10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

21. mál, verðlag

Einar Olgeirsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af ummælum, sem hér hafa fallið um einstök kaupfélög í landinu og þeirra aðstöðu til þess að hagnýta sér hina svo kölluðu frjálsu verzlun og keppa, eins og vænta mætti, ef allt væri með eðlilegum hætti, að þau ættu að geta.

Það er tómt mál að tala um frjálsa verzlun fyrir kaupfélögin á Íslandi. Þau eru háð tvennum fjötrum sem stendur. Þau eru í fyrsta lagi háð fjötrum S. Í. S. Meginið af þeim leyfum, sem kaupfélögin eiga að fá, verður að fá í gegnum S. Í. S., og í staðinn fyrir að Framsfl. einu sinni lagði til kosninga hér — það voru síðustu kosningar — undir því kjörorði að tryggja kaupfélögunum í landinu og neytendunum frelsi, þá var tekið af kaupfélögunum það litla frelsi, sem þau höfðu eftir, og kaupfélögin svipt öllum leyfum til innflutnings og S. Í. S. látið hafa öll leyfin.

Það er vitanlegt. að það er verið að herða á fjötrum gagnvart kaupfélögunum í landinu með því að taka af þeim allt frelsi til að mega flytja inn, taka af þeim öll gjaldeyrisleyfi og flytja þau í hendur S. Í. S., sem síðan hlutar þessum leyfum út til kaupfélaganna. Þetta er fyrirkomulag, sem Framsfl. hefur staðið fyrir að koma á, og ég vil minna al1a aðila á, að það hafa ekki allar vörur verið gefnar frjálsar. Það er meginið af vörum enn þá, sem leyfi þarf til. Og hvernig er þá með þær fáu vörur, sem ekki þarf leyfi til? Til þess að flytja þær inn þarf peninga. Og hvernig gengur það fyrir hin einstöku kaupfélög landsins að fá það fjármagn? Hvernig gengur fyrir kaupfélög landsins að fá lán hjá bönkunum? Ég býst við, að hver einasti maður, sem þekkir eitthvað inn á það, viti, að það gengur illa. Ég skal ekki fullyrða um það, hvernig S. Í. S. kann að ganga að fá fé hjá bönkunum. Því er ég ekki svo kunnugur, en ég veit, að kaupfélögunum gengur það illa, kaupfélögunum gengur illa að fá það fé hjá bönkunum, sem þau þurfa til eðlilegs rekstrar. Og hvernig stendur á því? Það stendur þannig á því, að þeir flokkar, sem stjórna landinu núna, Framsfl. og Sjálfstfl., og ráða bönkunum og fyrst og fremst Landsbankanum, þeir ráða yfir megininu af fjármagninu í landinu.

Svo framarlega sem kaupfélögunum er ætlað að vera í þeirri aðstöðu að geta keppt, þá á að tryggja þeim eðlilegt fjármagn til þess, og það væri ekkert eðlilegra, en að ríkisvald, sem maður skyldi ætla að ætti að beita fyrir almenning, beitti sínum yfirráðum yfir fjármagninu hvað bankana snertir, þannig að verzlanir almennings, kaupfélögin, stæðu að minnsta kosti jafnvel að vígi eins og einstaklingarnir, þannig að fjárskortur, sem almenningur á venjulega við að búa í sínum samtökum, væri að nokkru leyti bættur upp með því, að kaupfélögunum væri þá séð betur fyrir fjármagni. En því fer fjarri, að þetta sé gert. Þvert á móti er af hálfu þessara flokka, og það undir forustu Framsfl., sem — eins og við höfum yfirlýsingu um — ræður öllu í ríkisstj. og er sá, sem hefur forustuna að öllu leyti, að dæma eftir yfirlýsingunni um það frá síðasta þingi, þá eru sett á með sérstakri auglýsingu sérstök gjaldeyrisleyfi, hinn svo kallaði bátaútvegsgjaldeyrir, sem ekki hefur nokkra stoð í lögum. Heimildarlaust er einstöku mönnum, sem hafa engan rétt til þess að fá gjaldeyrísleyfi í hendur, leyft að leggja svo að segja eins og þeir vilja á allar þessar vörur, með þeim afleiðingum, að það er ekki hægt fyrir aðra en þá, sem hafa gífurlegt fjármagn eða sérstök sambönd og hlunnindi hjá bönkunum, að kaupa þessa bátaútvegsgjaldeyrisvöru og flytja hana inn.

Það er því tómt mál að tala um, að kaupfélögin, eins og nú hefur verið upplýst, eigi að geta keppt í þessari bátaútvegsgjaldeyrisvöru, fyrir utan svo það, að mínu áliti, að þá er meðferðin á þessari vöru ólögleg, öll álagningin á hana beint rán, sem enga stoð á í lögum. Það er aðeins gerræði af hálfu Framsfl., sem hefur forustuna í ríkisstj., öll völdin, að hafa sett annað eins á og þetta. Það er þess vegna nokkuð hart að fara hér að deila á einstök kaupfélög fyrir, að þau keppa ekki harðvítugar um sölu á vörum, sem fluttar eru til landsins á ólöglegan hátt, lagt er á algerlega ólöglega með hreinu gerræði af hálfu stjórnarflokkanna, þegar stjórnarfl. á sama tíma ráðstafa svo þannig sínu valdi yfir fjármagninu, yfir bönkunum, yfir lánsfénu, að þessi einstöku kaupfélög eru látin vera útundan.

Ég vil aðeins minna á þetta, þegar verið er að ræða um þessa hluti, sérstaklega um það, sem hefur átt sér stað undanfarið. Ég þarf ekki að ræða þetta viðvíkjandi frv. Mín afstaða til þess kom greinilega fram hér í umr. í fyrra og við baráttuna um afgreiðslu á því frv. úr þeirri fjhn., sem ég á sæti í. Þetta vildi ég hins vegar að kæmi fram út af því, að rætt var um hin einstöku kaupfélög í landinu, og ætla ég ekki að fara í meting út af þeim. Ef þess er óskað hins vegar, þá er það fyllilega til taks að bera saman, við skulum segja Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis og Kaupfélag Ísfirðinga. En ég held það sé ekki það, sem liggur fyrir hérna fyrst og fremst að fara að ræða, heldur hitt, að skapa samvinnusamtökunum sem baráttusamtökum almennings betri aðstöðu, ekki aðeins í orði kveðnu um frelsi, heldur hvað snertir það að hafa umráð yfir fjármagni til þess að geta barizt.