12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3365)

180. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Mér þykir óhjákvæmilegt vegna furðulegra ummæla hæstv. fjmrh. og hins virðulega fyrrverandi forseta þessarar d., hv. 1. þm. Árn., að skýra nokkuð þessi atriði. Þeir halda því fram, að öll frv., sem snerta tolla- og skattamál eða fjárhag ríkisins, eigi yfirleitt að fara til fjhn. Ég vil aðeins minna á það hér, hvaða málum hefur verið vísað á þessu þingi af þessari d. mótmælalaust til iðnn. Það hefur verið vísað til iðnn. frv. á þskj. 55 um raforkulánadeild Búnaðarbankans, þar sem svo er ákveðið, að stofnfé deildarinnar skuli vera 5 millj. kr., sem ríkissjóður leggur deildinni til á næstu árum sem bein fjárframlög úr ríkissjóði. Það hefur verið vísað til n. frv. frá fjórum þm. Framsfl. um breyt. á raforkulögum, þar sem á að hækka framlög ríkissjóðs á ári úr 2 millj. upp í 5 millj. Það hefur verið vísað til nefndarinnar frv., sem heitir „Um endurgreiðslu tolla og skatta af efni til skipa, sem smíðuð eru innanlands“. Það er hreint tollamál. Það kom ekki nokkur uppástunga fram um það varðandi þessi mál, sem ég nú hef greint hér í d., að þau ættu að ganga til fjhn., heldur var samþ. einróma að vísa þeim til iðnn. Þegar þetta mál, sem hér liggur fyrir, um eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af þessum vélum til að gera umbúðir um útfluttan fisk, var rætt í iðnn., þá, eins og ég tók fram, hreyfði hv. þm. V-Húnv., sem nú gerir till. um það, að málið fari til fjhn., aldrei andmælum á þeim grundvelli, að málið heyrði undir fjhn., en ekki iðnn. Það er því alveg ljóst, að hér er eitthvað alveg sérstakt, eitthvað nýtt, sem kemur til, að þessar háværu kröfur þeirra þremenninganna eru gerðar um, að málið gangi til fjhn. Þessar raddir hafa ekki heyrzt áður, og ef ætti að fylgja þessum skoðunum, mundi það leiða af sér, að varla nokkurt mál færi til nefnda hér í þinginu eins og iðnn., sjútvn., landbn. Ég vil aðeins benda á það, að það hljóta að vera hér einhverjar annarlegar ástæður, sem mér þykir sennilegt að séu þær, að það á að gera tilraun til þess að draga þetta mál eða svæfa.