07.11.1952
Neðri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (3265)

120. mál, vinna unglinga og námsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við þá hugsun, sem felst í þessu frv., og tilgang þess. Ég tel hér vera um að ræða merkilegt mál, sem brýna nauðsyn beri til að nái fram að ganga í einhverju formi. Ég hafði í undirbúningi frv. um sama efni og þetta. Ég hafði að vísu hugsað mér svolítið aðra framkvæmd á málinu og skal víkja fáeinum orðum að því á eftir.

Það er auðvitað ranglátt í hæsta máta að láta atvinnuleysi og efnaskort valda því, að ungur maður, sem hefur námshæfileika og námslöngun, geti ekki stundað það nám, sem hugur hans stendur til. Það er skylda þjóðfélagsins — um það er ég alveg sammála hv. flm. — að tryggja, að slíkt gerist ekki. En þetta er ekki aðeins efnahagslegt vandamál þess unglings, sem hér á hlut að máli. Þjóðfélagið sjálft hefur einnig mikilla hagsmuna að gæta af því, að unglingar, sem vilja vinna og þurfa að vinna til þess að sjá fyrir sér, eigi þess kost. Þjóðfélagið sjálft hefur mikla hagsmuni af því, að unglingar gangi ekki iðjulausir þann tíma, sem þeir þurfa ekki að vera við skólanám. Og þetta mál er ekki einvörðungu fjárhagsatriði fyrir þá æskumenn, sem hér eiga hlut að máli, og fyrir hið opinbera, heldur einnig stórkostlegt uppeldisatriði. Það hefur verið einn af meginkostunum á uppeldi íslenzks æskulýðs, að hann hefur ætíð verið vinnandi jafnframt því, sem hann hefur verið nemandi. Það er yfirleitt einkenni á íslenzkum menntamönnum, að þegar þeir hafa lokið námsbraut sinni, hversu löng sem hún annars kann að hafa orðið, og ganga til þeirra starfa, sem þjóðfélagið síðar felur þeim, þá eru þeir ekki einungis skólamenntaðir menn, heldur hafa þeir einnig gengið til þeirra sömu starfa sem vinnandi stéttir almennt ganga til, kynnzt þessum stéttum í starfi sínu og þeim störfum, sem þær vinna, og þeim verkefnum, sem þar er við að etja. Þetta hefur gefið menntun þessara manna mjög aukið gildi og gert þá hæfari til þess að sinna skyldum sínum í þágu þjóðfélagsins, heldur en ella mundi hafa verið. Ef verulegt framhald verður á því ástandi, sem ríkt hefur nú undanfarin ár, að nemendur í skólum, hvort sem er í unglingaskólum, menntaskólum eða háskóla, eigi ekki kost á að vinna þann tíma, sem þeir þurfa ekki að stunda nám, þá hefur það ekki einungis efnahagslegar afleiðingar, sem kunna að torvelda þeim námið og tefja framkvæmdir, heldur hefur það einnig uppeldislega séð mjög óheppileg áhrif, sem gæta mun síðar í störfum þessara manna, vegna þess að hætt er við, að þeir losni úr þeim lífrænu tengslum við atvinnulíf og starf þjóðarinnar, sem svo mjög eru nauðsynleg og sjálfsögð. Það er þess vegna einnig, sem ég tel mál þetta vera sérstaklega mikilvægt og í raun og veru alls ekki mál þeirra unglinga einna, sem nú á þessum árum eiga hlut að máli, heldur í raun og veru hagsmunamál þjóðfélagsins í heild.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að í frv. um atvinnustofnun ríkisins, sem þm. Alþfl. í þessari deild hafa tvíflutt og nú er flutt af þm. Alþfl. í efri deild, er einmitt að þessu vandamáli víkið. En eitt af þeim verkefnum, sem atvinnustofnuninni er ætlað, er einmitt að tryggja unglingum, einkum á aldrinum 16–20 ára, atvinnu við þeirra hæfi. Í 8. gr. frv. um atvinnustofnun segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnustofnun ríkisins skal leitast við að veita unglingum 16–20 ára, sem ekki hafa atvinnu, kost á viðfangsefnum með þeim hætti, sem ákveðið er í lögum þessum. Þegar tala þeirra unglinga á þessum aldri, sem atvinnustofnunin getur ekki vísað á atvinnu, er óveruleg að dómi stofnunarinnar, skal hún greiða fyrir því, að þeir geti stundað nám við sitt hæfi. Þegar um verulegt atvinnuleysi unglinga á aldrinum 16–20 ára er að ræða, skal atvinnustofnunin skipuleggja sérstakar vinnustöðvar eða vinnuskóla fyrir þá eða stofna til sérstakra opinberra framkvæmda, sem ella mundi ekki vera varið fé til í nánustu framtíð. Vinnutími við slíka vinnu skal ekki fara fram úr 6 stundum á sólarhring, en ef hægt er að koma því við án of mikils kostnaðar, skal henni vera samfara nám, bóklegt eða verklegt, og kennsla í íþróttum.“

Ég hygg, að hér sé drepið á þá framtíðarlausn, sem æskilegust væri í þessu máli, þ. e., að komið væri á fót atvinnustofnun ríkisins, sem m. a. skuli hafa skipulagða unglingavinnu sem eitt af hlutverkum sínum. Þar eð frv. þetta hefur verið flutt þing eftir þing án þess að hafa fengið verulegar undirtektir eða nógu góðar undirtektir af hálfu þingmeirihlutans, þannig að vafasamt er að gera sér von um, að það muni ná fram að ganga t. d. nú á þessu þingi, þá hafði ég hugsað mér að freista þess að koma fram öðru í sambandi við þetta mál, þ. e. a. s. unglingavinnuna eða skilyrði unglinga, einkum skólanemenda, til þess að vinna fyrir sér, og það var að freista þess að fá endurreistar vinnumiðlunarskrifstofurnar, sem lagðar voru niður á s. l. ári, vegna þess að núverandi stjórnarmeirihluti samþykkti hér á hv. Alþ. að fella niður allan ríkisstyrk til þessara stofnana. En svo sem kunnugt er, var það ein af helztu sparnaðarráðstöfunum hæstv. ríkisstj. á síðasta þingi að fella niður allan opinberan fjárstyrk til starfsemi vinnumiðlunarskrifstofanna, með þeim árangri, að vinnumiðlunarskrifstofurnar, sem styrktar voru af ríkinu, hafa verið lagðar niður í öllum kaupstöðum, þar sem þær áður voru starfræktar, nema í Hafnarfirði. Hafnarfjörður er eini kaupstaðurinn, sem haldið hefur áfram að starfrækja sína vinnumiðlunarskrifstofu, jafnvel þótt kaupstaðurinn væri sviptur öllum ríkisstyrk til hennar. Hér í Reykjavík starfrækir Reykjavíkurbær og vinnumiðlunarskrifstofu.

Mér hefði fundizt eðlilegast, að það væri einmitt verkefni vinnumiðlunarskrifstofa að sjá unglingum fyrir atvinnu og að vinnumiðlunarskrifstofurnar væru endurreistar og þeim gert að skyldu að sjá unglingum fyrir vinnu. Í frv. því, sem hér er flutt, er þessi skylda hins vegar lögð á fjárhagsráð. Ég skal ekki andmæla því, að það sé gert, ef hv. n. eða meiri hl. Alþ. væri á þeirri skoðun, að það væri heppilegra, en ég læt þess einungis getið, að það, sem ég hafði hugsað mér í þessu efni, var, að vinnumiðlunarskrifstofurnar væru alls staðar endurreistar og þeim yrði gert að skyldu að tryggja unglingum og þó einkum námsmönnum atvinnu við sitt hæfi, þar eð ég teldi þær hafa betri aðstöðu til þess sökum kunnugleika á vinnumarkaðnum. Það væri í fyllsta samræmi við verkefni þeirra að hafa þetta með höndum, en hins vegar dálítið fjarskylt verkefni fjárhagsráðs að veita slíka fyrirgreiðslu. En þó að ég hafi talið heppilegra að fara þarna svolítið aðra leið, en lögð er til í þessu frv., þá breytir það engu um það, að ég er þeirri grundvallarhugsun, sem í frv. felst, og tilgangi þess algerlega sammála og mun því ekki flytja frv. að svo stöddu máli um hitt efnið, a. m. k. ekki fyrr en séð er, hvernig nefnd kann að taka þessu frv. En ég vildi beina því til hv. n. og taka mjög undir tilmæli hv. flm. um, að hún íhugi þetta mál rækilega. Beini ég því jafnframt til hennar, hvort hún vildi ekki hugleiða, hvort það væri ekki fært að fara þá leið, sem ég hef hér gert að umtalsefni, að endurreisa vinnumiðlunarskrifstofurnar og láta þær fá þetta verkefni, sem ég tel alveg nauðsynlegt að einhver opinber aðili hafi með höndum, þannig að því ástandi ljúki, að skólanemendur gangi sumar eftir sumar atvinnulausir án þess að geta unnið sér inn nauðsynlegt fé til vetrarnámsins og verði um leið fyrir þeim óhollu áhrifum að þurfa að slæpast, að þurfa að ganga án starfs í stað þess að komast í þau lífrænu tengsl við atvinnulífið og þjóðlífið í heild, sem í því felast að stunda vinnu jafnhliða námi.