23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3217)

81. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Þjóðin hefur frá öndverðu byggt afkomu sína á tveim meginatvinnugreinum, landbúnaði og fiskveiðum. Allt fram á síðustu öld var þó landbúnaðurinn grunnmúr hins íslenzka þjóðlífs og fiskveiðar stundaðar sem hjálparatvinnuvegur til þess að færa björg í bú og veita íslenzkum sveitaheimilum afkomuöryggi. Þá var ekki mikill iðnaður við fiskinn í landi, enda var aðalverkunaraðferðin sú, sem kunnugt er, að herða hann. Er hluti af þjóðinni tók að fylkja sér saman við firði og flóa, þar sem hafnarskilyrði voru bezt og fiskimiðin auðugust úti fyrir, sköpuðust ný viðfangsefni. Þá varð að gera framleiðsluna sem fjölbreyttasta og skapa sem mesta afkomumöguleika íbúum þeim, sem þarna höfðu vænzt nýrra lífsskilyrða sér og sínum. Um þessar mundir fór verzlunin smám saman að færast á innlendar hendur, og framtak þjóðarinnar fékk á sig heildarsvip hins íslenzka þjóðernis. Um alllangt skeið var saltfiskverkun stór atvinnugrein þessara sjávarbyggða, en hin síðari ár hefur freðfiskverkun orðið sú merkasta og stærsta og til mestrar uppbyggingar bæjum og kauptúnum, og þó einkum hinum síðar töldu. Til fiskiðnaðar þessa hefur verið mjög vandað, og gefur hann mestar vonir allra núverandi iðngreina um að geta framvegis orðið snar þáttur í að koma hér á fullkomnu efnalegu sjálfstæði. Til þess að þetta megi takast, er brýn nauðsyn á, að fiskiðjuverin eigi aðgang að nægilegu lánsfé, svo að unnt verði að byggja þau upp það sómasamlega, að vinnunýtni og afkastamöguleikar séu sem beztir. Það er því eigi fært fyrir Alþ. Íslendinga að sjá ekki þessum stórvirku verksmiðjum á íslenzkan mælikvarða fyrir eðlilegu stofnfé.

Fiskveiðasjóður hefur verið efldur allmikið hina síðustu tvo áratugi í því skyni að hjálpa bátaútveginum og fiskiðjuverum, auk þess sem fiskimálasjóði var gert kleift að hlynna að iðjuverunum. En dýrtíðin, hækkað verðlag á öllu, sem kaupa þarf, bæði utan lands og innan, hefur reynzt hraðskreiðari öllum þessum ráðstöfunum. Og fiskveiðasjóð skortir fé til að geta komið til móts við áhugaaðila í uppbyggingu hraðfrystihúsa, fiskimjölsverksmiðja, fiskverkunarstöðva o. s. frv. og það svo tilfinnanlega, að l. frá 1946 um hámarkslán, 500 þús. kr., til þessara fyrirtækja hafa svo til aldrei orðið raunhæf, heldur hefur hámarkið samkv. lögunum frá 1943 orðið að nægja, sem var 300 þús. kr., en stofnkostnaður þessara fyrirtækja er, orðinn það hár, að nær engir geta rönd við reist eða þá að óeðlilega verður að ganga á rekstrarfé, sem sízt er of mikið af. Þá er sem kunnugt er stofnlánadeild sjávarútvegsins uppurin, svo að hana tjáir ekki að nefna í þessu sambandi. Hér er um það mikið velferðarmál sjávarþorpa og bæja að ræða, að oltið getur á lífsafkoma og framtíð þeirra, hvort hér verður bót á ráðin.

Frv. það, sem ég flyt hér, er breyt. á l. um fiskveiðasjóð Íslands frá 1943 og 1946. Felur það í sér að hækka í fyrsta lagi lánsheimild fiskveiðasjóðs úr 4 millj. upp í 20 millj. kr., í öðru lagi að hækka lán gegn 1. veðrétti áðurgreindra iðjufyrirtækja úr helmingi virðingarverðs þeirra upp í 2/3, en hámarkslánið hækki þó úr 500 þús. kr. upp í 1 millj., en þetta síðasta ákvæði er eðlilegt og sjálfsagt vegna hækkaðs verðlags og getur orðið stór lyftistöng fyrrgreindum atvinnuvegi til þessara iðjuvera.

Hin síðari ár hefur mjög gengið til þurrðar handbært fé einstaklinga og fyrirtækja. Veldur þar um hækkað verðlag, sem aukið rekstrarfé þarf til. Þessar ástæður gera það því meira aðkallandi, að hið háa Alþ. sjái fyrir hækkuðu lánsfé til þessara alnauðsynlegustu atvinnutækja almennings. Það er því fyllsta von mín, að frv. þetta njóti skilnings og velvildar hv. alþm., svo að það megi verða að lögum nú á þessu þingi. — Að lokinni 1. umr. óska ég svo málinu vísað til 2. umr. og sjútvn.