28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3329)

172. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. til l. um landshöfn í Höfn í Hornafirði var vísað til sjútvn. þessarar hv. deildar. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl n. hefur gefið út nál. á þskj. 557, þar sem hann mælir með samþykkt frv. Minni hl., hv. þm. Borgf. og ég, hefur einnig gefið út nál. á þskj. 583, þar sem við mælum gegn því, að frv. verði samþ.

Það, sem minni hl. sjútvn. vill sérstaklega benda á, er umsögn hv. vitamálastjóra um frv., sem prentuð er með nál. meiri hl. á þskj. 557. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. til l. um landshöfn í Höfn í Hornafirði hefur áður verið borið fram, en ekki náð fram að ganga. Það er rétt, sem segir í grg. með frv., að þessi staður er sá eini, sem kemur til greina á allstóru svæði að gera höfn á, og að í grennd við þennan stað eru fiskimið góð. Staðurinn hefur því mikla þýðingu sem verstöð fyrir vélbátaflota, bæði heimabáta og aðkomuskip. Það hefur hins vegar háð útgerð frá þessum stað, að afgreiðsluskilyrði í höfninni hafa ekki verið góð og móttökuskilyrði fyrir afla í landi hafa ekki verið fullnægjandi, t. d. hefur til skamms tíma ekki verið hægt að leggja fisk þar á land til frystingar. Nokkuð hefur verið úr þessu bætt á síðustu árum. Bátaafgreiðslan, sem áður fyrr var í eyjum, bæði Mikley og Álaugarey, hefur færzt inn í Höfn. Bryggjupláss þar hefur verið bætt, renna grafin frá Standey inn að Höfn, fyrirstöðugarðar byggðir frá Heppu í Standey og vestan við hafnarsvæðið fyrir innan Höfn. Frystihús hefur einnig verið reist, vatnsveita lögð og fleira gert til aukins hagræðis, svo sem innsiglingarljós á Suðurfjörur og við ósinn, sem komið var fyrir s. l. sumar.

Það, sem nú liggur fyrir að gera í hafnarmálum Hafnarkauptúns, er að grafa nýjan skipgengan skurð úr aðalálnum inn að Höfn og síðar að stækka og auka bryggjuplássið. Áætlun hefur nýlega verið gerð um skurðinn, og er áætlað, að hann muni kosta um 1 millj. kr., og þó e. t. v. eitthvað minna, ef heppilegt sanddæluskip fengist. Er þá reiknað með 4 m dýpi í skurðinum.

Um það, hvort heppilegra sé eða réttara að breyta nú til um rekstur hafnarinnar, þannig að ríkið taki eitt við framkvæmdum og höfnin verði gerð að landshöfn, eða sami háttur verði hafður á og áður, að hafnarn. staðarins annist þetta, skal ég ekki dæma. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvaða ákvörðun hæstv. Alþ. tekur um það mál, en ég vil þó leyfa mér að benda á nokkur atriði til íhugunar, áður en sú ákvörðun verður tekin:

1) Ef Höfn í Hornafirði verður gerð að landshöfn, má gera ráð fyrir, að þó nokkrar fleiri hafnir geri með engu minni rétti kröfu um það sama.

2) Ríkissjóður á nú í byggingu tvær landshafnir, sem erfiðlega hefur gengið að útvega fé til. Ætla má, að ef landshöfnum fjölgaði, yrði það ekki til þess að flýta fyrir hafnargerð á þessum stöðum, heldur þvert á móti.

3) Í frv. því, sem hér liggur fyrir um landshöfn, er gert ráð fyrir því, að rekstur hafnarinnar standi undir 2/3 af byggingarkostnaði, eða 662/3%, en samkvæmt núgildandi l., sem höfnin býr við nú, er aðeins gert ráð fyrir, að höfnin sjálf standi undir 60% af byggingarkostnaði, þannig að hlutur hafnarinnar verður ekki betri, heldur lakari, þó að litlu muni, en áður var, ef breytingin verður gerð.

4) Það er sjálfsagt erfitt fyrir lítið hreppsfélag að standa í þeim stórræðum, sem hafnargerð óneitanlega er, auk annarra aðkallandi hluta. Skuldir hafnarinnar vegna hafnarmannvirkja, sem þegar hafa verið gerð, munu nú nema um ½ millj. kr. rúml. eftir þeim gögnum, sem ég hef í höndum. Viðbótarlán vegna þeirra framkvæmda, sem næst liggja fram undan, þurfa væntanlega að verða samkvæmt ofanrituðu um 600 þús. kr., og vildi ég mega ætla, að með aukinni útgerð, sem væntanlega fylgdi í kjölfarið, að takast mætti fyrir hafnarsjóð að standa undir þeirri upphæð.“

Þetta er umsögn hv. vitamálastjóra. Samkvæmt framangreindum upplýsingum virðist aðstaða í hafnarmálum Hafnarkauptúns hafa tekið töluverðum framförum á undanförnum árum, auk þess sem nú er fyrirhugað að grafa skipgengan skurð úr aðalálnum inn í höfn og siðan stækka og auka bryggjuplássið. Allar virðast þessar hafnarframkvæmdir miða í rétta átt. Þá bendir vitamálastjóri réttilega á það, að nú standi Hafnarkauptún aðeins undir 60% af kostnaði við hafnarframkvæmdir, en ef höfnin yrði gerð að landshöfn samkv. frv., yrði það að standa undir 662/3% af þessum kostnaði.

Tvær landshafnir eru nú í byggingu. Önnur í Keflavík og Njarðvíkum og hin í Rifi á Snæfellsnesi. Byggingu landshafnar í Rifi miðar mjög seint, enda hefur gengið mjög erfiðlega að útvega fé til hennar. Þar sem hæstv. ríkisstj. og Alþ. sér sér ekki fært að leggja meira fé árlega fram á fjárl. til hafnarframkvæmda, heldur en raun ber vitni, er ekki að vænta stórkostlegra átaka í þessum málum, nema þá helzt á þeim fáu stöðum, þar sem bæjarfélögin eru vel efnum búin eða hafa aðstöðu til lánsfjárútvegunar, sem geri þeim mögulegt að flýta hafnarframkvæmdum. Ég tel því, eins og nú standa sakir, ekki ráðlegt fyrir hæstv. Alþ. að samþykkja fleiri landshafnir.