10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

21. mál, verðlag

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Varðandi það, að form. Alþfl. er að þessu sinni ekki flm. þessa frv., er það eitt að segja, að hann var erlendis í upphafi þingsins, eins og hv. þm. V-Húnv. er vel kunnugt um, og gat þar af leiðandi ekki gerzt flm. þess, þar sem frv. var útbýtt hér á fyrsta degi þingsins. Gamanyrði hans um þetta voru þess vegna í raun og veru ekkert fyndin.

En ég er ekki staðinn upp til þess eins að segja þetta. Ég vil ekki, að það, sem ég mælti um samvinnuhreyfinguna, kaupfélögin áðan, sé rangtúlkað, eins og mér skilst að hv. þm. V-Húnv. langaði að gera. Það, sem ég átti við með því að segja, að kaupfélögin hefðu brugðizt undanfarið, var það eitt, að þeim hefði ekki tekizt að halda uppi svo mikilli samkeppni við kaupmenn, að komið hefði verið í veg fyrir okur í landinu. Með þessu átti ég fyrst og fremst við það, að S. Í. S. keypti lengi vel engar bátagjaldeyrisvörur og keppti alls ekki við kaupmenn á því sviði. Þetta held ég að hv. þm. V-Húnv., sem er mjög vel að sér í þessum málum öllum, viti jafnvel og ég. Ég held, að það sé enn svo, að S. Í. S. kaupi aðeins bátagjaldeyrisvörur fyrir þann bátagjaldeyri, sem til fellur frá þess eigin fyrirtækjum, en það er auðvitað svo lítið, að ekki verður talið, að samvinnuhreyfingin í heild haldi uppi neinni samkeppni í innflutningsverzluninni að því er verzlun með bátagjaldeyrisvörur snertir. Og það er þetta, sem ég kalla að bregðast að þessu leyti. Ef samvinnuhreyfingin hefði viljað gegna því hlutverki, sem neytendur vissulega ætlast til af henni sem voldugum, góðum og bráðnauðsynlegum aðila í verzluninni, þá hefði samvinnuhreyfingin átt að hefja mjög mikinn innflutning á þessum vörum og keppa á þessu sviði harðlega við kaupmenn.

Í öðru lagi átti ég við það, að neytendur í Reykjavík hafa orðið, sérstaklega nú undanfarið, fyrir miklum vonbrigðum með rekstur kaupfélagsins hér í Reykjavík, þ. e. a. s. Kron. Samkeppni af þess hálfu við kaupmenn hefur ekki verið jafnhörð og ekki jafnvel rekin eins og bæði þeir, sem eru í Kron, og aðrir neytendur í bænum hefðu óskað eftir.

Það var þetta, sem ég átti við með ummælum mínum, og þetta eitt. Í þeim átti engin óvild að felast í garð samvinnuhreyfingarinnar eða kaupfélaganna og ekkert vanmat á því mikla og góða hlutverki, sem þeim samtökum ber að inna af hendi í íslenzkum verzlunarmálum. Ég tel mig samvinnumann, rétt eins og hv. þm. V-Húnv., og hef viljað og vil enn gera mitt til þess, að samvinnuhreyfingin, neytendahreyfingin í landinu megi eflast og blómgast. Hitt er svo annað mál, að ég hef ekki svo mikla trú á úrræðum samvinnuhreyfingarinnar, að ég telji, að með hennar leiðum einnar megi leysa bókstaflega öll vandamál í viðskiptum þjóðarinnar. Ég tel, að ýmislegt annað þurfi að gera, auk þess að efla og styrkja heilbrigða samvinnuverzlun í landinu, og meðal þess er að hafa uppi opinbert verðlagseftirlit, þegar hlutdeild samvinnuverzlunarinnar í landinu er þó ekki meiri, en hún er nú í dag. Meðan hlutdeild kaupmannanna er jafnmikil í verzluninni í heild og nú er, þá er óhjákvæmilegt að hafa opinbert verðlagseftirlit í landinu, og þá sérstaklega meðan innflutningur til landsins er takmarkaður eins og hann nú er. Og ég vildi benda þessum hv. þm. og öðrum á, að þetta er ekki einkaskoðun mín. Ég vil fullyrða, að þessi skoðun á sér mikið fylgi meðal samvinnumanna á Íslandi og samvinnumenn í nágrannalöndunum eru yfirleitt á þessari skoðun. Ég vil benda hv. þm. á að afla sér upplýsinga um skoðun samvinnumanna í Svíþjóð á þessu efni. Þeir eru eindregnir stuðningsmenn opinbers verðlagseftirlits. Ég vil benda honum á að afla sér upplýsinga um skoðun samvinnumanna í Danmörku og Noregi og ekki hvað sízt skoðun samvinnumanna í Bretlandi á þessum efnum. Þeir eru ekki sammála hv. þm. V-Húnv. um það, að það sé nóg að hafa nokkurn hluta verzlunarinnar í höndum kaupfélaga, við það verði opinbert verðlagseftirlit óþarft. Nei, þeir eru þvert á móti á sömu skoðun og ég um þetta efni, að samvinnuverzlun sé nauðsynlegt og ágætt úrræði, eitt mikilvægasta úrræðið, sem völ er á í baráttu almennings fyrir heilbrigðum og góðum verzlunarháttum, en það dugi ekki, eins og ástandið víðast hvar er, t. d. tvímælalaust hér, heldur þurfi jafnframt að hafa öflugt opinbert verðlagseftirlit. Þetta frv., sem hér er um að ræða, túlkar því eins vel málstað samvinnumanna, sannra samvinnumanna, og þær skoðanir, sem komu fram í ræðu hv. þm. V-Húnv. hér áðan.