12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (3366)

180. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætlaði bara að benda á, að þessi síðustu orð hv. þm. eru heldur barnaleg, þegar þess er gætt, sem ég upplýsti áðan, að það er eftir að koma í gegnum þingið frv. um breyt. á tollskránni, sem sumar eru sérstaklega sniðnar fyrir iðnaðinn, eiginlega flestar, og þar af leiðandi náttúrlega auðvelt fyrir þingmenn að koma fram brtt., t. d. um þetta í sambandi við það mál. Hér er því bara um það að ræða, hvort menn vilja hafa við þetta eðlileg vinnubrögð eða ekki. Það er frá mínu sjónarmiði alveg augljóst, að einu af þessum málum, sem hv. þm. minntist á, hefur verið vísað til iðnn., sem ekki á þar heima, og það er málið um endurgreiðslu á tollum. Það finnst mér að hefði átt að fara til fjhn. Mér sýnist augljóst, að til fjhn. eigi að fara öll mál, sem beinlínis snerta skatta og tolla til ríkissjóðs.