21.10.1952
Neðri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

83. mál, brúargerðir

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti.

Ég get látið nægja að þessu sinni að vísa til grg. frv. Þar er drepið á þau höfuðatriði, sem færð munu fram til stuðnings þessu máli, og þó að mér komi ekki til hugar, að þegar verði hafizt handa um framkvæmd í þessu máli, hvað byggingu mannvirkisins áhrærir, þá er í alla staði réttmætt og hyggilegt, að brúnni sé komið inn á brúalög, því að vonandi verða framfarir í þessu landi það hraðar, að áður en mjög langir tímar líða verði talið sjálfsagt að koma þessu mannvirki í framkvæmd.

Aðstaðan til sjósóknar á þessum stöðum er þannig, að það mun verða um langa stund helzta afdrep fyrir báta í Þorlákshöfn, en frá kauptúnunum á Stokkseyri og Eyrarbakka, sem eru allfjölmennar byggðir eins og er, mun sjór verða sóttur allmikið að öllum eðlilegum hætti. Og þó að stuttlega sé að því vikið í þessari grg., hvað mikla þýðingu það hefur að stytta leiðina milli þessara staða, kauptúnanna austan Ölfusár og Þorlákshafnar, þá er það þó bert af því litla, sem þar er drepið á, að þarna er um óhemju mikla fjármuni að ræða, sem liggja í flutningunum. Það kostar, ef miðað er við Eyrarbakka, rúmar 100 kr. að flytja tonnið út í Þorlákshöfn, eða frá Þorlákshöfn til Eyrarbakka; það mun vera milli 40 og 50 km langur vegur, ef farið er um Selfoss, en eitthvað rúmir 12 km, ef farið er yfir ána í Óseyrarnesi og beina leið í Þorlákshöfn. Kemur þó vissulega fleira til greina, en aðeins þetta við það að stytta flutningaleiðina austur í héruðin fyrir austan Ölfusá.

Ég vil vænta þess, að hv. Alþingi fallist á þessar óskir okkar Árnesinga. Það er a. m. k. engin hætta á ferðum fyrir þingið, þó að það samþ. málið og komi þessari brú inn á brúalög. Ef einhver hefur ótta af því, að framfarir verði of hraðar úti um byggðir landsins, — það kynni að tefja fyrir, að allir Íslendingar flyttust hér á þessa tanga við Faxaflóa, — þá er unnt að grípa til þeirra úrræða að framkvæma þá ekki þetta mannvirki, svo að hættan fyrir þá er þá ekki mikil.

Brúarstæði er öruggt þarna á ánni, en vitaskuld kostar mannvirkið mikla fjármuni, hvenær sem það verður gert.

Ég vil svo leyfa mér að stinga upp á, að þessu máli verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. samgmn.