05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (3397)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. A-Húnv. sagði m. a., að ég hefði haldið málinu í n. í sex vikur og það hafi m. a. þannig komið fram sterkur áhugi minn fyrir að stöðva málið. Ég vil út af þessum ummælum hans enn benda á það, að máli þessu var vísað til fjhn. nokkrum dögum, áður en þinghlé hófst fyrir jólin. N. sendi það þá þegar til umsagnar bönkunum og skattstofunni í Rvík, en umsögn um frv. frá þeim banka, sem síðast svaraði bréfi n., kom ekki fyrr, en í síðari hluta janúarmánaðar, svo að ég hygg, að menn geti af þessu séð, að það hefur enginn óeðlilegur dráttur orðið á afgreiðslu málsins frá n. — Hann segir enn fremur, hv. þm. A-Húnv., að það sé auðséð, að það sé lagt allt kapp á að koma málinu fyrir kattarnef. Ég held, að ef einhver hefur að því unnið að koma málinu fyrir kattarnef á þessu þingi, þá sé það fyrst og fremst hv. flm., með því að ganga svo hroðvirknislega frá frv., að það er ómögulegt að samþ. það, nema með mjög mikilli athugun og stórkostlegum breyt. Eins og málið er lagt fyrir þingið af hálfu flm., þá er það í raun og veru tilboð til braskara um léttfenginn gróða, ef þeir vilja nota sér þá möguleika, sem frv. gefur.

Hv. þm. viðurkenndi það í sinni ræðu, að þeir útreikningar, sem ég birti hér, mundu geta staðizt, en það mundi óvíða koma til greina, að menn notfærðu sér þessa möguleika til þess að hagnast óeðlilega á ákvæðum frv. Hv. þm. segir, að gamalmenni, börn og fátæklingar eigi í mörgum tilfellum aleigu sína í sparisjóðsreikningum. Það er víst mikið til í þessu, og ég er ekki hræddur um það, að þetta fólk mundi gera tilraunir til að misnota ákvæði slíkra laga, en það eru ýmsir aðrir, eins og áður hefur verið bent á, sem ekki geyma fé sitt á sparisjóðsreikningum, en eru umsvifamiklir samt í fjármálalífinu, og ýmsir slíkir spekúlantar mundu geta hagnazt stórlega á ákvæðum frv., ef það yrði samþ. nokkuð svipað því, sem það er nú.

Það er þannig, að eftir að menn eru komnir nokkuð hátt í tekjustiganum, þá getur það borgað sig fyrir þá að taka lán og borga af því vexti, en eiga fé aftur á móti skattfrjálst í sparisjóðsreikningum, vegna þess að hagnaðurinn, sem þeir mundu fá í lækkun á sköttum, gerði þá miklu meira, en sem næmi vaxtamismuninum, sem þeir yrðu að borga. Þetta sýndi ég glögglega í því dæmi, sem ég nefndi hér áðan.

Hv. þm. A-Húnv. segir að síðustu, að ég vilji drepa allar till., sem gangi í þessa átt, og till. sú, sem ég og fleiri þm. fluttum um verðtryggingu sparifjár og var samþ. hér í dag nokkuð breytt í Sþ., sé aðeins skýjaborg, sem mundi kosta ríkissjóð stórfé. Það skal nú fram tekið út af þessu, að eins og glögglega kom fram í grg., sem fylgdi þeirri till., þá var það ekki ætlun okkar flm., að ríkissjóður tæki að sér nein útgjöld í sambandi við verðtryggingu sparifjárins, heldur ætti að koma því öðruvísi fyrir.

Við höfum, ég og hv. þm. N-Þ., gert tilraunir til þess að leiðrétta hér allra stærstu vitleysurnar í þessum stíl, sem hér liggur frammi frá tveim hv. þdm. Og þakkirnar, sem við fáum fyrir þessa viðleitni okkar til að koma frv. í það horf, að það sé ekki stórhneykslanlegt að samþ. það, eru þær, að við séum að eyðileggja málið.