14.10.1952
Neðri deild: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

60. mál, almannatryggingar

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er hv. þdm. kunnugt frá því á síðasta þingi, þar sem það var flutt þá í sama formi og það er flutt nú, svo að ég get látið mér nægja fáein orð til þess að mæla með því.

Í frv. er lagt til, að bætt verði í almanna tryggingalögin ákvæði um nýjan flokk bóta, mæðralaun. Það er tilgangurinn með þessum ákvæðum að greiða einstæðum mæðrum, sem hafa fleiri en eitt barn á framfæri sínu, sérstakar bætur, þannig að kona með tvö börn fái sem svarar þriðjungi lífeyris eins og hann er nú, kona með þrjú börn 2/3 lífeyris og kona með fjögur börn eða fleiri sem svarar fullum lífeyri samkv. gildandi lögum.

Þegar tryggingalögin voru endurskoðuð á árinu 1948, þá mælti nefnd sú, sem það gerði, með því, að ákvæði um mæðralaun væru tekin í lögin, enda má segja, að það sé sá galli þeirra, sem sé mest áberandi. Á næsta þingi samþykkti Ed. tillögur um þetta efni, en þá stöðvaðist málið hins vegar í Nd. Síðan hafa till. oftar en einu sinni verið fluttar um þetta, en aldrei náð fram að ganga. Málið er þó mikið réttlætismál og á stuðning margra aðila. Fjölmargir aðilar, einkum ýmis kvennasamtök, hafa sent Alþingi áskoranir um að samþ. slík ákvæði sem þessi.

Það má segja, að móðir, sem hafi aðeins fyrir einu barni að sjá og fær greiddan með því lögskipaðan barnalífeyri, eigi yfirleitt að geta komizt af án nokkurs frekari styrks. En þeim mun fleiri sem börnin eru, er móðirin að sjálfsögðu bundnari af þeim, og þegar börnin eru orðin fjögur, má gera ráð fyrir því, að öll vinna móðurinnar sé bundin við það að annast börn sín, og því ekki ósanngjarnt, að hún njóti sem svarar fullum lífeyri sem þóknunar fyrir það starf.

Langmesti hluti þeirra kvenna, sem mæðralauna mundu njóta, ef ákvæði þessa frv. yrðu samþ., yrðu ekkjur og fráskildar konur, því að langflest óskilgetin börn eru einbirni mæðra sinna.

Ég vil síðan óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.