28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (3330)

172. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að eyða mjög löngum tíma í að ræða þetta mál, vegna þess að það hefur svo mikið verið rætt áður hér í Alþ. og meira að segja búið að samþ. það áður í báðum deildum þingsins, þó að það gæti ekki orðið á sama ári, því miður, og þess vegna hafi það ekki orðið að l. En ég verð að segja það, að mér finnst það dálítið undarlegt, að hv. þm. Snæf. skuli sérstaklega ganga fram fyrir skjöldu til þess að mæla á móti landshafnargerð á þessum stað, þar sem hann hefur nú einmitt fengið í sitt eigið kjördæmi samþ. landshöfn og ekki samþ. á þann hátt, að það væri fyrst gengið gegnum Alþ., heldur var það raunverulega samningur milli tveggja flokka, áður en það kom til Alþ. En e. t. v. er það ástæðan til þess, að hann leggst á móti þessu máli, að hann óttist, að það muni draga úr framkvæmdum á Snæfellsnesi.

Ég vil taka fram, að ég vil þakka meiri hl. n. fyrir afgreiðslu þessa máls, og enn fremur það, að hv. frsm. meiri hl. skýrði nægilega vel í sinni framsöguræðu það atriði, að hér er alls ekki um að ræða hafnargerð fyrir Hornfirðinga eina, heldur fyrir Austfirðingafjórðung eða vélbátaútgerðina á Austurlandi.

Það er vitað, að áratugum saman hefur þetta verið verstöð fyrir vélbátaflota Austurlands, og nú er svo komið vegna þess, hvað seint gengur með hafnarbætur á Hornafirði, þar sem þar er aðeins um lítið hreppsfélag að ræða, sem að þessum mannvirkjum stendur, að vélbátafloti Austurlands getur ekki lengur stundað veiðar frá þessum stað og er farinn að þyrpast hingað suður í Faxaflóa, og þar af leiðandi verða ágæt mið, sem þarna eru, lítt eða miklu minna notuð heldur en vera skyldi.

Ég verð einnig að segja það, að mér finnst mjög hæpið af minni hl. n. að telja, að álit vitamálastjóra sé þannig úr garði gert, að ástæða sé til að vitna í það sérstaklega sem andstöðu gegn landshafnargerð á Hornafirði. Vitamálastjóri leggur yfirleitt málið ákaflega hlutlaust upp. Hann lýsir hlutlaust því, sem gert hefur verið síðast liðin ár, og hann lýsir enn fremur, að það er mikið þarna ógert. Í sambandi við það vil ég einmitt benda á annað, sem ekki hefur komið fram í umræðunum og ég ætlaði sérstaklega að gera að umtalsefni. Það er það, að nú virðist horfa þannig, að það séu möguleikar á að stunda allmiklar síldveiðar við Suðausturland og hefðu e. t. v. fyrr verið möguleikar, þó að þeir hafi ekki verið notaðir.

Á s. l. sumri fór lítill hluti af bátaflota landsmanna á síldveiðar við Suðausturland, einmitt á miðin út og austur af Hornafirði, og fiskaði þar ágætlega, eftir að hann var búinn að vera gersamlega síldarlaus hina eiginlegu síldarvertíð á miðunum við Norður- og Norðausturland. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, þó að þær liggi ekki enn fyrir opinberlega, en verða væntanlega birtar áður en langt liður, að samkvæmt fiskirannsóknum eru mjög miklar líkur til, — svo að ég ekki segi alveg fullar sannanir fyrir því, — að á þessu svæði, út af Hornafirði og þar við Suðausturlandið, stutt frá Hornafirði, sé um mjög miklar hrygningarstöðvar sumargotsíldar að ræða, og enn fremur það, að vegna þess að þarna sé um svo miklar hrygningarstöðvar sumargotsíldarinnar að ræða, þá sé þar einmitt fyrir hendi sú líffræðilega undirstaða, sem þarf til þess, að síldveiðar geti verið nokkurn veginn öruggar. Það var rokið til þess að byggja miklar síldarverksmiðjur hér við Faxaflóa vegna þess, að eitt ár veiddist mikið af síld í Hvalfirði. Það var rokið til þess líka að kaupa síldarbræðsluskipið Hæring, sem er minnisvarði um þær framkvæmdir. En það hefur ekkert komið fram enn, sem hefur bent til þess, að í sambandi við Hvalfjarðarsíldina hafi verið um að ræða neina sérstaka líffræðilega undirstöðu, eins og hrygningarstöðvar þar í nánd, heldur hafi þarna verið aðeins einstakt fyrirbrigði síldargangna, sem stundum koma fyrir á einstökum stöðum, detta svo niður og ekki verður meira úr.

Þetta atriði vil ég sérstaklega benda á, og ég vil taka það fram, að ég vænti þess, að ekki verði langt þangað til eitthvað kemur fram opinberlega um þetta mál, sem sanni þetta mál mitt betur. Og fari svo, sem ég tel miklar líkur til, að það reynist, að þarna séu möguleikar fyrir bátaflota landsmanna til þess að stunda síldveiðar verulega seinni part sumars, á haustin og fram eftir vetri, og ef ekkert verður gert sérstakt af hálfu hins opinbera til þess að bæta hafnarskilyrði á Hornafirði meira, en hefur verið gert og þessi litli hreppur með 400 manns á eingöngu að sjá um það verk, þá er hætt við, að það fari svo, að þjóðin verði af öflun stórkostlegra verðmæta, vegna þess að Alþ. hefur ekki viljað sinna þessu máli.

Af því að það er komið að þinglokum og ég vil ekki vera að tefja það, að málið komist áfram í þessari hv. deild, þá ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri núna. Málið hefur áður hlotið góðar undirtektir í þessari deild, þótt það hafi þannig viljað atvikast, að þó að allt Alþ. sé áður búið að samþykkja það, þá hafi ekki verið hægt að fá það samþ. á einu ári og þess vegna sé það ekki orðið að l. enn. En ég vildi samt sem áður vænta þess, að það fái góðar undirtektir í þessari deild núna við atkvgr.