30.10.1952
Neðri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3249)

90. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð nú að taka undir það með meðflm. mínum, hv. 9. landsk. þm., að hv. 2. þm. Rang. er dálítið á eftir tímanum. Hin fallegu og hjartnæmu niðurlagsorð hans í ræðunni voru að vísu ekkert á eftir tímanum, þau eru sígild og hafa gott gildi, en áttu hins vegar ekki heima í ræðu um það mál, sem hér er um að ræða. Það voru falleg orð og hefðu getað sómt sér á hvaða samkomu sem væri. En í umr. á hv. Alþ. um þetta frv., sem hér er um að ræða. voru þau hins vegar dálítið utan garna.

Ég skal segja það aftur í tilefni af þessum ummælum, að ég er hv. þm. sammála um það, að það séu heppilegir þjóðfélagshættir, að gift kona vinni á heimili og annist heimilisstörf og uppeldi barna sinna. En hins vegar dettur mér ekki í hug að draga þá ályktun af þessari almennu skoðun, að það þýði, að skylda eigi eiginkonu til að vinna á heimili, ef hugur hennar stefnir til annars. Það er mergurinn málsins í því, sem hér er um að ræða. Það tel ég vera í algeru ósamræmi við nútímahugmyndir um mannréttindi og lýðfrelsi, að það eigi annaðhvort að skylda beint eða óbeint eða a. m. k. torvelda konu mjög að leita sér annarra starfa, ef hugur hennar stendur til þess. En það kalla ég að torvelda henni að gegna köllun sinni, ef henni er refsað fyrir það að leita starfa utan heimilis með sérstökum skattaálögum. Hv. þm. orðaði það að vísu nokkru vægilegar, en áður; hann sagðist ekki vilja láta refsa giftri konu fyrir að vinna utan heimilis, heldur telja eðlilegt að bremsa það, að giftar konur ynnu utan heimilis. á þann hátt, að um þær gilti alveg sérstök stighækkun skattstigans. Þetta kalla ég óeðlilegt, og það er þetta, sem ég er alveg sammála hv. meðflm. mínum um að er að vera dálítið á eftir tímanum.

Það er mikið til í því, sem hv. 9. landsk. þm. sagði áðan, að ýmsar líkur benda til þess, að hin háa hlutfallstala óskilgetinna barna hér á Íslandi standi að miklu leyti í sambandi við þessi mjög svo fráleitu ákvæði skattal., sem nú gilda. Ég vænti, að hv. þm. sé það yfirleitt kunnugt, að Íslendingar eru sú þjóð í Evrópu, sem hefur einna hæsta hlutfallstölu óskilgetinna barna og hefur haft það nokkur undanfarin ár. Meira en fjórðungur allra barna, sem fæðast á Íslandi árlega, er óskilgetinn. Þetta stendur vafalaust ekki í sambandi við það, að hér á landi sé meiri lausung, en annars staðar, og ég efast mjög um, að það standi í sambandi við það, að félagshættir séu á þessu sviði verulega frábrugðnir því, sem tíðkast annars staðar. Ég hygg, að það sé einmitt rétt, sem hv. 9. landsk. þm. benti á, að gildandi skattalöggjöf eigi einhvern þátt í þessu. Þegar það kemur í ljós, að það getur munað hjón með venjulegar tekjur frá allt að 3 til 6–7 þús. kr., hvort þau eru gift eða ógift, er þeim í sjálfu sér ekki láandi, þótt þau hugsi sig um, hvort það borgi sig að gefa þessar þúsundir fyrir það að fara til prests eða fógeta og láta vígja sig til hjónabands. Þetta er auðvitað ekki til fyrirmyndar, og ef siðgæðisáhugi hv. þm. er jafnmikill í raun og veru — sem ég vil nú ekkert draga í efa — eins og kom fram í hinu ágæta niðurlagi ræðu hans, þá finnst mér, að hann ætti einnig að hafa tilfinningu fyrir því, að hér er nokkurt siðleysi á ferðinni, sem vert væri að reyna að koma í veg fyrir að héldi áfram.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki svarað neinu dæmi sínu um hjónin, sem byggju í sömu götunni, þar sem þannig væri ástatt á öðru heimilinu, að bæði hjónin ynnu og hefðu miklar tekjur, en á hinu heimilinu væri ástandið þannig, að þar hefði hvorugt hjónanna tekjur og þau syltu. Satt að segja fannst mér þetta dæmi vera svo einfalt og augljóst, að ég hélt, að þau almennu orð, sem ég sagði um atvinnuleysið, ættu að geta nægt sem svar við því. Það, sem ég vil láta gera í slíku ástandi, er auðvitað að útvega hjónunum, sem svelta, atvinnu, — manninum ef hann óskar að vinna, og báðum, ef bæði óska að vinna. Hv. þm. sagði, að við mundum vera sammála um það að stuðla að því að útrýma atvinnuleysi, og í sambandi við það vil ég undirstrika, að ég vil útrýma atvinnuleysi svo rækilega, að ef bæði hjónin á síðara heimilinu, sem hann nefndi, vilja vinna, þá vil ég gefa þeim kost á því eins og hinum.