16.10.1952
Neðri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

62. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var flutt á seinasta þingi nokkuð seint og náði ekki afgreiðslu. Er vonandi, að betur takist til með afgreiðslu þess þegar það er nú flutt í annað sinn snemma þings.

Í grg. með frv. er birt yfirlit yfir þann kostnað, sem það hefur í för með sér fyrir mann að hefja starf sem háseti á togara. Er sýnt fram á, að kostnaður þessi, kaup á nauðsynlegum fatnaði, er ekki undir 1.000 kr. og með endurnýjunar- og viðhaldskostnaði verði samanlagður vinnufatakostnaður fullstarfandi sjómanns aldrei undir 5.000 kr. á ári. Eflaust hafa þessar upplýsingar komið mörgum á óvart. Þó er þess að gæta, að yfirlit þetta var gert fyrir tæpu ári, og var kostnaður þá mjög varlega áætlaður, en síðan hefur, eins og allir vita, frekar aukizt dýrtíðin, heldur en minnkað, og er það álit margra, sem máli þessu eru kunnugir, að árlegur vinnufatakostnaður fullstarfandi togaraháseta fari nú upp í 7 og jafnvel 8 þús. kr. Þann kostnað, sem menn verða fyrir vegna vinnufataslits, ber auðvitað að skoða eins og hvern annan kostnað við öflun tekna, og er sannast að segja undarlegt, að ekki skuli þegar hafa verið tekið tillit til hans sem slíks í lögum. Er hér um að ræða ranglæti, sem vinnandi stéttir, og þá sérstaklega sjómenn, verða að þola.

Með frv. þessu er lagt til, að bætt verði úr því ranglæti og heimilað skuli að draga frá vinnufatakostnað, þegar tekjur eru taldar fram til skatts. Tel ég óþarft að eyða að þessu fleiri orðum, en treysti því, að réttsýni hv. Alþ. endist frv. til fullrar samþykktar að þessu sinni. Legg ég svo til, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og fjhn.