05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3393)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. hér í d. í gær bar ég fram þá till., að málinu yrði vísað til ríkisstj. Ég færði þær ástæður fyrir þessari till. minni, að það væri ljóst, að undirbúningur málsins væri mjög ófullkominn og frv. gallað á ýmsan hátt og því væri ekki hægt nú í þinglokin að vænta þess, að mögulegt yrði að ganga frá málinu þannig, að viðunandi mætti teljast. Hv. d. felldi þessa till. mína, en samþ. hins vegar nokkrar brtt., sem fyrir lágu, og tel ég ekki, að frv. hafi tekið breytingum til hins betra við þær breytingar. Það er vitanlega mjög naumur tími til athugana á málinu nú milli umræðna, þar sem 2. umr. lauk seint í gær og frv. útbýtt eins og það nú er mjög nýlega. Ég hef þó reynt að gera mér nokkra grein fyrir því, hver áhrif frv. gætu orðið í ýmsum tilfellum á skattgreiðslur manna til hins opinbera.

Það er vafalaust rétt, sem haldið er fram, að sparifé í bönkum og sjóðum sé eign fjölda manna og yfirleitt ekki stórar fjárhæðir í eigu einstaklinga. Þeir menn, sem efnaðastir eru eða umsvifamestir í fjármála- og athafnalífinu, munu yfirleitt ekki eiga mikið fé geymt á sparisjóðsreikningum. Á þetta er bent í umsögnum bankanna um málið, og ég geri ráð fyrir, að þetta sé í höfuðatriðum rétt. Eins og ég sagði við 2. umr., tel ég virðingarverða þá viðleitni flm. frv. að rétta hlut sparifjáreigenda og hvetja fólk til sparifjársöfnunar. En til þess að ná því marki getur verið um fleiri leiðir að velja en þá, sem hér er stungið upp á. Ég benti einnig á við 2. umr., að verði sett lög um þetta efni, þá þarf að ganga svo frá þeim, að ekki séu með lagasetningunni opnaðar leiðir fyrir ýmsa fjáraflamenn til að komast undan lögákveðnum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga, þó að þeir eigi raunverulega engar innistæður í bönkum og sjóðum. En ég tel einmitt, að slíkir möguleikar séu opnaðir með frv., eins og það nú er, ef að lögum verður. Það er auðvelt að nefna dæmi til sönnunar því, sem ég hef hér haldið fram.

Í næstliðnum mánuði voru hér umræður einu sinni um annað frv. varðandi skattamál. Ég nefndi þá dæmi um skattgreiðslur einstaks manns hér í Reykjavík, sem hafði um 150 þús. kr. í skattskyldar tekjur samkv. síðustu skattskrá. Af þeim tekjum þarf hann að borga í tekjuskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt samkv. gildandi lögum samtals rúmlega 48 þús. kr. Nú hef ég gert nokkra athugun á því, hvernig maður þessi gæti komið sínum fjármálum og skattframtali fyrir framvegis sér til hagnaðar, ef frv. þetta verður gert að lögum eins og það nú liggur fyrir. Maður þessi, sem ég hirði ekki um að nafngreina frekar en áður, hefur umfangsmikil viðskipti, þar á meðal bankaviðskipti. Við skulum segja, að hann skuldi í banka eða bönkum eina millj. kr. vegna víxla, sem bankarnir hafa keypt af honum. Í stað þess að borga skuldina, leggur hann eina millj. kr. inn á sparisjóðsreikning í bankanum. Þetta eru mjög hagstæð viðskipti fyrir bankann, því að útlánsvextir eru hærri, en vextir af innistæðum. Af víxilskuld, sem nemur einni millj. kr., þarf nú að borga í vexti og framlengingargjöld, ef um framlengingu er að ræða, ásamt stimpilgjaldi milli 80 og 90 þús. kr. á ári, en vextir af jafnhárri innistæðu á innlánsskírteini eru rúmlega 60 þús. kr. yfir árið. Mér reiknast svo til, að vaxtamismunur, sem maður þessi þyrfti að borga bankanum yfir árið vegna þeirra viðskipta, sem ég nú nefndi, mundi verða um 23 þús. kr. Vaxtagjöld hans mundu verða þeim mun hærri, en vaxtatekjurnar. En hver áhrif mundu nú þessi viðskipti hafa á skattframtal hans og skattgreiðslur? Eins og ég sagði áðan, þá reiknast mér svo til, að vextir af einnar millj. kr. víxilskuld og önnur gjöld muni vera 84.800 kr. Þessa upphæð má maðurinn draga frá sínum tekjum, og þá mundu skattskyldar tekjur hans færast úr 150 þús. kr. niður í milli 60 og 70 þús. kr. Hins vegar þarf hann ekki samkv. frv. að telja fram sem tekjur vextina, sem hann fær af jafnhárri innistæðu í bankanum, yfir 60 þús. kr. Þeir vextir eru ekki framtalsskyldir eða skattskyldir samkv. frv. Niðurstaðan af þessu mundi verða sú, .að maður þessi mundi ekki borga rúmlega 48 þús. kr. í skatta til ríkisins, heldur um 5 þús. kr., þannig að skattar hans til ríkisins mundu lækka af þessum ástæðum um, um það bil 43 þús. kr. Auk þess átti nú þessi maður að borga nokkur þús. kr. í eignarskatt samkv. síðasta skattframtali, en sá eignarskattur mundi hverfa alveg, vegna þess að hann þyrfti ekki að telja fram milljónina, sem hann ætti inni í bankanum, en fengi að telja með öðrum skuldum víxilskuldina, sem stæði þar á móti. Hann gæti sem sagt haft upp úr þessum viðskiptum við bankann lækkun á ríkissköttum, sem næmi samtals um 50 þús. kr., en yrði að láta af því 23 þús. kr. í vaxtamun til bankans, hefði í hreinar tekjur 27 þús. kr. af þessum viðskiptum. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að ég hafi reiknað þetta dæmi svo nákvæmlega, að hér geti ekki skakkað neinu, sem teljandi er.

Þá skulum við líta á útsvörin. Það er nú að vísu svo, að niðurjöfnunarnefndir eru ekki bundnar við nein ákveðin lagafyrirmæli um niðurjöfnun útsvara. En hér í Reykjavík er nú talið, að útsvörin hafi einkum verið miðuð við tekjur og eignir samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í útsvarsskránni, og mér reiknast svo til, að ef fylgt yrði framvegis svipuðum reglum um álagningu tekjuútsvara og eignarútsvara hér í bænum eins og gert var síðast, þegar þessi gjöld voru á lögð, þá mundi þessi maður fá lækkun á útsvari, sem næmi um 20 þús. kr., vegna þessara viðskipta, þannig að hann hefði þá um 47 þús. kr. í hreinan ágóða af þessum bankaviðskiptum sínum, ef hann gæti notið hlunninda þeirra, sem boðið er upp á í þessu frv. Ég er eiginlega dálítið hissa á því, að einn af meðnm. í fjhn., hv. 5. þm. Reykv., sem á nú sæti í bæjarstjórn hér, skuli leggja til, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Mér virðist, að annaðhvort hafi hann ekki athugað til neinnar hlítar, hver áhrif þess kynnu að verða í vissum tilfellum, m. a. fyrir bæjarfélagið, eða þá að hann metur hér meir hagsmuni einhverra annarra heldur en þess bæjarfélags.

Ég hef nú leyft mér að leggja fram brtt. við frv. á þskj. 774, sem var verið að útbýta hér í d. nú rétt áðan, og vil ég skýra þær nokkuð.

Fyrsta brtt. mín er við 1. mgr. 1. gr. Í henni segir, að spariféð skuli vera undanþegið eignarskatti og hvers konar öðrum sköttum og gjöldum til hins opinbera. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því frá flutningsmönnum, við hvað er átt, þar sem talað er um hvers konar aðra skatta og gjöld. En ég legg til, að þessi 1. mgr. verði orðuð þannig, að allt sparifé í peningastofnun, sem fullnægir þeim skilyrðum, sem um getur í 2. gr., skuli undanþegið eignarskatti til ríkisins og eignarútsvari til sveitarfélaga. Við útreikning á eignarskatti skuli þó telja sparifé til eignar á móti skuldum framteljanda. Ég tel, að það sé alls ekki fært að undanþiggja sparifé sköttum hjá þeim mönnum, sem láta standa skuldir á móti, því að með því móti er auðvelt að misnota ákvæði laganna, eins og ég hef áður greinilega sýnt fram á. Á sama hátt tel ég að ákvæðið um skattfrelsi vaxtanna af sparifénu þurfi að vera þannig, að menn fái aðeins skattfrjálsar vaxtatekjur að svo miklu leyti sem þær eru meiri heldur en vaxtagjöld, sem þeir telja á skattframtali sinu til frádráttar tekjum. Og við það er miðaður b-liðurinn í fyrstu brtt. minni. Þar legg ég til, að verði bætt við 1. mgr. svo hljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Sömuleiðis skulu vextir af þessu fé vera skattfrjálsir sem tekjur, ef þeir leggjast við höfuðstólinn, þó aðeins að svo miklu leyti sem vaxtatekjur skattgreiðanda eru meiri, en vextir af skuldum, sem hann telur fram til frádráttar tekjum.“

Ég tel mig hafa fært rök fyrir því í því dæmi, sem ég nefndi hér áðan, að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef mönnum er alvara með þetta mál, að samþykkja þessar brtt. mínar, því að annars er opin leið fyrir menn til þess að misnota þessi ákvæði í stórum stíl.

Þá flyt ég aðra brtt., við 3. gr. Legg ég þar til, að greinin verði orðuð um og verði þannig: „Skylt er sparifjáreigendum að gera grein fyrir hinu skattfrjálsa fé og vöxtum af því, þegar þeir telja fram til skatts, og hvar það stendur inni, þótt það eða viðlagðir vextir þess reiknist ekki með við útreikning skattsins.“

Þessi till. er að efni til alveg eins og till., sem samþ. var á síðasta þingi hér í hv. d., þegar það lá fyrir að greiða atkv. um frv. viðkomandi stofnun nýrrar deildar við Búnaðarbankann, sem borið var fram á því þingi. Upphaflega var ráðgert í því frv., að sparifé í þeirri nýju deild skyldi ekki framtalsskylt, en það var samþ. hér í d., að það skyldi skylt að telja féð fram, þó að það teldist ekki með, hvorki höfuðstóll né vextir, við útreikning á sköttum. Og eins og ég sagði við 2. umr., þá var þetta skattfrelsismál einnig fyrir hv. Ed. á síðasta þingi og hlaut fullnaðarafgreiðslu í þeirri d., og þar var málið afgr. með þeim hætti, að ákveðið var, að það skyldi telja fram spariféð og vexti af því, þó að það væri ekki reiknað með, þegar skattur væri á lagður. — Ég vil enn fremur benda á það út af því, sem hér hefur verið sagt um fyrirkomulag þessara mála í Finnlandi, að þegar þar voru sett lög um skattfrelsi sparifjár, þá mun ekki hafa verið ákveðið, að sparifé skyldi undanþegið framtalsskyldu. Ég vil enn fremur benda á það, að það er ekki hægt að girða fyrir þann möguleika, að menn geti misnotað ákvæðin á þann hátt, sem ég sýndi í dæmi mínu áðan að mögulegt væri, nema með því móti að halda framtalsskyldunni.

Eins og ég áður hef sagt, þá er þetta mál ærið vandasamt, og sá tími, sem mönnum hefur gefizt til að athuga það nú á milli umræðna, er mjög stuttur. Því má það vel vera, að það séu enn ákvæði í frv., sem séu mjög varhugaverð, og að mér hafi sézt yfir þau. Því tel ég, að málið þurfi að fá betri athugun og undirbúning milli þinga, áður en gengið verður frá lagasetningu um þetta efni. Ég sagði einnig frá því við 2. umr. málsins, að þetta væri eitt af þeim atriðum, sem skattamálanefndin hefði til athugunar, hvað hægt væri að gera til þess að rétta nokkuð hlut sparifjáreigenda og að hvetja fólk til aukinnar sparifjársöfnunar, því að víst er þörf fyrir það hvort tveggja. En það getur verið mjög varhugavert að afgr. slíkt mál sem þetta í flaustri á síðustu klukkustundum þingsins, því að þá getur vel svo farið, að löggjöfin verði þannig, að á henni reynist, þegar til framkvæmda kemur, miklir annmarkar.

Ég vil nú aðeins að síðustu benda hv. flm. á það, að mér sýnast ákvæði frv. um gildistöku laganna nokkuð óákveðin, og eins og þau eru nú, þá er mjög hæpið að það væri hægt að láta þetta koma til framkvæmda við skattaálagningu á þessu ári, þó að vilji væri til þess. En ég tel það nú mjög vafasamt, þó að frv. næði fram að ganga, að þá ætti þetta að koma til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1953, — teldi það nú eðlilegt, að það væri ekki haft þannig.