20.10.1952
Neðri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

34. mál, atvinnubótasjóður

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunnugt, að þótt við Íslendingar eigum nú betri atvinnutæki, en nokkru sinni fyrr, þá hefur á hinum síðari árum nokkuð brytt á atvinnuleysi í landinu. Ég hygg, að menn greini ekki á um það, að orsakir þess séu fyrst og fremst tvær. Í fyrsta lagi aflabrestur á síldveiðum og sums staðar á landinu einnig á öðrum vertíðum. Þessi aflabrestur hefur valdið sjómönnum og útvegsmönnum geysilegu tjóni og stórfelldum tekjumissi og hefur átt ríkan þátt í því að gera þröngt fyrir dyrum útgerðarinnar, skapað henni geysimikla lánsfjárþröng og sökkt henni í skuldir. Af þessu hefur leitt, að útgerðartími skipa hefur á mörgum stöðum — og þá fyrst og fremst vélbátaflotans — orðið styttri en ella. Af því hefur hins vegar leitt skort á hráefni, sem t. d. hraðfrystihúsin og önnur fiskiðnaðarfyrirtæki þurfa til starfrækslu sinnar, en á starfrækslu þeirra byggist atvinna og afkoma almennings við sjávarsíðuna að mjög verulegu leyti. Í öðru lagi sprettur það atvinnuleysi, sem gert hefur vart við sig á síðari árum þrátt fyrir batnandi atvinnutæki, af því, að einstök byggðarlög skortir atvinnutæki, ýmist til þess að hagnýta þann afla, sem dreginn er á land, eða til þess að sækja hráefnin, til þess að afla fisks. Það er vitað, að á fjöldamörgum stöðum á landinu er skortur á þessu hvoru tveggja. Það skortir vélbáta, og það skortir hraðfrystihús, fiskimjölsverksmiðjur og önnur iðjufyrirtæki, sem gætu átt ríkan þátt í því í senn að gera sjávarafla verðmætari og atvinnu alls almennings við sjávarsíðuna tryggari og öruggari. Því má svo bæta við sem þriðju ástæðu fyrir atvinnuleysi í landinu undanfarið, að vegna rýmri innflutnings, meira verzlunarfrelsis, hafa einstakar greinar iðnaðarins, a. m. k. fyrst í stað, átt þröngt um vik við að standast samkeppni frá erlendum iðnaðarvarningi. Ég hygg, að um það ríki ekki ágreiningur, að atvinnuleysi sé böl í hverju því þjóðfélagi, þar sem þess verður vart. Vinnuaflið er dýrmætasta eign hverrar þjóðar. Það, að eiga ekki kost á atvinnu, hlýtur að verka lamandi á hvern starfsfúsan mann. Það hlýtur þess vegna að vera höfuðtakmarkið í atvinnumálum hverrar þjóðar, að næg atvinna sé handa öllu því fólki, sem vill og getur starfað.

Íslendingar hafa sýnt á þessu glöggan skilning hin síðari ár, eftir að efnahagur þeirra fór batnandi. Eftir síðustu heimsstyrjöld var mikil áherzla lögð á að kaupa til landsins atvinnutæki og skapa þjóðinni bætta aðstöðu í lífsbaráttunni og aukna möguleika til aukinnar framleiðslu. Hefur það að sjálfsögðu átt ríkan þátt í að bæta aðstöðu margra byggðarlaga, sem áður voru illa á vegi stödd. Í þessu sambandi má geta þess, að af þeim togurum, sem keyptir hafa verið til landsins nýir eftir síðustu heimsstyrjöld, munu nú um það bil 20 vera staðsettir úti á landi í kaupstöðum og sjávarþorpum og margir þeirra á stöðum, sem alls ekki höfðu togaraútgerð áður. Þetta hefur orðið þessum stöðum hin mesta lyftistöng og jafnframt ýtt undir aðra, sem enn þá hafa ekki fengið slík framleiðslutæki, til kröfugerðar um það, að hliðstæðar ráðstafanir verði gerðar til viðreisnar eða eflingar atvinnulífsins hjá þeim. En þrátt fyrir þessar atvinnulífsumbætur síðustu ára fer því þó víðs fjarri, að hægt sé að segja, að jafnvægi hafi skapazt í atvinnumálum þjóðarinnar og að öll byggðarlög landsins hafi nægileg framleiðslutæki. Það eru enn þá margir kaupstaðir og kauptún, sem skortir atvinnutæki til þess að fullnægja atvinnuþörf íbúa sinna.

Með því frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af okkur 7 þm. Sjálfstfl., er lagt til, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir sköpun atvinnuleysis í landinu og að tryggja á varanlegan hátt atvinnu alls almennings. Þar er lagt til, að stofnaður verði sérstakur sjóður, sem heiti atvinnubótasjóður, til þess að stuðla að atvinnuframkvæmdum á þeim stöðum, sem skortir atvinnutæki, og er fyrst og fremst haft í huga, að það fé sem veitt er til atvinnulífsframkvæmda á einstökum stöðum, verði notað til varanlegra framkvæmda, til kaupa á framleiðslutækjum, sem tryggi í framtíðinni afkomu fólksins í hlutaðeigandi byggðarlagi og næga atvinnu þar á staðnum. Það er hugmynd okkar flutningsmanna, að það verði fyrst og fremst einstaklingar, samtök þeirra í hlutafélags- eða samvinnufélagsformi, og enn fremur bæjar- og sveitarfélög, sem forustu hafi um slíkar umbætur í atvinnumálum á hverjum stað. Hér er því ekki verið að stofna til umfangsmikils ríkisrekstrar. Við höfum meiri trú á því, að þetta vandamál verði leyst með því, að einstaklings- og félagsframtak njóti sín sem bezt, að vísu í samvinnu við opinbert framtak, bæjar- og sveitarfélög, heldur en að byggja allt á því, að ríkið annist rekstur slíkra tækja og flækist þannig inn í áhætturekstur víðs vegar um land allt.

Þá er lagt til í frv. þessu, að ríkissjóður leggi fram 4 millj. kr. til stofnunar atvinnubótasjóðs á næsta ári. Það er sama upphæð og hv. Alþ. heimilaði hæstv. ríkisstj. að verja á líðandi ári í atvinnubótaskyni. Sú heimild mun nú hafa verið notuð að mestu eða öllu leyti, og það virðist ekki freklega í sakirnar farið að leggja til, að atvinnubótasjóður verði stofnaður með svipaðri upphæð. En enn fremur er gert ráð fyrir, að til hans verði greiddar af ríkisfé 2 millj. kr. á ári hverju næstu 10 ár, og í þriðja lagi. að ¼ hluti af mótvirðissjóði renni í atvinnubótasjóð, eftir því sem lán hans innheimtast, en mótvirðissjóður mun nú vera um 320 millj. kr. Í þessu sambandi vil ég minna á, að Alþ. samþykkti á síðasta þingi viljayfirlýsingu um það, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess, að mótvirðissjóði yrði varið, þegar fé hans er tiltækt til slíkrar ráðstöfunar, til lánastarfsemi að hálfu í þágu landbúnaðarins og að hálfu til eflingar framleiðslu og framkvæmdum fyrir kaupstaði og kauptún.

Við flm. leggjum til, að helmingur þess fjár, sem þáltill. gerir ráð fyrir að renni til framkvæmda við sjávarsíðuna, renni í atvinnubótasjóð, þennan sjóð, sem á að hafa það hlutverk að byggja upp atvinnulíf sjávarsíðunnar og skapa þar jafnvægi og tryggja afkomumöguleika almennings á þeim stöðum, sem nú búa þar við öryggisleysi um afkomu sína. Ég skal ekki fjölyrða um þennan þátt frv., en vil þó benda á það, að ef til vill er aldrei meiri nauðsyn á því en nú, þegar ríkisvaldið hefur haft forustu um stórfelldar framkvæmdir í þéttbýlinu, á ég þar við hinar miklu raforkuvirkjanir við Sog og Laxá, — að líta á þörf þeirra landshluta, þar sem byggðin er strjálust. Ég hygg, að ef ekki yrði snúizt að því að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja afkomu almennings og atvinnuskilyrði í þeim hlutum landsins, þá skapaðist stórkostleg hætta á því, að einmitt þau auknu lífsþægindi og bættu atvinnuskilyrði, sem renna í kjölfar hinna miklu raforkuvirkjana fyrir þéttbýlið, yrðu til þess að skapa stórfelldan fólksflótta frá hinum strjálbýlli framleiðslubyggðarlögum til lands og sjávar víðs vegar um land. Þess vegna held ég, að það sé mjög rökrétt hjá okkur flm. að leggja til, að mótvirðissjóðurinn, sem myndaður er af erlendu framlagi, sem notað hefur verið að langmestu leyti til byggingar hinna miklu raforkuvera fyrir þéttbýlið, gangi einmitt til þessa sjóðs til þess að skapa jafnvægi í atvinnulífi þjóðarinnar. Ég vil því leggja mikla áherzlu á það, að hv. Alþingi gefi þessari hlið málsins gaum. Það hafa á undanförnum árum legið og liggja einnig fyrir þessu þingi frv. og till. frá hæstv. ríkisstj. um stórfelldar fjárveitingar til þessara miklu framkvæmda þéttbýlisins, sem ég að sjálfsögðu er fylgjandi og tel sjálfsagðar og eðlilegar. En við megum ekki gleyma þeim landsmönnum, sem við verri aðstöðu búa, en engu að síður inna af höndum mikilvægt starf í framleiðsluatvinnugreinum þjóðarinnar. Þvert á móti verðum við að freista þess að koma í veg fyrir, að enn aukið jafnvægisleysi skapist og ný vandamál verði til í því þéttbýli, sem mest hefur verið gert fyrir.

Ég hygg, að ég hafi í aðalatriðum gert grein fyrir þeirri stefnu, sem þetta frv. byggist á. Sé ég ekki ástæðu til að ræða ýtarlega einstakar greinar þess við þessa umr. En í frv. er lagt til, að stjórn atvinnubótasjóðs verði mynduð af fulltrúum frá verkalýðssamtökunum, Vinnuveitendasambandi Íslands og ríkisstjórninni. Virðist það eðlilegt, þar sem atvinnurekendur og launþegar eiga að sjálfsögðu báðir ríkra hagsmuna að gæta í því, að unnt verði að koma í veg fyrir atvinnuleysi og skapa jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég vil svo að lokum segja það, að erfitt árferði getur að sjálfsögðu skapað þá erfiðleika í atvinnulífi þjóðarinnar, sem erfitt er að bæta úr á hverjum tíma. En þess er þá að gæta, að því betri og meiri framleiðslutæki sem þjóðin á, því meiri er mótstöðuþróttur hennar, því minni hætta er á því, að það fólk, sem vill vinna og getur unnið, verði fyrir barði atvinnuleysis og vandræða.

Ég vil svo leyfa mér að vænta þess og við flm. allir, að þetta frv. fái hér góðar móttökur og að þessu þingi ljúki ekki svo, að ekki verði stigin spor til varanlegra umbóta í atvinnulífi þessarar þjóðar, spor, sem marki merka áfanga í baráttu hennar fyrir atvinnuöryggi í landinu.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.