrh. í raun og veru, að kaupfélögin hafi brotið verðlagsákvæðin svo gífurlega, að hægt hafi verið að kalla þau pappírsákvæði? Kaupfélögin hafa í sínum höndum mjög verulegan hluta af verzlunarrekstri í landinu, og ef taka á þessi orð hátíðlega, er þetta vægast sagt ádeila á rekstur kaupfélaganna.

Nei, sannleikurinn um þessi ummæli er sá, að hér er blandað saman vöruskortinum, sem þessir menn bera einnig ábyrgð á, og verðlagseftirlitinu. Það, sem verið er að gera, er í raun og veru það, að óvinsældir vöruskortsins eru notaðar til þess að sverta verðlagseftirlitið. Látum nú vera, að forráðamenn Sjálfstfl. stundi slíka iðju fyrir þá, sem þeir bera fyrir brjósti, en að framsóknarráðherrar skuli láta hafa sig til slíks, það er að láta lágkúruleg íhaldsöfl draga sig lengra niður heldur en sæmilegt verður að teljast.

Í sambandi við allt þetta er hins vegar aldrei á það minnzt, hvert hafi verið hlutskipti almennings í þessum efnum, hvernig sú stjórnarstefna, sem hér hefur verið fylgt undanfarin ár, hafi komið við hag almennings. Fyrst verður almenningur árum saman að búa við gífurlegan vöruskort og standa í biðröðum til að fá algengustu nauðsynjar, og loksins, þegar bætt er úr þessum vöruskorti, eins og bráðnauðsynlegt og sjálfsagt var, hvað tekur þá við? Þá tekur við gífurlegt okur á þessum nauðsynjavörum, sem almenningi er nú frjálst að kaupa. Og að framfylgja þessari stefnu heitir víst á máli Framsfl., svo að ég víki aftur að hæstv. fjmrh. í framhaldi af ummælum hans um daginn, það heitir víst að berjast gegn fjárplógsstarfsemi.

Hver hefur svo reynslan af afnámi verðlagseftirlitsins orðið á þessu hálfu öðru ári, sem liðið er síðan það var afnumið? Sem betur fer, hefur verðgæzlustjóri safnað skýrslum um verð og álagningu. Verðgæzlustjóri er mjög samvizkusamur embættismaður og starfsmenn hans dyggir í starfi sínu. En samt sem áður eru skýrslur hans ekki fullnægjandi, þær eru ekki nógu ýtarlegar, ekki nóg flokkaðar, það er ekki einu sinni fullkomlega frá þeim gengið, þær eru t. d. ekki lagðar saman, hvorki í heild né einstakir vöruflokkar. Það er í raun og veru engu líkara, en að það sé verið að gera þeim mönnum, sem áhuga hafa á að vinna úr þeim, eins erfitt fyrir við það starf sitt eins og frekast er unnt. Mér hefur að vísu verið sagt, að starfsskilyrði verðgæzlustjóra séu ekki góð. Hann fái t. d. ekki kostnaðarreikninga innflytjendanna, eins og áður átti sér stað, heldur verði sjálfur með sínu starfsliði að framkvæma nær alla útreikninga á grundvelli tollreikninganna, sem hann fái hjá skrifstofu tollstjóra. En engu að síður ber að þakka það, sem gert er, og þær skýrslur, sem verðgæzlustjóri hefur birt, hafa verið mjög merkilegar og gert mönnum kleift að mynda sér hugmynd um þessi efni, sem ella hefði ekki verið hægt. Nú nýlega hefur verðgæzlustjóri birt mjög merkilega skýrslu um athuganir, sem hann gerði í ágústmánuði s. l. Ég skal með örfáum orðum víkja að nokkrum helztu niðurstöðum þessarar skýrslu og sný mér þá fyrst að vefnaðarvöruinnflutningnum, verzlun með vefnaðarvöru, sem flutt hefur verið inn samkv. frílista. Þar hefur meðalálagning í heildsölu verið 17,1%. Er það næstum þreföldun á þeirri heildsöluálagningu, sem leyfð var meðan verðlagsákvæðin voru í gildi, eftir að álagningin hafði verið tvíhækkuð eftir gengislækkunina. Smásöluálagningin hefur reynzt 31,5%, og það er ekki nema 37% hækkun á álagningunni eins og hún var leyfð meðan verðlagsákvæðin voru í gildi. Ég skil ekki í því, að nokkur maður, sem þekkingu eða reynslu hefur í viðskiptamálum, beri á móti því, að 17% meðalálagning á vefnaðarvöruinnflutning landsins í heildsölu sé allt of há. Og eins og ég lét getið í fjárlagaræðu um daginn, þá man ég ekki betur en að hæstv. viðskmrh. hafi sagt það í umræðum hér á Alþ., að hann teldi hæfilega álagningu á vefnaðarvöru í heildsölu vera 10%. Það er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að 10% álagning á vefnaðarvöru í heildsölu er sómasamleg álagning og ætti að vera nægileg til að standa undir dreifingarkostnaði á innfluttri vefnaðarvöru, miðað við aðstæður hér á Íslandi nú. En meðalálagningin í heildsölu reynist 17,1%, eða 70% hærri.

Ef maður vill gera sér einhverja grein fyrir, hvað þessar tölur raunverulega þýða, hvað þær hafa fært innflytjendum, þá liggur auðvitað beinast við að athuga, hversu mikið hefur verið flutt inn af vefnaðarvörum á frílista frá þeim tíma, er frílistinn var upp tekinn og frá því að verðlagseftirlitið var afnumið. Yfirfærður gjaldeyrir fyrir frílistavefnaðarvörur hefur numið 91 millj. kr. En talsvert af þessari upphæð er vefnaðarvara til iðnaðar, og hefur hún auðvitað ekki nema að litlu leyti gengið gegnum hendur venjulegrar verzlunar, og auk þess voru verðlagsákvæðin ekki afnumin fyrr en nokkru eftir að fyrsti frílistinn var gefinn út. Ég hef með aðstoð sérfróðra manna áætlað, að sá hluti hins frjálsa vefnaðarvöruinnflutnings, sem gengið hefur í gegnum hendur bæði heildsölu og smásölu, muni nema um 70 millj. kr., frá því að frílistinn var gefinn út. Og ef gengið er út frá þessu, kemur í ljós, miðað við síðustu skýrslu verðgæzlustjóra, að heildsöluálagning á frílistavefnaðarvöruinnflutninginn hefur numið 18,4 millj. kr. En hún hefði átt að nema 6,5 millj. kr., ef verðlagsákvæðin hefðu verið í gildi. Álagningarhækkun heildsalanna á þennan vefnaðarvöruinnflutning hefur þannig numið 11,9 millj. kr. Smásöluálagningin hefur raunverulega numið á þennan innflutning 39,8 millj. kr. Hún hefði átt að nema 26,3 millj., og nemur álagningarhækkunin í smásölu þannig 13,5 millj. kr. En það, sem er ekki hvað sízt athyglisvert, er, að þessi vefnaðarvara hefur hækkað í útsöluverði um 26 millj. kr.; verðið hefur orðið 26 millj. kr. hærra vegna afnáms verðlagsákvæðanna, en það hefði verið, ef verðlagsákvæðin hefðu verið í gildi áfram; það hefur hækkað um 18%, og verður það ekki talið lítið.

Að því er snertir bátagjaldeyrisinnflutninginn, sem skýrsla verðgæzlustjóra fjallar um að mjög verulegu leyti, er þetta að segja: Ég hef aflað mér upplýsinga um, hvað útgefin A-skírteini, þ. e. a. s., hvað útgefin skírteini, sem veita bátaútvegsmönnum innflutningsrétt af framleiðslu ársins 1951, nemi hárri upphæð. Það eru 103,2 millj. kr. Þessi A-skírteini, þessi innflutningsréttindi selja útvegsmenn síðan innflytjendum. Og við sölu þessara réttinda hafa útvegsmenn fengið 53,6 millj. kr. Hvað snertir framleiðslu ársins 1952 horfir málið þannig við, að útgefin A-skírteini hafa numið 43,4 millj. kr. Seld innflutningsréttindi, eða svo kölluð árituð B-skírteini, nema 31,5 millj. kr., en búið er að yfirfæra fyrir vörukaupum af þessu fyrir 21,4 millj. kr. Bátagjaldeyrishlutur útvegsmanna af framleiðslu ársins 1952 mun nema um það bil 17 millj. kr., þannig að bátaútvegsmenn hafa fengið í sinn hlut alls, síðan bátagjaldeyriskerfið var tekið upp, um 71 millj. kr. Þessi tala, sem allt þetta geysilega flókna og geysilega óvinsæla braskkerfi þurfti til þess að skaffa, er þó ekki nema 71 millj. Og ef maður ber þetta saman við það, að álagningarhækkun milliliðanna á frjálsa vefnaðarvöruinnflutninginn nemur 26 millj. kr., má geta nærri, hvort ekki hefði verið hægt að útvega þessa 71 millj., sem bátaútvegsmenn hafa fengið, upp á einhvern einfaldari máta, en að taka upp þetta kerfi, sem kennt hefur verið við bátagjaldeyri. Heildaryfirfærslur til kaupa á bátavörum námu til septemberloka þessa árs 101,3 millj. kr., en þær vörur eru ekki enn komnar til landsins alveg allar.

Það er auðvitað mjög erfitt að gera sér nákvæma grein fyrir því, hversu álagningin hefur numið miklu á allan þennan vöruinnflutning. Eins og ég gat um áðan, eru skýrslur verðgæzlustjóra því miður ekki svo ýtarlegar eða nákvæmar, að hægt sé að gera um þetta nákvæma áætlun. En það er hægt að fara mjög nærri um álagningu á ýmsa vöruflokka, þ. e. a. s. þá vöruflokka, sem athugun verðgæzlustjóra hefur sérstaklega beinzt að. Og það er hægt að sundurliða skýrslur hans þannig, að sjá megi, hvernig útsöluverðið á einstökum vörutegundum skiptist í helztu liðina, erlent innkaupsverð, flutningsgjöld og því um líkt, bátagjald, tolla, söluskatt og álagningu í heildsölu og smásölu. Og niðurstaðan af slíkum athugunum er mjög athyglisverð. Til þess að gera grein fyrir henni er ekki hægt að komast hjá því að lesa nokkrar tölur, en ég held, að það væri rétt, að ég léti hv. alþm. heyra nokkur sýnishorn um þetta, t. d. sundurliðun á því, hvernig útsöluverð á ávöxtum, eða appelsínum, skiptist samkv. síðustu skýrslu verðgæzlustjóra, og er þá byggt á niðurstöðum, fundnum eftir nánari sundurliðun á verðlagi, sem skrifstofa verðgæzlustjóra gerði með samþykki hæstv. viðskmrh. fyrir mig á s. l. ári. En um ávextina er þetta að segja: Erlent innkaupsverð nemur 28,1% af útsöluverðinu. Flutningsgjald, vátrygging og annar kostnaður nemur 15,6%. Bátagjaldið 7,3%. Tollur og söluskattur 15,8%. Álagning heildsala 8,1% og smásala 25,1%. Með öðrum orðum nemur erlenda innkaupsverðið 28% af útsöluverðinu, en álagning heildsala og smásala 33,2%, þ. e. a. s. miklu meiru, en varan kostar í innkaupi erlendis. — Ef við athugum kex, þá er niðurstaðan þessi: Erlenda innkaupsverðið er 28,5%, flutningsgjald o. fl. 4,4%, bátagjaldið 17,1%. tollur og söluskattur 19,9%, álagning heildsala 6,3% og smásala 23,8%, eða álagning heildsala og smásala 30,1%, en erlenda innkaupsverðið 28,5%a. — Ef við athugum hreinlætisvörur, verður mjög undarlegt upp á teningnum. Erlent innkaupsverð nemur þar 24,6%, flutningsgjald o. fl. 2,6%, bátagjald 15%, tollur og söluskattur 16,9%, álagning heildsala 13,4% og smásala 27,5%, — álagning heildsala og smásala 40,9% af útsöluverðinu, en innkaupsverðið er ekki nema 24,6%. — Ég skal nefna tvö dæmi enn. Annað er silkiefni. Ég rek þar ekki allar tölurnar. Erlenda innkaupsverðið er 28,9% af útsöluverðinu, en álagning heildsala og smásala 33,3%. Um tilbúinn fatnað er það að segja, að þar er erlenda innkaupsverðið 29,1% af útsöluverðinu, en álagning heildsala og smásala 30,6%. Á bifreiðavarahlutum er erlenda innkaupsverðið 35,3% af útsöluverðinu, en álagning, ein álagning, er 27,8% af útsöluverðinu. Það má því segja nokkurn veginn almennt, að álagning heildsala og smásala er meiri á bátagjaldeyrisvörurnar, í mörgum tilfellum miklu meiri, heldur en erlenda innkaupsverðið. Hún er sjaldan lægri. Af því má draga þá ályktun og það er vafalaust mjög varlega áætlað, að heildarálagningin hér innanlands á bátagjaldeyrisvöruna sé meiri, en hið erlenda innkaupsverð hennar. Og ef erlent innkaupsverð þeirrar bátagjaldeyrisvöru, sem búið er að yfirfæra fyrir, er rúmar 100 millj. kr., þá er álagningin hér innanlands vafalaust ekki undir 100 millj. kr., heldur talsvert yfir 100 millj.

Ég hef líka gert athugun á því, hvað þessi álagning á helztu vöruflokkana nemur í krónum talið. Álagning á ávexti, sem kosta 22,7 millj. kr. í innkaupi, nemur 26,8 millj., ef miðað er við niðurstöðu síðustu skýrslu verðgæzlustjóra. Álagning á vefnaðarvöru og fatnað, sem kostaði 25,2 millj. kr. í innkaupi, nemur 24,4 millj. Álagning á hreinlætisvörur, sem kosta 6,2 millj. í innkaupi, nemur 10,3 millj., og álagning á bifreiðavarahluta, sem kosta 19,3 millj. kr. í innkaupi. nemur 15,1 millj., og þannig mætti lengi telja. Ég fullyrði, að þetta er meiri álagning en tíðkast við sambærilegar aðstæður í nágrannalöndunum. Og ég vil leggja sérstaka áherzlu á, að nú er komið það ástand, sem hæstv. ríkisstj. sagði fyrir hálfu öðru ári að yrði eðlilegt. Álagningin hefur haft meira en ár til að jafnast, verzlunin hefur haft meira en ár til þess að leita jafnvægis, og er það jafnvægi, sem náðst hefur, með þessum hætti.

Auðvitað má spyrja, hvers vegna slíkt hafi gerzt, hvernig slíkt hafi getað gerzt. Höfuðástæðan er vafalaust sú, að það hefur ekki orðið um að ræða samkeppni í verzluninni, það hefur ekki orðið um að ræða þá samkeppni, sem hæstv. ríkisstj. spáði, kannske vonaði að mundi verða. Framboð á bátavörum hefur ekki verið nógu stöðugt, til þess að verzlunin með þær vörur hafi getað talizt eðlileg frjáls verzlun. Og að öðru leyti eru aðstæður í íslenzkri verzlun þannig, að menn keppa ekki í verði. Verzlunarfyrirtækin eru það kunnug hvert öðru, kringumstæður eru svo líkar, að um samkeppni í verði er ekki að ræða. Að svo miklu leyti sem menn keppa sín á milli, keppa menn á annan hátt, en þann að lækka álagningu hver fyrir öðrum. Í þessu sambandi verður þess enn fremur að geta og taka sérstaklega fram, að kaupfélögin hafa í raun og veru brugðizt í þessu sambandi. Þau hafa ekki orðið sá keppinautur fyrir einkaverzlunina, sem þau sjálf sögðu að þau mundu verða og ýmsir hafa vonað að þau yrðu. Er vissulega mjög illt til þess að vita, að þau skuli hafa brugðizt jafnhrapallega og raun er á, og á ég þar sérstaklega við Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hér í Reykjavík, sem engan veginn hefur sýnt kaupmönnum þá samkeppni, sem eðlileg væri eða neytendur hefðu mátt búast við af því fyrirtæki. En höfuðástæðan er auðvitað sú, að í raun og veru hefur verzlunin ekki orðið frjáls, sérstaklega hefur verzlunin með bátagjaldeyrisvörurnar ekki orðið frjáls. Nú er svo komið, að frílistinn hefur enn fremur verið afnuminn að mjög verulegu leyti, og til þess kemur vafalaust bráðlega, að það verður aftur skortur á mörgum vörum, sem mikið framboð eða þó nokkuð framboð hefur verið á undanfarið. Eins og kunnugt er, hefur ríkisstj. látið það boð út ganga, að á næstunni mætti ekki kaupa ýmsar þær vörur, sem verið hafa á frílista undanfarið, nema í vöruskiptalöndunum, þar sem mjög erfitt er að fá þær, auk þess sem þær eru dýrari þar en í frjálsa gjaldeyrislöndunum, og það má því hiklaust búast við því, að vöruskortur á mörgum sviðum aukist. Það má geta nærri, að það skapar enn skilyrði til aukinnar álagningar og hvers konar óheilbrigðra verzlunarhátta.

Ríkisstj. gaf á s. l. vori út bráðabirgðalög um heimild sér og verðgæzlunni til handa til þess að birta nöfn þeirra aðila, sem misnotuðu álagningarfrelsið. Þetta var góðra gjalda vert af hæstv. ríkisstj., og ber að þakka það. Sérstaklega bæri að þakka það rækilega, ef víst væri, að hugur fylgdi máli og að þetta hefði ekki verið aðeins yfirvarp, e. t. v. til þess að róa ekki allt of góða samvizku eða til þess að róa almenning og sannfæra hann um, að þrátt fyrir allt væri það þó ekki vilji hæstv. ríkisstj. að láta beint og vísvitandi okur viðgangast í skjóli álagningarfrelsisins. Því miður hefur trú manna á, að tilgangur ríkisstj. hafi verið sá að vernda almenning gegn okri og láta þá, sem um slíkt yrðu sekir, gjalda þess, minnkað nokkuð við það að komast að raun um, að hæstv. ríkisstj. hefur um alllangan tíma haft fyrir sér skýrslur ágæts trúnaðarmanns, verðgæzlustjóra, sem leiða í ljós tvímælalaust okur, án þess að hafast nokkuð handa um það að gera almenningi kunnugt um, hverjir það eru, sem slíkt okur stunda. Ég hef hér fyrir framan mig síðustu skýrslu verðgæzlustjóra og skal nefna, um leið og ég fletti henni, örfá dæmi, og vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., eins og ég raunar gerði líka í fjárlagaumræðunum, hvort hún telur þessa álagningu hæfilega. Hér er skýrt frá 29,5% heildsöluálagningu á léreft. Hér er skýrt frá 32,3% heildsöluálagningu á bómullarefni. Hér er skýrt frá 28,4% álagningu á bómullarefni í heildsölu. Hér er skýrt frá 38,3% álagningu í heildsölu á bómullarefni. Hér er skýrt frá 27,2% álagningu á borðdúka í heildsölu. Hér er skýrt frá 34,7% álagningu á tvinna og í annað skipti 34,2% álagningu á tvinna. Hér er skýrt frá 33,8% álagningu á raksápu o. fl. og 42,1% heildsöluálagningu á shampoo. Hér er skýrt frá 20% heildsöluálagningu á silkiefni, frá 30,9% heildsöluálagningu á nethanzka, frá 20,6% heildsöluálagningu á nylonsokka og 69,9% heildsöluálagningu á kvenveski, 22,4% heildsöluálagningu á hengilása, 59,6% heildsöluálagningu á fótbolta, 28,6% heildsöluálagningu á hárgreiður, 37,4% heildsöluálagningu á leir- og glervörur og 30,8% heildsöluálagningu á ýmis búsáhöld. Ég gæti lengi haldið áfram að lesa tölur álíka þokkalegar og þessar. Getur það verið, að hæstv. ríkisstj. telji þessa heildsöluálagningu hæfilega? Og ef hún telur hana ekki hæfilega, hvers vegna notar hún þá ekki sín eigin bráðabirgðalög til þess að skýra almenningi frá því, hverjir það eru, sem sekir gerast um slíka álagningu? Og hvers vegna setti hún yfirleitt þessi bráðabirgðalög, ef það var aldrei tilætlun hennar að nota þau?

Meginrökin fyrir þessu frv. okkar Alþfl.- manna eru þau, að eins og nú er komið, er innflutningsverzlunin í raun og veru alls ekki frjáls. Bátagjaldeyrisverzlunin er ekki frjáls verzlun. Skylduverzlunin við clearinglöndin er ekki frjáls verzlun. Þótt menn telji, að verðlagseftirlit sé óþarft, þegar verzlunin er frjáls, þá á það alls ekki við hér. Ég vil ekki gera of lítið úr þeirri röksemd, að þörf fyrir verðlagseftirlit sé takmörkuð, ef verzlun er og getur verið til langframa raunverulega frjáls og ef um raunverulega samkeppni er að ræða í verzluninni. En ég legg sérstaka áherzlu á, að þetta á sér nú ekki stað hér, meðan við höfum bátagjaldeyrisskipulagið og meðan við höfum jafnmikla verzlun við clearinglöndin eins og nú virðist tilætlunin að hafa. Fyrirætlun ríkisstj. var víst sú að hafa innflutningsverzlunina frjálsa, að hafa innflutninginn ótakmarkaðan og óháðan verðlagseftirliti. En reyndin hefur orðið sú, að innflutningurinn er ófrjáls, hann er takmarkaður, en hann er samt óháður verðlagseftirliti, og við svo búið má ekki standa. Það er þetta, sem verður að breyta. Setning nýrra verðlagsákvæða er í raun og veru í fullu samræmi við þær breytingar, sem ríkisstj. að öðru leyti hefur verið að gera á stefnu sinni. Og hæstv. ríkisstj. ætti ekki að muna meira um að hverfa frá þessu stefnuskráratriði sínu en öðrum.