30.10.1952
Neðri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (3250)

90. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er nú ef til vill dálítið erfitt að ræða þetta frv. eitt út af fyrir sig, og ég bjóst ekki við því, að um það mundu spinnast svo miklar umr. Það eru fleiri skattamál, sem eru hér til meðferðar fyrir þinginu, og verða þau sjálfsagt öll metin sameiginlega af þeirri n., sem fær þau til meðferðar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, var samþ. ályktun hér á síðasta þingi um skipun mþn. til þess að rannsaka þessi mál öll í heild, og sú n. mun hafa starfað í allt sumar að þessum málum. Mér er ekki kunnugt um að vísu, hvort þess muni skammt að bíða, að hún ljúki endanlega störfum, eða ekki, en ég vildi þó mjög mega vænta þess, að það yrði hægt á þessu þingi að sjá einhvern árangur af hennar starfi. því að vissulega eru skattamálin í því ástandi, að það er ógerlegt að láta það dragast lengur að gera þar á einhverja úrbót.

Þetta frv. er aðeins einn þáttur í því stóra máli, og það er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, ef til vill nokkuð erfitt að ræða þann þátt einan út af fyrir sig, enda skilst mér, að þau ummæli, sem hv. 2. þm. Rang. hefur hér haft um þetta mál, bendi nánast í þá átt, að hann telji ekki út af fyrir sig, að það geti ekki komið til greina að taka upp þá reglu, sem hér er gert ráð fyrir, heldur það, að það þurfi að gera meira og það þurfi að leysa þetta mál almennara og taka tillit til fleiri sjónarmiða, heldur en koma fram í þessu frv. Þannig hef ég a. m. k. skilið orð hans, því að ég get ekki ímyndað mér, að hann sé að meginstefnu til andvígur því sjónarmiði, sem felst í þessu frv., vegna þess að sjónarmiðið, sem þar er um að ræða, er í alla staði mjög eðlilegt. En þó má segja, og um það hefur verið deilt og má færa með því og móti ýmis rök, hvort það á að einskorða það á þann hátt, sem hér er gert, eða hvort það á að útfæra það lengra, þannig að allar giftar konur séu sjálfstæðir skattgreiðendur, sem í raun og veru má segja að sé að mörgu leyti eðlilegt með hliðsjón af því, að svo sem málum er háttað í okkar þjóðfélagi, þá viðurkennum við fullkomið jafnrétti konunnar við karlmanninn, og það á þá að sjálfsögðu að viðurkennast á sama hátt varðandi skattlagningu hennar og tekjuöflun. Af þeim sökum er það augljóst mál, að það atriði, sem felst í þessu frv., er fullkomið réttlætismál. Það eina, sem við getum deilt um, ef það kann að valda deilum, er það, hvort það eigi ekki að útfæra þetta lengra og ákveða, að allar giftar konur, hvort sem þær vinna á heimili eða utan heimilis, skuli taldar sjálfstæðir gjaldþegnar eða ekki.

Hins vegar mun hugsun hv. flm. málsins vera sú, eins og kom fram í framsöguræðu hv. 3. landsk. þm. hér, að þetta mál megi leysa eitt út af fyrir sig, þar sem hér sé aðeins um það að ræða að skapa jafnrétti þessara tveggja skattgreiðenda, en að það sé ekki verið að fara út í það á neinn hátt, hvort skattstigar sem slíkir séu eðlilegir og sanngjarnir eins og þeir eru nú eða ekki. Og ég verð að taka undir þau orð, sem hann hefur látið falla hér um það, að þetta er sanngjarnt og eðlilegt sjónarmið, sem ég tel ekki með nokkru móti fært að standa gegn. Hvort hins vegar þarf að gera aðrar ráðstafanir til þess að tryggja jafnrétti á öðrum sviðum, það er svo aftur annað mál, og það álít ég að þurfi líka að gera, og það geri ég ráð fyrir að allir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, séu einnig sammála um að verði að gera. Ég vil því ákveðið á þessu stigi máls lýsa fylgi mínu við þá hugmynd, sem kemur fram í þessu frv. Hitt er svo aftur annað mál, hvort hægt er að afgreiða það sjálfstætt út af fyrir sig, án þess að taka þá til greina önnur atriði skattalöggjafarinnar einnig, sem þetta grípur að meira og minna leyti inn í. En ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel það með öllu óviðunandi ástand, eins og nú er ríkjandi í þessum málum, að kona skuli þurfa að gjalda þess, hvort hún giftir sig eða ekki. Hún á að hafa rétt til þess áfram að vinna sína vinnu og greiða af henni skatt á sama hátt og hún hefur áður gert, hvort sem hún gengur í hjónaband eða ekki. Það er þannig ástatt með mörg hjón, að þau þurfa alls ekki á því að halda, að konan vinni heima. Það er í ýmsum tilfellum þannig, að það eru ekki alltaf það mörg börn, sem er að hugsa um á heimili, — jafnvel ekkert barn, — og það getur verið algerlega óeðlilegt og óheppilegt fyrir heimilislífið, að konan hafi ekki eitthvað fyrir stafni utan heimilis. Ég tel það ekki á neinn hátt frambærileg rök eða geti verið á nokkurn hátt búið verr að neinum öðrum þjóðfélagsborgurum með því að viðurkenna það sem grundvallarreglu, og ég álít, að það hljóti að vera réttlætis- og sanngirniskrafa kvenna, hvort sem þær vinna utan heimilis eða á heimili, að sú regla verði viðurkennd sem meginregla, að konan eigi að vera sjálfstæður skattgreiðandi og skattleggjast sem slíkur, en tekjur hennar verði ekki lagðar við tekjur mannsins og hún af þeim sökum komist í miklu hærri skattstiga heldur en ella hefði verið, ef þau hefðu verið skattlögð hvort út af fyrir sig.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, eru skattamálin sjálf það víðtækt mál, að það er ekki hægt að ræða þau í sambandi við þetta, enda er hér um einstakt atriði að ræða. Ég vænti þess hins vegar, að þess verði skammt að bíða, að hv. Alþ. geti gert viðunandi úrbætur ekki aðeins á þessu sviði, heldur á skattalöggjöfinni yfirleitt, sem ég álít að sé, eins og nú standa sakir, í fullkomnu ófremdarástandi.