16.10.1952
Neðri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3197)

65. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í lögum frá 1949 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra er gert ráð fyrir tvenns konar gæzluvistarhælum. Annað þeirra sé miðað við þarfir þeirra drykkjusjúklinga, sem ætla má að eigi sér sæmilegar batahorfur, m. ö. o. lækningahæli. Lögin kveða svo á, að ríkissjóður skuli reisa og reka slíkt hæli á sinn kostnað. Er það hæli nú þegar tilbúið að Úlfarsá og í þann veginn að taka til starfa.

Hin tegund hæla er sú, sem miðast við þarfir þeirra drykkjusjúku manna, sem „ætla má að þarfnist vistar og umönnunar í langan tíma“, eins og það er orðað í lögunum, m. ö. o. hæli til langrar dvalar fyrir drykkjusjúklingana. Gert er ráð fyrir, að vilji sveitarfélög reisa slík hæli, skuli þau fá til þess sama stofnstyrk og gildir um sjúkrahús, þ. e. a. s. 2/5 hluta stofnkostnaðar, úr ríkissjóði, en sveitarfélögin sjálf greiða 3/5 stofnkostnaðar og annast reksturinn síðan. Nú virðist það eðlilegt, að ríkið, sem hefur með höndum áfengissöluna og hefur á ári hverju tugmilljóna hagnað af henni, standi sjálft undir stofnun og rekstri slíkra hæla. Í fjárlfrv. fyrir 1953 er gert ráð fyrir, að tekjur ríkisins af áfengissölu verði 53 millj. kr.

Með lögunum frá 1949 var stofnaður sérstakur sjóður, gæzluvistarsjóður, og er svo ákveðið, að á árunum 1950–56 skuli árlega leggja 750 þús. kr. af ágóða áfengisverzlunarinnar í þennan sjóð. Á þremur árum eru því komnar 2 millj. 250 þús. kr. í þennan sjóð. Hann er að mestu ónotaður enn.

Það er efni þessa frv., að ríkissjóður taki að sér að reisa og reka báðar þær tegundir hæla, sem lögin gera ráð fyrir. Virðist það eðlilegt, þar sem ríkið hefur hagnaðinn af áfengissölunni og á því með eðlilegum hætti að sjá um þær ráðstafanir til áfengisvarna, til lækninga og annars, sem af áfengissölunni leiðir. Í öðru lagi er þess að geta, að ríkissjóður hefur þegar í gæzluvistarsjóðnum verulegt handbært fé til þessara framkvæmda og að sá sjóður mun aukast verulega á næstu árum, þar sem 750 þús. kr. renna í hann árlega.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir hér í þinginu, og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.