30.10.1952
Neðri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3246)

90. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Rang. varpaði fram þeirri spurningu í upphafi máls síns, hvort vettvangur giftra kvenna ætti að vera innan veggja heimilis síns eða utan þess. Þessi spurning er algerlega óskyld því máli, sem hér er um að ræða í þessu frv. Hann sagði, að þessar reglur, sem hér væri gert ráð fyrir, yrðu giftum konum hvatning til þess að vinna utan heimilis. Þetta er alger misskilningur. Það er ekki um slíkt að ræða hér. Það eina, sem hér er um að ræða, er það að hætta að refsa giftum konum fyrir að vinna utan heimilis á þann hátt að láta þær eða eiginmenn þeirra greiða miklu hærri skatt af sínum tekjum heldur en ógift kona mundi greiða. Það er um þetta, sem hér er að ræða, að því er snertir þær konur, sem vinna utan heimilis.

En raunar virðist hv. þm. hafa sumpart gert sér grein fyrir efni þess, sem hann var að segja, því að hann sagði, að kona, sem ynni utan heimilis, ætti að greiða fyrir það sérstaklega. Ég kemst ekki hjá að leggja þann skilning í þetta, að hann telji það eðlilegt, að giftri konu, sem vinni utan heimilis, sé refsað fyrir að vinna utan heimilis með því að greiða hærri skatta af sínum tekjum heldur en ógiftur einstaklingur mundi gera. Þetta verð ég að segja að er mjög undarlegur hugsunarháttur, mjög ósanngjarn og geti með engu móti samrýmzt almennum hugmyndum, sem menn hafa um jafnrétti skattborgaranna, að fara eigi eftir því, hver er þjóðfélagsaðstaða skattborgarans. hversu háan skatt hann greiðir af tekjum sínum.

Ég endurtek, að það, sem hér er um að ræða, að því er varðar giftar konur, sem starfa utan heimilis, er það eitt að afnema það ranglæti, sem felst í gildandi skattalögum gagnvart þeim, að þær skuli greiða meiri skatt af sínum tekjum en þær mundu gera, ef ógiftar væru. Það er algengt, að saman sitji við skrifborð í skrifstofu, sitt hvorum megin við borðið, tvær konur, sem hafa sömu laun, önnur er gift, en hin er ógift. Skattgreiðsla af tekjum giftu konunnar getur hæglega orðið, eins og ég hef þegar nefnt um dæmi og endurtek ekki, 50% hærri en skattgreiðsla af tekjum ógiftu konunnar. Þetta er svo augljóst ranglæti, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. 2. þm. Rang. haldi lengi áfram að verja það.

Hitt er svo allt annað mál, hvort heppilegt sé frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, að gift kona starfi frekar á heimili eða utan heimilis. Ég er sammála því, sem hv. þm. sagði um það, að ég teldi það mjög óheppilegt, ef þjóðfélagshættir breyttust yfirleitt í það horf, að húsmæður hættu að sinna heimilisstörfum og gengju til starfa utan heimilis og keyptu heimilishjálp í staðinn frá óskyldu fólki. Þá þjóðfélagshætti tel ég ekki til bóta, síður en svo. En það er algerlega óskylt því máli, sem hér er um að ræða. Þó að giftum konum, sem vinna utan heimilis, sé sýnt það réttlæti í skattgreiðslu, að þeim sé ekki refsað sérstaklega fyrir það, þá felst, ekki í því nein sérstök hvatning til þess að sækjast eftir vinnu utan heimilis.

Sú spurning, sem hér er um að ræða, er einnig algerlega óskyld spurningunni um það, hvernig bregðast eigi við atvinnuleysi, ef það ber að höndum. Hv. þm. sagði, að það væri ástæðulaust að gera sérstakar ráðstafanir til léttis á skattgreiðslu hjóna, sem bæði ynnu utan heimilis, vegna þess að verið gæti, að í landinu væri atvinnuleysi, og þá væri, að því er mér skildist, meiri ástæða til þess að hrekja gifta konu úr því starfi, sem hún annars er í, ef það mætti verða til þess, að einhver atvinnulaus karlmaður fengi starfið í hennar stað. Ekki mæli ég bót þeim þjóðfélagsháttum, sem veita ekki öllum vinnufúsum höndum skilyrði til þess að afla sér lífsviðurværis, síður en svo. Og hv. þm. veit mjög vel, að það stendur ekki á mér eða mínum skoðanabræðrum að vilja styðja ráðstafanir til þess, að slíkt ástand komi aldrei fyrir, að það sé óhugsandi, að nokkur starfsfús hönd sé til í þjóðfélaginu, sem ekki hafi skilyrði til þess að afla tekna. En hitt er svo annað mál, að ef um almennt atvinnuleysi er að ræða, þá sé ég ekki, að konur eigi frekar að verða fyrir því en karlar. Atvinnuleysi er vandamál, sem leysa þarf algerlega almennt, alveg án tillits til þess, hvort það bitnar frekar á konum eða körlum.

Varðandi dæmi það, sem tekið er í grg. frv. um kvæntan mann, sem hafi 30 þús. kr. árstekjur og greiði 3.629 kr. í tekjuskatt og útsvar, en þurfi að greiða 5.849 kr. hærri skatta og útsvar, ef eiginkona hans tekur að sér vinnu, sem greidd er með 20 þús. kr., sagði hv. þm., að hann vorkenndi ekki þessu heimili, þrátt fyrir það þótt það þurfi að greiða rúmlega fjórðung af tekjum konunnar í skatta og útsvar, vegna þess að það hefði nógu miklar tekjur eftir. Ef hv. þm. á annað borð telur það vera eðlilegt að skattleggja heimili, sem hafa 50 þús. kr. tekjur, með þeirri skattgreiðslu. sem hér er gert ráð fyrir, þá á það auðvitað að gilda jafnt um alla, bæði einstaklinga og hjón. Ég er hér ekki að tala um það, hvað skattstiginn í sjálfu sér skuli vera hár, og ekki heldur um það, hversu stighækkandi hann skuli vera. Það er annað mál, sem hægt er að ræða á sérstökum vettvangi, og raunar koma þessar röksemdir dálítið á óvart, vegna þess að hv. þm. tilheyrir þeim flokki, sem alltaf hefur verið heldur andvígur mikilli hækkun skattstigans. En það spursmál er allt saman óskylt því máli, sem hér er um að ræða. Kjarni málsins hér er sá, að það er óeðlilegt að láta skatta þessa heimilis hækka um 5.849 kr. vegna þess, að eiginkonan vinnur sér inn 20 þús. kr. tekjur, þegar ógift kona mundi ekki þurfa að greiða nema 2.075 kr. af sömu tekjum. Hér er m. ö. o. dæmi um konurnar tvær á skrifstofunni, sem sitja sín hvorum megin við skrifborðið og vinna sér báðar inn 20 þús. kr. tekjur. Önnur er gift. Hið opinbera tekur af hennar tekjum 5.849 kr. Hin er ógift. Hið opinbera tekur af hennar tekjum 2.075 kr. Það er þetta, sem ég kalla misrétti. Það er þetta, sem ég kalla ranglæti. Það er þetta, sem ég segi að sé óverjandi ástand.

Hv. þm. sagði, að með þessu frv. væri ekki verið að vinna fyrir þá, sem illa væru settir eða lágar tekjur hefðu, heldur að því er mér skilst fyrir einhverja hátekjumenn, þar sem bæði hjónin ynnu utan heimilisins og hlytu af því miklar tekjur. Ég vil benda hv. þm. á það, að í frv. er engin till. gerð um lækkun skattstigans. Hann á að haldast vegna þessa frv. óbreyttur frá því, sem er. Stighækkun hans á að vera alveg sú sama. Hér er því alls ekki verið að ívilna neinum hátekjumönnum frá því, sem áður hefur verið, heldur einvörðungu verið að afnema það misrétti, sem hjón nú verða að búa við, miðað við einstaklinga, og giftar konur, sem vinna utan heimilis, verða að búa við, miðað við ógiftar konur.

Það er alger misskilningur, að samþykkt þessa frv. mundi ekki koma til góða tekjulágu fólki. Það er gerð grein fyrir því hér í grg., að lækkun á skatt- og útsvarstekjum barnlausra hjóna með 30 þús. kr. tekjur, sem eru hreinar þurftartekjur, yrði hvorki meira né minna en 1.125 krónur. Og ég trúi því ekki, að hv. 2. þm. Rang. beri á móti því, að fyrir hjón með aðeins 30 þús. kr. tekjur sé skatt- og útsvarslækkun um 1.125 kr. engir smámunir. Það er veruleg hagsbót. Lækkun á 40 þús. kr. tekjum yrði rúmar 2.000 kr., og lækkun á 50 þús. kr. tekjum yrði 3.300 kr. Lækkunin á skattgreiðslu lágu teknanna er tiltölulega langmest. Ívilnunin til handa tekjulága fólkinu er auðvitað minni í krónum, en hún er meiri að tiltölu við tekjuhæðina heldur en til hins fólksins. Þessi röksemd hv. þm. var því ekki heldur á rökum reist.

Ég vildi því vona það, að hv. þm. hugleiddi þetta mál enn betur, en hann hefur þegar gert. Og ég vona, að þeim mun rækilegar sem hann hugleiðir málið, þeim mun fyrr muni hann komast að þeirri niðurstöðu, að hér er um mikið réttlætis- og sanngirnismál að ræða.