14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

10. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er fram borið til staðfestingar brbl. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna byggingar áburðarverksmiðju. Þau brbl. voru útgefin af hæstv. ríkisstj. í næstliðnum aprílmánuði. Er gert ráð fyrir í þeim l. að heimila ríkisstj. að taka allt að 1 milljón dollara að láni og endurlána Áburðarverksmiðjunni h/f lánsupphæðina.

Frv. þessu var vísað til fjhn. d., sem hefur rætt það á tveim fundum, og hefur nú meiri hluti n. skilað áliti á þskj. 202. Leggur meiri hlutinn til, að frv. verði samþ., en einn þeirra, sem skrifa undir það álit, hv. 8. landsk. þm., hefur þó undirritað með fyrirvara, og mun hann gera grein fyrir sínum fyrirvara, ef hann telur ástæðu til. Aðrir þrír nm., sem mynda meiri hlutann, leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, en fimmti nm., hv. 2. þm. Reykv., gerði ráð fyrir að skila sérstöku áliti um málið, sem þó liggur ekki enn fyrir, og mun hann ef til vill gera hér grein fyrir afstöðu sinni. — Það er þannig, eins og ég hef lýst, till. meiri hluta fjhn., að frv. þetta verði samþ. eins og það liggur fyrir.