14.10.1952
Neðri deild: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (3183)

55. mál, raforkulánadeild Búnaðarbanka Íslands

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. um þetta efni var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Nú hefur því verið breytt dálítið til þess að gera sigur þess vísari á þessu þingi, þannig að framlag það, sem ríkissjóði er ætlað að leggja til raforkulánadeildar við Búnaðarbanka Íslands, skiptist á 3 ár. Væntum við flm. þá, að með þessu móti verði málinu komið fram til sigurs.

Eins og kunnugt er, þá hefur á undanförnum árum verið lagt töluvert af rafmagnsveitum út um sveitir landsins. Þeir, sem fá rafmagnið, verða að greiða ¼ kostnaðar í heimtaugagjöldum, auk þess sem þeir þurfa um leið að kaupa öll tæki, sem rafmagninu fylgja, og lagnir í húsin, og hafa — óhætt að segja flestir — komizt í hálfgerð vandræði í sambandi við það að greiða þessi heimtaugagjöld. Hafa þeir orðið að taka víxla, sem hvíla á þeim með þungum byrðum, og er nauðsynlegt, að á þessu verði ráðin bót, ekki aðeins vegna þeirra, sem nú þegar hafa fengið rafmagnið og búa við víxilskuldir, heldur og einnig vegna hinna, sem eiga eftir að fá rafmagn og við væntum að muni fá það áður, en langur tími líður.

Það er draumur þeirra, sem í sveitum búa og í kauptúnum, sem ekki enn hafa fengið rafmagn, að það komi áður en langur tími liður.

Það munu nú ýmsir segja, að það sé ekki nóg að leysa þennan þátt rafmagnsmálsins, sem að bændunum eða fólkinu lýtur úti í sveitunum, hvað heimtaugagjald snertir. Það er aðeins ¼ hluti af kostnaði við veiturnar. Það verður vitanlega ekkert lagt af veitum, nema einnig sé bætt úr hinu, sem að ríkissjóði lýtur, og gerðar séu ráðstafanir til þess, að ¾ hlutar kostnaðarins verði einnig greiddir. Þá komum við að þeim vanda, hvernig á að fara að því að útvega ríkissjóði fé í þessu efni.

Á s. l. þingi flutti ég frv., ásamt þrem öðrum þm., um að tvöfalda framlag ríkissjóðs árlega til raforkusjóðs, þannig að í staðinn fyrir 2 millj., eins og nú er lagt til samkv. raforkulögunum, kæmu 4 millj. Okkur var ljóst, að þetta var raunverulega allt of lítið til þess, að raforkuframkvæmdir gætu haldið ört áfram. En við fluttum nú frv. í þeirri trú, að það yrði samþ. og að það gæti bætt úr að einhverju leytl. Nú er komið fram frv. um sama efni, flutt að vísu af öðrum þm., þar sem lagt er til, að í staðinn fyrir 2 millj. komi 5 millj., og það er ljóst, að með stöðugt vaxandi dýrtíð verður þetta einnig of lítið, þó að það frv. nái fram að ganga. Það mun að vísu bæta töluvert úr, en það mun ekki verða nóg til þess, að hægt verði að halda raforkuframkvæmdum áfram og byggingu veitna á næstu árum með svipuðum hraða og var á árunum 1947, 1948 og 1949. Það er þess vegna enginn vafi á því, að enda þótt þetta frv., sem ég nú nefndi, verði samþ., þá þarf, til þess að geta haldið nokkurn veginn svipuðum hraða og verið hefur á undanförnum árum, enn fleira að koma til, og ég held þá, þar sem ríkissjóður hefur alltaf yfir takmörkuðu fjármagni að ráða, að það verði ekki hjá því komizt á þessu þingi að flytja frv. um heimild til lántöku fyrir ríkissjóð í þessu skyni að einhverju vissu marki, enda þótt frv. um aukningu á framlagi til raforkusjóðs nái fram að ganga.

Verði þetta frv. samþ., þá má fullyrða, að það geti bætt að miklu leyti úr þeim vandræðum, sem margir eru í, þegar þeir eiga að fara að greiða heimtaugagjöld, því að það væri eðlilegt, þar sem fé þessarar deildar er mjög takmarkað, að við útlán væru þeir látnir sitja fyrir, sem hefðu mesta þörf fyrir það og kæmu með vottorð frá hreppsstjóra eða oddvita um það, hvernig efnahagurinn væri, og að það væri raunveruleg þörf að hjálpa þessum manni um lán. Það væri óeðlilegt, að þessi deild, meðan hún hefur mjög takmörkuð fjárráð, færi að veita þeim mönnum lán, sem hefðu þess ekki beinlínis þörf og gætu hjálpað sér sjálfir án lántöku.

Með þessu frv. er ekki séð fyrir áframhaldandi tekjum eða framlagi, eftir að þessi 3 ár eru liðin og þessar 5 millj. hafa komið fram, að öðru leyti en því, sem afborgun af lánum gefur og vaxtatekjur, sem yrðu 3%, fram yfir það, sem rekstur deildarinnar kæmi til með að kosta. Það er lagt til, að lánað sé með 3½% vöxtum, en Búnaðarbankinn taki aðeins ½% af útistandandi skuldum deildarinnar fyrir það að sjá um rekstur hennar. Þess vegna mundi deildin, þegar hún hefur lánað út þessar 5 millj., hafa árlegar tekjur, sem svarar ½ millj. kr., og væri það að vísu nokkuð til þess að velta áfram, en að sjálfsögðu of lítið. Þótt ekki sé nú lagt til um framhald tekna fyrir deildina, tel ég, að það gætu komið tímar og ráð til þess síðar meir, þegar reynslan af rekstri deildarinnar er fyrir hendi og Alþingi og alþjóð er ljóst, hversu nauðsynleg hún er að öllu leyti.

Ég tei nú ekki ástæðu til að svo komnu að fjölyrða meira um þetta mál. Við væntum þess, flm., að það nái nú fram að ganga að þessu sinni, vegna þess að nú er greiðslunni skipt á 3 ár og ríkissjóði ætti ekki að verða íþyngt um of með þessum framlögum.

Ég vil mælast til þess að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.