12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (3375)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er sammála því, sem fram kom hjá hv. frsm., hv. þm. A-Húnv., að bráðnauðsynlegt er að gera einhverjar ráðstafanir til þess að rétta hlut sparifjáreigenda í landinu. Þeir hafa orðið óeðlilega hart úti í verðbólguþróun síðastliðins áratugs rúms. Þeir hafa orðið harðara úti en nokkur önnur einstök stétt, ef þá mætti kalla stétt, og það hefur dregizt allt of lengi að gera skynsamlegar og raunhæfar ráðstafanir til þess að rétta hag þessa fólks, sem margt er ekki efnað, þó að það sé sparifjáreigendur. Margt af því er einmitt þannig stætt, að það hefur treyst á sína sparifjársöfnun til þess að geta lifað áhyggjulausu lífi í elli sinni, sett traust sitt á sparifé sitt sem eins konar varasjóð gegn áföllum, sem það kynni að verða fyrir. Sú hugsun, sem liggur til grundvallar þessu frv., er því heilbrigð að mínum dómi.

Hitt er svo annað mál, hvort hér er gripið á vandamálinu á hinn æskilegasta hátt, og í því sambandi vildi ég mega beina einni fyrirspurn til hv. flm. og frsm., þ. e. a. s: hvernig beri að skilja ákvæðið í 1. gr., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, að allt sparifé í peningastofnunum skuli undanþegið eignarskatti og hvers konar öðrum sköttum og gjöldum til hins opinbera, þ. á m. eignarútsvari til sveitarfélaga. Mér leikur forvitni á að víta, hvort flm. ætlast til, að það fé, sem sparað er. sé einnig undanþegið tekjuskatti og útsvari, eða hér sé einvörðungu um að ræða undanþágu undan eignarskatti. — Þetta langar mig til að fá upplýst, áður en ég kynni að segja örfá orð til viðbótar um málið.