31.10.1952
Neðri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (3259)

108. mál, endurgreiðsla tolla og skatta af efni til skipa

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að segja aðeins örfá orð í tilefni af þessu frv., sem hér er til umr. Þetta mál hefur verið í athugun í Sjálfstfl. nú undanfarnar vikur og raunar oft áður verið á það minnzt vegna þeirrar brýnu nauðsynjar, sem fyrir því er, að breytingar verði gerðar frá því skipulagi, sem nú ríkir í þessum efnum. Ég treysti mér þó ekki til að segja um það á þessu stígi málsins, hvort sú leið, sem bent er á í þessu frv., mundi vera sú æskilegasta, og dreg ég það raunar nokkuð í efa. Aðalatriði málsins er, að það verður á engan hátt stutt skynsamlegum rökum, að ef bátur er fluttur til landsins fullsmíðaður, þ. e. a. s., ef smíðalaun bátsins hafa fallið til erlendra manna, þá skuli allur efniviður til bátsins raunverulega vera skattfrjáls, eins og þetta er í framkvæmdinni. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að verðlauna þá aðferð, að smíðalaunin falli öll utan við íslenzka hagsmuni. En ef báturinn er smíðaður á Íslandi, þar sem fjöldi manns kann vel til þeirra verka og þarf á þessari atvinnu að halda, þá skuli, eins og hv. flm. skýra frá í sínu frv., vera teknir tugir þúsunda af efni í bátinn í tollum í ríkissjóðinn. Ég vil þess vegna gjarnan fyrir mitt leyti leggja þessu máli í einu eða öðru formi lið, því að það er ekki hægt að mæla í gegn annars vegar þörfinni og hins vegar því, að þetta er leiðrétting á órökréttri hugsun. Ég tel hins vegar ekki hægt að aðhyllast þá uppástungu, sem hv. flm. varpaði fram, að þetta mætti jafna með því að tolla innflutta báta. Það er rétt, að það leiðréttir rökrétta hugsun í þessum efnum, en hins vegar gerir það náttúrlega hag hins aðilans, sem hér á hlut að máli sjávarútvegsins, ekki nægjanlega hátt undir höfði. Þá vil ég enn fremur leyfa mér þegar á þessu stigi málsins að benda á, að ef menn á annað borð geta aðhyllzt þessa hugsun, hvort það þætti þá ekki, ef hnigið er að skynsamlegum úrræðum í þessum efnum, eðlilegri og hagkvæmari leið til úrbóta, að í stað þess, eins og frv. fer fram á, að tollar skuli endurgreiddir, þá sé ákveðið, að allir tollar skuli eins og nú renna í ríkissjóðinn, en ríkissjóður aftur greiða í verðlaun svipaða upphæð á hvern bát, sem smíðaður er og þá mundi væntanlega finnast sæmilega réttlátur mælikvarði fyrir með því að ákveða gjaldið visst á smálest. Ég varpa þessu bara fram til athugunar.