31.10.1952
Neðri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (3260)

108. mál, endurgreiðsla tolla og skatta af efni til skipa

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil mjög þakka hæstv. atvmrh. fyrir hans undirtektir undir þetta mál. Ég held það verði ekki hægt að deila um það, að þetta frv. fer fram á leiðréttingu á auðsæju ranglæti, sem hefur bitnað þunglega á íslenzku atvinnulífi, og því megum við sízt við eins og sakir standa nú. Ég tel, að það sé ekki nema sjálfsagður hlutur að vera til viðtals um hvers konar breytingar á þessu frv. og fara hverja þá leið, sem hægust þykir til þess að fá þetta ranglæti leiðrétt. Okkur flm. er ekkert sérstakt kappsmál, að það sé endilega nákvæmlega í því formi sem við leggjum til. Það, sem er aðalatriðið fyrir okkur, er að fá þetta ranglæti leiðrétt. Og við teljum raunar eðlilegast, að tollarnir, sem ríkisstj. tekur af þessari starfsemi, sem á að fara fram hér í landinu, en ekki erlendis, verði endurgreiddir, þegar skip hefur verið smíðað í íslenzkri skipasmíðastöð eða þegar unnið hefur verið úr hráefninu.

Það er ekki auðvelt að koma því við að láta ekki koma til þessarar tollgreiðslu, því að þegar efniskaupandinn kaupir efnið, er ekki gott að vita, hvort hann notar það endilega til skipasmíðaiðnaðarins eða til einhverra annarra hluta, t. d. að því er timbrið snertir. Og skattaákvæðin í tollskránni eru a. m. k. á 57 stöðum snertandi efni til skipasmíða, að því er mér hefur tjáð hinn glöggi og samvizkusami skipaverkfræðingur Bárður G. Tómasson. Það er því varla framkvæmanlegt öðruvísi, en sem endurgreiðsla, þegar skip hefur verið smíðað. En það er sennilega vel framkvæmanlegt, að því er a. m. k. fiskibáta snertir, að ákveða það með vissri upphæð á smálest, því að slík skip eru smíðuð eftir nákvæmum skipasmíðareglum, og það fer nákvæmlega sama efnið í rúmlest hvers báts, vegna þess að þetta ákvarðast alveg af skipasmíðareglunum, hversu efnismikill bátur skuli vera, og það eru sömu reglur sem gilda um styrkleika báta frá 20 til 80 lestir, hefur hann einnig tjáð mér. — Ég skal því ekki ræða frekar um þetta mál, en aðeins láta það í ljós, að við flm. erum fúslega til viðræðu um hverjar þær breytingar, sem til mála kæmi að gera á þessu frv., að því tilskildu að ,að því sé stefnt að ná sem allra bezt höfuðtilganginum, að létta af því ranglæti, sem nú ríkir í þessu efni.