05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (3399)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Skúli Guðmundsson:

Það var nokkur gustur í hv. meðnm. mínum, 5. þm. Reykv., virtist mér. Hann hefur nú lagt sinn skerf til þess að gera þetta frv. eins úr garði eins og það nú er, því að hann flutti ásamt öðrum manni brtt., sem voru samþ. við 2. umr. Hann fékk fellda niður 4. gr. úr frv. Hún hófst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Innistæðueiganda er í lifanda lífi óheimilt að selja, veðsetja eða ráðstafa á nokkurn annan hátt sparisjóðsbókum“ o. s. frv.

Það mátti nú, ef þetta var tekið alveg bókstaflega, fá þann skilning út úr þessu, að menn gætu aldrei, meðan þeir væru á lífi, hérna megin a. m. k., tekið út innistæðu sína af þessum reikningum. Og þessi grein var nú felld niður. En það var fleira í henni. Það var líka í þessari sömu grein bann við því að selja og veðsetja þessar innistæður. Nú er það burt fallið líka, og m. a. fyrir þá breytingu er nú hægt fyrir ýmsa spekúlanta að hafa þau viðskipti við bankana. sem ég skýrði hér í mínu dæmi í fyrri umr. um þetta. Það gæti náttúrlega verið gott, t. d. fyrir Útvegsbanka Íslands h/f, sem hv. 5. þm. Reykv. er bankastjóri fyrir, að fá slík viðskipti við menn að lána þeim fé, með útlánsvöxtum að sjálfsögðu, og fá til tryggingar sparisjóðsbækur við sama banka, þar sem féð væri geymt með lægri vöxtum. Þetta væri gott fyrir hans stofnun. En ég get nú ekki fallizt á, að slíkt væru heilbrigð viðskipti frá almennu sjónarmiði eða til heilla fyrir þjóðfélagið, að gera ráðstafanir til þess, að menn gætu með slíkum viðskiptabrögðum komið sér undan sköttum og gjöldum, bæði til ríkis og sveitarfélaga, að verulegu leyti.