13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3147)

21. mál, verðlag

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Af ræðu þeirri, sem hv. þm. Ísaf., sem jafnframt er formaður Kaupfélags Ísfirðinga, flutti virðist, að hann hafi ekki enn gert sér ljóst, að með því að gerast meðflm. að þessu frv. hefur hann elt flokksbræður sína inn á villigötur. Hann sagði, að ef í þessu frv. fælist árás á samvinnufélögin og ef ég gæti sannað, að eftirlitið kæmi sér illa fyrir þau, þá mundi viðhorf hans hafa verið nokkuð annað. Ég hef ekki sagt, að þetta frv. væri árás á samvinnufélögin. Hitt geri ég ráð fyrir, að við hv. þm. Ísaf. séum sammála um, að opinber íhlutun um málefni þeirra félaga, sem félagsmenn einir eiga að ráða og eru fullfærir um að ráða, sé óviðfelldin og félagsmönnum heldur til leiðinda. Kaupfélögin eru samtök manna um vörukaup og vörusölu. Þeir setja sjálfir reglur um verðlagningu á vörum og fela trúnaðarmönnum sínum, er þeir kjósa sjálfir, að framkvæma verðútreikninga. Það er að sjálfsögðu reynt að gæta þess að leggja á vörurnar fyrir óhjákvæmilegum kostnaði, sem á þær fellur, svo að ekki verði tekjuhalli. En sé tekjuafgangur, þá ráðstafa félagsmenn honum sjálfir, m. a. með því að endurgreiða hluta af vöruverðinu um áramót, eins og lög gera ráð fyrir. Opinber íhlutun um þetta er hvort tveggja í senn, óþörf og óviðkunnanleg, meðan samvinnulögin, sem félögin eiga að starfa eftir, eru ekki sniðgengin. Látum svo vera, þótt haldið verði áfram eftirliti með verðlagi á vörum, sem innflutningur er takmarkaður á, en að krefjast einnig eftirlits með verði á vörum, sem öllum er frjálst að flytja til landsins, það er fávíslegt, það er í raun og veru krafa um aukið starfsmannahald hjá ríkinu alveg að þarflausu. Það hlýtur að vera mér, hv. þm. Ísaf. og öðrum samvinnumönnum heldur til ama og leiðinda að sjá sendimenn frá verðlagseftirliti ríkisins vera að snatta í kaupfélögunum við athugun á verðreikningum algerlega að óþörfu.

Flm. frv. spyrja um það, hvort ég telji, að eftirlitið muni verða samvinnufélögunum til tjóns. Víst verða þau og félagsmenn þeirra að taka þátt í því með öðrum skattgreiðendum í landinu að borga kaup og ferðakostnað þessara eftirlitsmanna, og ýmsir telja kostnað við ríkisreksturinn þegar orðinn nógu mikinn, þótt ekki sé þar við aukið með stofnun margra nýrra alóþarfra embætta. Það er alltaf leitt að sjá fé kastað í óþarfa í stað þess að nota það til gagnlegra hluta. Ég hafði því, eins og ég hef áður sagt, naumast búizt við því, að hv. þm. Ísaf. mundi taka þátt í að flytja slíkt frv. Hitt var mér aftur ekkert undrunarefni, þó að hv. 3. landsk. þm. sé nú eins og í fyrra flm. þessa frv., hann er svo trúaður á forsjón jarðneskra yfirvalda í viðskiptamálum og á fleiri sviðum.

Nú er svo komið, að verulegur hluti af vöruinnflutningi til landsins er frjáls. Hver sem er getur keypt þær vörur til landsins, og menn hafa því möguleika til að fá þær með sanngjarnri álagningu, ef þeir hafa fyrir því að líta í kringum sig. áður en þeir gera kaup. En þetta breytir engu eða litlu í augum hv. 3. landsk. Hann telur annað heppilegra í þessum efnum. Hans fyrsta boðorð er: Opinbert eftirlit með verðlagi á öllum vörum, enn fleiri ríkisstarfsmenn í verðlagseftirlit - og þar af leiðandi stóraukinn kostnaður ríkisins við þá starfsemi.

Hann fór að vísu nokkrum viðurkenningarorðum um samvinnufélögin í sinni seinni ræðu um þetta mál, en þó lítur út fyrir, að hann telji hið opinbera eftirlit meira virði fyrir almenning heldur en samtök um viðskiptamál. Hann virðist líta svo á, að almenningur eigi að spara sér þá fyrirhöfn að hugsa um þetta, líta í kringum sig og vinna að hagfelldum vörukaupum; hitt sé farsællegra, að einblína á hina opinberu forsjón, heimta þaðan fleiri og fleiri ríkislaunaða starfsmenn til handleiðslu. Svo strangtrúaður er hv. þm. á leiðsögn ríkisvaldsins sem forsjón, að þó að nú sé sú breyting á orðin, að hans flokkur, Alþfl., sé ekki lengur í ríkisstjórn og viðskmrh. ekki í þeim flokki eins og áður var, heldur gegnir nú því embætti einn af þm. Sjálfstfl., þá haggar það ekki vitund hinni heitu og sterku trú hv. þm. á forsjónina. Og slíkri trú verður sennilega ekki raskað hér með ræðuhöldum og röksemdum.