13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (3296)

142. mál, kaup á togara og togveiðibát fyrir Ísafjörð og sjávarþorpin við Ísafjarðardjúp

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir það, sem hv. flm., þm. N-Ísf., sagði um þetta mál, þegar hann mælti fyrir því núna rétt áðan. Það er vissulega satt, að togaraágengnin á miðin úti fyrir Vestfjörðum hefur gengið nærri þessum miðum og er vafalaust ein meginorsök þess, að aflabrestur hefur verið í hinum vestfirzku veiðistöðvum árum saman. Það er því ómótmælanlegt, að þess er full þörf, að ríkisvaldið veiti aðstoð til styrktar atvinnulífinu í þessum byggðarlögum. Það, sem menn gæti þá greint á um í þessu efni, væri það eitt, á hvern hátt sé heppilegast, að þessi aðstoð ríkisvaldsins sé veitt. Það hagar þannig til nú á Ísafirði, að vegna aflabrests undanfarinna ára er vélbátaútgerðin í Ísafjarðarkaupstað í stórkostlegum fjárhagslegum vandræðum, og getur víst engan undrað það, þegar þess er gætt, að þessi útgerð hefur orðið fyrir hinum tilfinnanlegustu skakkaföllum vegna aflabrests á síldveiðum, og þar við hefur svo bætzt aflabrestur á þorskveiðum. Afleiðingin af þessu er sú, að nú hafa 5 vélskip á Ísafirði verið auglýst til sölu á uppboði.

Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að sú aðstoð, sem sé mest aðkallandi fyrir atvinnulífið í Ísafjarðarkaupstað af hendi ríkisins, sé að afstýra sölu á vélbátaflotanum úr bænum, það sé algerlega númer eitt. Það eru fjögur 80 tonna skip, sem eru auglýst til uppboðs, og auk þess hefur Útvegsbanki Íslands auglýst 40 tonna skip þaðan til uppboðs, og öll þessi uppboð eiga að fara fram í n. k. desembermánuði. Þetta tel ég vera það fyrsta, sem gera þarf. Þá teldi ég það eðlilegt, að það næsta, sem gert væri af hendi ríkisvaldsins til eflingar atvinnulífinu þarna, væri að stuðla að því, að þeir togarar, sem gerðir eru út í bænum, gerðu meira að því, en þeir hafa gert hingað til að leggja afla sinn þar á land til verkunar, annaðhvort sem hraðfrystan fisk ellegar sem saltfisk. Hvort tveggja mundi geta orðið stórkostleg atvinnubót, þó að togararnir gerðu það ekki nema í einni og einni veiðiför að leggja aflann á land til verkunar. En eins og hv. frsm. tók hér fram áðan, þá hafa togararnir því miður ekki séð sér fært að leggja aflann þar á land að staðaldri, heldur siglt með hann mikið til, til Englands og til Danmerkur. Þó skal það játað, að á s. l. sumri var lagt nokkurt aflamagn af saltfiski á land af togarafélaginu Ísfirðingi, en hins vegar þótti ekki ráðlegt að verka þann saltfisk, og verður hann fluttur út sem blautfiskur, blautur saltfiskur, en ekki þurrkaður, og hefur af þessu orðið nokkuð veruleg atvinnubót í bæjarfélaginu, en þó hefði hún orðið stórkostlega miklu meiri, ef hægt hefði verið að þurrka þennan fisk og selja hann út fullverkaðan.

Ég held, að það hljóti að vera, að þessir útgerðarhættir, að fiskur frá Íslandi er aðallega seldur út sem óunnið hráefni, sem ísfiskur til Englands eða Þýzkalands eða að hinu leytinu látinn fara algerlega fram hjá íslenzkum höfnum og fluttur til Danmerkur og seldur þar sem óverkaður saltfiskur, hljóti að stafa af því, að togarafélögin sjái sig ekki hafa fjárhagslega aðstöðu til að leggja aflann á land til verkunar hér innanlands. En það mundi tvímælalaust vera þess virði, að einhver hjálpandi hönd væri þá rétt togaraútgerðinni, til þess að þeir gætu breytt útgerðarháttum sínum í það horf, að aflinn yrði að miklu meira leyti, en nú er, verkaður hér innanlands. Um það hafa togaraútgerðarmenn nú nýskeð sent erindi til hæstv. ríkisstj., en enn þá er ekki vitað, hvaða undirtektir þau erindi togaraútgerðarmanna fá hjá ríkisstj.

Þetta tvennt tel ég að sé í fyrstu röð þeirra aðgerða, sem hæstv. ríkisstj. þyrfti að gera til aðstoðar við atvinnulífið í Ísafjarðarkaupstað. Þá er það það þriðja, sem mjög æskilegt væri að hæstv. ríkisstj. gerði, að veita bæjarfélagi og nærliggjandi sveitarfélögum, sem öll geta notið atvinnuaukningar af togara, sem væri heimilisfastur á Ísafirði, aðstoð til að fá þar togara í viðbót. Ég skal ekki mæla gegn því. Það væri mjög æskilegt, og stjórn togarafélagsins Ísfirðings, sem ég er þátttakandi í, hefur mælzt til flutnings þessa frv. við hv. þm. N-Ísf. En ef slíkt skip, þriðji togarinn á Ísafjörð, ætti að koma að nokkru verulegu gagni til atvinnuaukningar í Bolungavík, Súðavík og Hnífsdal, þá yrði það skip að leggja afla sinn á land til verkunar á Ísafirði, en ekki sigla með hann til Esbjerg eða til Englands eða Þýzkalands, því ef þriðja skip félagsins gerði það, eins og hin hafa að langmestu leyti gert, þá væri að því einhver atvinnubót fyrir Ísafjörð, en engin fyrir kauptúnin þar í grennd. Og það er það, sem Súðvíkingum, Hnífsdælingum og Bolvíkingum svíður nokkuð, að þegar seinni nýsköpunartogarinn var látinn fara til Ísafjarðar, til togarafélagsins Ísfirðings, þá var sett skilyrði um það, að þetta fyrirtæki yrði einnig til atvinnuaukningar fyrir kauptúnin, en um það þykjast þau greypilega hafa verið svikin, vegna þess að togarinn hefur ekki lagt afla á land á Ísafirði í hraðfrystihúsin nema að mjög svo hverfandi litlu leyti. Slíkri ábyrgð þyrfti þá bókstaflega að fylgja sú skylda, ef Hólshreppur, Eyrarhreppur og Súðavíkurhreppur ættu að verða hluttakendur að þessu nýja skipi í einhvers konar félagsskap.

Ég hef með þessum orðum gert grein fyrir afstöðu minni til frv. Ég tel hina brýnustu þörf á, að ríkið veiti aðstoð til þess að efla atvinnulífið á Ísafirði og í nærliggjandi sveitarfélögum. Það væri góð hjálp, að það væri gert með því að ábyrgjast 90% af andvirði togara, sem hefði aðalaðsetur á Ísafirði og væri t. d. eign togarafélagsins Ísfirðings h/f, en þá yrði að vera tryggt að rekstri hans væri hagað þannig, að hann yrði til atvinnuaukningar í kauptúnunum kringum Ísafjörð. En þó er það eitt, sem ég vil benda hér á og veldur því, að ég er ekki eins brennandi í áhuganum fyrir þessu eins og ég var, þegar annar togarinn var útvegaður til Ísafjarðar. Og það er þetta: Það er rétt, sem segir hér í grg. hjá hv. flm., að fjöldi vestfirzkra sjómanna hefur orðið að leita sér atvinnu í öðrum landshlutum, af því að hlutir hafa gerzt svo rýrir hjá vélbátaútgerðinni á Ísafirði og þar í grennd, að menn hafa ekki getað framfleytt lífinu á því og leitað til verstöðva, þar sem aflamagnið hefur verið meira. Þetta þýðir það, að ísfirzkri sjómannastétt hefur á undanförnum árum fækkað stórlega. Við höfum meira að segja orðið að gjalda afhroð í hópi okkar ötulu skipstjóra, sem hafa heldur leitað núna til þeirra verstöðva, þar sem aflabrögðin hafa verið betri árum saman. Af þessu leiðir það, að ég er ekki alveg óttalaus um það, ef þriðji togarinn væri kominn á Ísafjörð, þó að hann fengi að einhverju leyti sjómenn, ekki aðeins úr bænum, heldur úr nærliggjandi kauptúnum, að þá væri hætt við, að vélbátaflotann skorti sjómenn. En ég tel, að Ísafjarðarbær verði að leggja mikið upp úr því, að vélbátaútgerðin leggist ekki niður. Það er viðurkennt af öllum, sem vit hafa á því, að hraðfrystur fiskur er naumast fyrsta flokks vara frá hraðfrystihúsunum, nema nokkur verulegur hluti af fiskmagninu sé bátafiskur. Ef eingöngu er togarafiskur í hraðfrystihúsunum, þá verður að minnsta kosti að gæta mjög allrar vandvirkni um verkun hans í þessum stóru skipum, til þess að ekki verði úr því 2. og 3. flokks vara. Viljum við halda okkar hraðfrysta fiski í fullu áliti, þá verðum við að leggja kapp á það, að verulegs hluta hans sé aflað af vélbátum, sem stunda línuveiðar. Ég bendi á þennan agnúa, af því að alls verður að gæta í uppbyggingu atvinnulífsins meðfram strandlengju landsins. Og þó að það sé ágætt að ráðast í stórt og fá mikilvirk atvinnutæki, þá megum við þó ekki kippa fótunum undan þeim stoðum atvinnulífsins, sem mjög vel hafa dugað til þessa og ekki mega bresta. Vestfirðingar verða áreiðanlega að reyna að heyja sína lífsbaráttu þannig, að þeir hafi sem fjölbreyttastan veiðiflota, að þeir hafi smábáta, opna smábáta, þilbáta, að þeir hafi 40 tonna báta og 80 tonna báta, sem séu þar með jafnframt hæfir sem síldveiðiskip, og svo í þriðja lagi togara. Og ég trúi því ekki, að það takist ekki, þrátt fyrir nokkurra ára aflabrest, að fleyta fram lífinu í þessum byggðarlögum, ef kostað er kapps um, að allar þessar tegundir skipa séu nægilega fyrir hendi í bæjum og kauptúnunum þar vestur frá. En hitt tel ég jafnviðsjárvert, ef stórreksturinn væri látinn kippa fótunum undan rekstri smærri vélbátaútgerðarinnar eða torvelda hana.

Þá er það síðara atriðið í frv., um það, að ábyrgzt verði af hendi ríkisins 90% af verði 200 tonna vélbáts fyrir Bolungavík. Ég mæli eindregið með því, að slíkt verði gert, og tel það mikið nauðsynjamál fyrir atvinnulífið í Bolungavík, að þessi ábyrgð fengist. Ég veit, að það er samstilltur hugur í Bolvíkingum um að afla sér slíks skips í veiðiflotann þar. Á s. l. ári urðu Bolvíkingar fyrir því áfalli, að einn af bátum þeirra Bolvíkinganna fórst, og þeir hafa ekki fengið að bæta það skarð enn þá. Þar hefur hv. fjárhagsráð staðið í vegi, alveg óneitanlega, svo að útgerðarmaður þar á staðnum, sem hafði nægilegan fjárhagslegan styrk til að kaupa bát, hefur ekki fengið nauðsynleg leyfi fyrir fjárhagsráði og nú síðast ekki yfirfærsluleyfi hjá Landsbanka Íslands til þess að kaupa slíkan bát í staðinn. En þó að fjárhagsráð verði nú sigrað í þeirri glímu, þá er fyllsta þörf á því, að Bolvíkingar fái eitt 200 tonna skip í plássið, því að að öðrum kosti er atvinnulífinu þar ekki fyllilega borgið, en aðstaða er þar ekki, eins og hv. frsm. gat um, til afgreiðslu á togara.

Ég tel, að ég geti því mælt með báðum efnisliðum frv., en bendi þeirri hv. n., sem fjallar um þetta mál, á, að jafnframt því sem þessu máli sé veittur vinsamlegur stuðningur af hv. Alþingi, þá þurfi fyrst og fremst og það sé mest aðkallandi að rétta Ísfirðingum hjálparhönd um það, að vélbátaflotinn sé ekki tættur út úr höndunum á þeim á þessu hausti og fargað úr bænum, þegar skipakostur er ekki svo mikill þar, að af neinu megi missa. Þessi þriðji togari verður ekki kominn á næstunni, þó að frv. yrði samþ. Og ég skal segja það að síðustu í þessari umr., að ég verð að harma það, að það virðist vera stefna bankanna nú að selja í burtu og ganga miskunnarlaust að útgerðarmönnum í þeim verstöðvum, þar sem aflinn hefur brugðizt árum saman, og knýja á með alveg sérkennilegum vinnubrögðum um sölu bátanna til þeirra staða, þar sem betur aflast. Þar þykjast bankarnir þurfa að hafa minni áhyggjur af rekstri þeirra. Og þá er það einhliða bankasjónarmið látið ráða, og þeir knýja þannig á um sölu á bátum frá þeim stöðum, sem standa höllustum fæti vegna aflabrestsins, burt þaðan á þá staði, þar sem atvinnulífið stendur styrkustum fótum, vegna þess að afli hefur ekki brugðizt. Ég tel, að atvinnulífið víða um land gæti orðið fyrir stórkostlegum áföllum af þessari blindu og skammsýnu bankapólitík, ef hæstv. ríkisstj. veitir ekki byggðarlögunum, sem nú eru knúin til að selja bátana í burtu, aðstoð.

Að því er snertir búning þessa frv., hefði ég að síðustu viljað segja það, að ég hefði talið eðlilegast, að ríkisstj. væri heimilt að ábyrgjast fyrir Ísafjarðarkaupstað o. s. frv. — Í því formi er frv., sem hv. þm. S-Þ. flytur um að ábyrgjast kaup á togara fyrir Húsavíkurkaupstað. Og flest þau frv., sem hafa verið flutt um ríkisábyrgð í slíkum tilgangi og þetta frv., hafa held ég verið ríkisábyrgðarheimildir til handa viðkomandi bæjarfélögum eða sveitarfélögum. Hér er lagt til, að ábyrgðin verði veitt hlutafélagi, sem búsett er á Ísafirði og gerir þar út tvo togara, en Ísafjarðarkaupstaður er að vísu hluthafi í því félagi. Ég hefði talið, að þessi ábyrgð væri með mjög eðlilegum hætti, ef hún yrði veitt á annað borð, veitt Ísafjarðarkaupstað. En það tel ég þó vera aukaatriði í málinu og hef með þessum orðum, sem ég hef mælt, gert grein fyrir afstöðu minni til málsins og þó rætt nokkuð um þörf atvinnulífsins á Ísafirði að öðru leyti og í nágrenninu þar í sambandi við málið, áður en það fer til n.