03.02.1953
Neðri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (3389)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. málsins, þm. A-Húnv., talaði um það. að frv. þetta hefði verið nokkuð lengi til athugunar hjá fjhn. d. — Frv. mun hafa verið vísað til n. fáum dögum áður, en hlé var gert á þingstörfum í desember. N. gerði ráðstafanir þá, áður en þingi var frestað, til þess að senda frv. til umsagnar bönkunum og skattstofunni í Reykjavík. Umsagnir frá sumum þessum aðilum, t. d. einum bankanum, bárust ekki fyrr en seinni hluta janúarmánaðar, og ég held, að því verði nú ekki haldið fram, að málið hafi tafizt óeðlilega hjá n.

Það sé fjarri mér að gera lítið úr umsögn bankastjóranna um þetta mál, en þó virðist mér, að ummæli þeirra um frv. séu, eins og ef til vill er eðlilegt, fyrst og fremst byggð á því, að bankastjórarnir gera sér vonir um, að ef frv. verði samþ., þá muni það verða til þess að auka nokkuð spariféð í bönkunum, en hins vegar hafi bankastjórarnir ekki svo sem skyldi athugað aðrar hliðar málsins eða frágang frv. að öðru leyti. — Hv. þm. A-Húnv. las hér upp nokkuð úr umsögnum bankastjóranna. M. a. kemur þar fram hjá einum bankastjóranum það álit, að mönnum sé mjög illa við að þurfa að telja fram spariféð, því að strax þegar það sé komið á skattskrá, þá megi þeir búast við að verða fyrir ónæði af lánbeiðendum og þyki þeim ýmsum illt undir að búa. Út af þessu vil ég nú benda á það, að þær skattskrár, sem lagðar eru fram opinberlega almenningi til sýnis, gefa engar upplýsingar um það, í hvaða verðmætum eignir manna liggja. Þær upplýsingar er aðeins að finna í sjálfum framtölunum, sem aðrir hafa ekki aðgang að heldur en skattanefndirnar.

Þá segir hv. þm. A-Húnv., að það geti ekki aðrir samþ. till. mína um að vísa málinu til stjórnarinnar en þeir, sem séu á móti því. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Mér finnst einmitt mjög eðlilegt, að menn, sem eru málinu hlynntir og vilja láta það fá betri undirbúning heldur en það hefur fengið, verði með þessari till. minni. Þetta finnst mér mjög eðlilegt vegna þess, hvað frv. er gallað í þeim búningi, sem það nú hefur, en hins vegar mjög liðið að þinglokum, og því er ekki tími til þess fyrir Alþingi að láta fara fram þá athugun málsins og gera þær breyt. á frv., sem þörf er á, áður en þing lýkur störfum að þessu sinni.

Þuð er eitt atriði enn, sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á í sambandi við málið. Það er gert ráð fyrir því, að sparifé verði undanþegið sköttum til ríkisins og útsvari líka, t. d. eignarútsvari til bæjar- og sveitarfélaga. Nú er það svo, að lög um útsvarsálagningu eru mjög ófullkomin og engar skýrar reglur um það, hvernig eigi að haga útsvarsálagningu. Það er enn í lögum, að hreppsn. og niðurjöfnunarn. geti miðað útsvarsálagninguna við það, sem kallað er „efni og ástæður“. Þeim er ekki skylt að fara eftir skattframtölum við niðurjöfnun útsvara, þó að margar niðurjöfnunarn. og hreppsn. muni hafa skattframtölin til hliðsjónar. Það er því engin trygging fyrir því, að sparifjáreigendur fengju nokkra tilslökun á útsvörum, þó að 1. gr. þessa frv. yrði samþ., því að niðurjöfnunarn. gætu haldið því fram, að þær hefðu lagt á eftir efnum og ástæðum, en ekki sérstaklega eignarútsvar.

Hv. frsm. meiri hl., 5. þm. Reykv., heldur því fram, að það hafi ekki birzt neinn áhugi hjá mér eða vilji fyrir þessu máli. Þetta tel ég nú ekki alls kostar rétt hjá hv. þm., þó að ég hafi ekki séð mér fært að mæla með þessu frv. eins og það liggur fyrir. Ég vil í þessu sambandi t. d. benda á það, að ég hef nú á þessu þingi borið fram ásamt fleiri hv. þm. till. til þál. um verðtryggingu sparifjár. Var sú till. borin fram í því skyni að fá það athugað, hvort ekki væri unnt að koma á slíkri verðtryggingu og á þann veg rétta hlut sparifjáreigenda. Till. þessi hefur verið til meðferðar í Sþ. og fjvn. þingsins sammála um að mæla með því. að hún yrði samþ. — að vísu með nokkurri breyt., og vænti ég, að till. fái afgreiðslu, áður en þingi lýkur.

Ég tel þannig, eins og ég hef áður sagt, fulla þörf á því að athuga þetta mál með það fyrir augum að auka hvöt manna til sparnaðar og gera hlut sparifjáreigenda betri, en verið hefur að undanförnu, en ég tel aðeins, að það megi ekki hrapa svo að málinu að samþ. nú í þinglokin frv., sem er mjög gallað að ýmsu leyti. Hv. 5. þm. Reykv. viðurkenndi nú í sinni ræðu, að það ætti að setja í frv., að skattfrelsið nái einnig til ríkisskuldabréfa. Ekki hefur þó sá hv. þm. flutt till. um þetta, þó að hann hafi haft málið til athugunar með öðrum fjhn. mönnum. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir, að málið þarf meiri undirbúning, heldur en það hefur fengið, því að það getur verið mikið álitamál, ef á að taka þessi verðbréf inn í frv., hvaða tegundir verðbréfa þá á að taka. Ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til nú á þessari stundu að láta uppi álit um það, hvað þarna ætti að taka með og hverju ætti að sleppa.

Ég vil að síðustu benda á það eða minna á það, að þetta er nú ekki í fyrsta sinn, sem rætt hefur verið um þessi mál hér á þingi. Á þingi í fyrra bar hv. þm. S-Þ. fram í Ed. frv. um skattfrelsi sparifjár. Það er að finna í þingtíðindum frá síðasta þingi á þskj. 163. En sá var aðalmunur á því frv. og þessu, sem hér liggur fyrir, að þar var gert ráð fyrir því, að sparifjáreigendur ættu að gera grein fyrir sparifé sinu, þegar þeir teldu fram til skatts, þó að spariféð eða viðlagðir vextir þess væri ekki reiknað með við útreikning skattsins. Enn fremur var ákvæði um það í því frv., að forstöðumenn banka, sparisjóða og innlánsdeilda skyldu svara tafarlaust fyrirspurnum skattan. um upphæðir á skattfrjálsum innistæðum framteljanda. Þetta frv. fékk einróma meðmæli fjhn. Ed. á þinginu í fyrra, og er álit n. birt á þskj. 387. Einn nm., hv. 11. landsk., tók þó fram þar, að hann mundi ef til vill flytja brtt. Ekki komu nú samt neinar till. frá honum til breyt. á frv. þar í Ed., og málið var afgreitt til Nd., en þá var svo liðið á þingtímann, að ekki vannst tími til að athuga málið frekar.

Þá vil ég enn minna á það, að á síðasta þingi flutti hv. þm. A-Húnv. hér í d. frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins, á þskj. 179, og í 5. gr. þess frv. var gert ráð fyrir því, að þessi stofnlánadeild tæki fé til ávöxtunar á sparisjóðsreikning. sem væri ekki framtalsskylt og stjórn bankans væri bannað að gefa upplýsingar um. Frv. þetta var athugað og rætt hér í þessari d. í fyrra, og þá var samþ. hér í d. brtt. frá mér, á þskj. 459, um að sparifjáreigendum skyldi skylt að gera grein fyrir eign sinni í stofnlánadeildinni, þegar þeir telja fram til skatts, þótt eignin reiknist ekki með við skattaútreikning. Þessi till. var samþ. hér í d., og virtist því koma fram sami vilji í þessu efni hjá þessari d. í fyrra eins og hv. Ed., en það fór nú þannig um þetta mál eins og það fyrra, sem ég gat um, að það fékk ekki fullnaðarafgreiðslu á þinginu.

Ég vildi minna á þessi tvö mál frá þinginu í fyrra til þess að benda á það, að þá var meiri hl. þm. í báðum d. þingsins þeirrar skoðunar, að það væri varhugavert að undanþiggja sparifé framtalsskyldu, auðvitað vegna þess, að það mundi opna leiðir fyrir ýmsa menn, sem ekki hafa sparifé sitt geymt í bönkum eða sjóðum, til þess að komast undan réttmætum gjöldum til hins opinbera. Það liggur í augum uppi þeim, sem athuga þetta mál, að verði þetta frv. samþ. í svipuðu formi eins og það nú er, þá er mögulegt fyrir menn, sem kæmu undir ákvæði frv. með sitt fé um tíma, — hvort sem það væru nú sex mánuðir eða eitt ár, — að taka þetta fé út úr sparisjóði eða banka að þeim tíma liðnum og verja því til ýmissa ráðstafana utan við bankana eða sparisjóðina, og væri þá ekki auðvelt fyrir skattayfirvöld, og ég vil segja raunar ókleift, að fylgjast nokkuð með þessum ráðstöfunum manna, ef það væri fyrir það girt, að skattayfirvöldin mættu leita nokkurra upplýsinga hjá bönkum eða sjóðum um þær breytingar, sem verða á innistæðum á þessum reikningum.

Ég sé nú ekki ástæðu, nema tilefni gefist, að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vænti þess, að d. geti á mína till. fallizt, að vísa málinu til stjórnarinnar, til þess að það fái nánari athugun, því að þess er vissulega þörf.