08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3239)

83. mál, brúargerðir

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann ætlar sér nú að afgreiða málið. Og það er síður en svo, að ég telji það úr vegi að senda vegamálastjóra slíkt mál til álits. Það, sem kemur til hans kasta undir slíkum kringumstæðum sem þessum, er vitaskuld, hvort brúarstæði á ánni, sem þarna er tilgreint, er hæfilegt eða ekki, hvort það kunni að vera nokkrum vanköntum búið að setja brú þarna á. Og það var ekki langrar stundar verk, eftir að búið var að athuga, hvernig brúarstæðið væri. Það var búið í haust, og brúarstæði er þarna gott. Mér þykir leitt til þess að vita, að hæstv. forseta skuli ekki hafa borizt þetta álit, því að ég veit til þess, að vegamálastjóri er búinn að senda það, reyndar ekki fyrir svo löngu, og ég hef lesið álit vegamálastjóra hér í Alþingi.