12.12.1952
Neðri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (3376)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. 3. landsk. þm. fyrir vinsamleg orð í sambandi við þetta frv., því að mér skildist á ræðu hans, að hann skildi rétt tilgang þess og nauðsyn.

Varðandi þá fyrirspurn hans, sem hann bar hér fram, hvort það væri tilgangurinn, að spariféð væri líka undanþegið útsvari, eignarútsvari, þá er auðvitað ekki hægt að leggja útsvar á eign, sem engin bæjarstjórn eða hreppsnefnd veit hver er, vegna þess að það er tilgangurinn, að það sé ekki skylt að telja fram þessa eign. Hins vegar má gera ráð fyrir því, að hreppsnefndir úti um land og bæjarstjórnir í kaupstöðum hafi einhverja hugmynd um það, ef það eru einhverjar eignir, sem þessi og þessi á, þó að þær hafi það ekki fast. Og ef hlutaðeigandi yfirvöld hafa þannig einhverja hugmynd um það, þá kemur það eðlilega undir það ákvæði í okkar útsvarslögum, að það séu ástæður, sem hlutaðeigandi yfirvöld geti þá tekið til greina, því svo sem kunnugt er á að leggja á útsvar eftir efnum og ástæðum. En um leið og það væri lögfest, að það sparifé, sem stendur í peningastofnunum lengur en eitt ár, sé ekki talið fram, þá er eðlilega ekki hægt að leggja á það útsvar sem fasta eign.